lock search attention facebook home linkedin twittter

Hvernig er best að svara persónu­leika­prófum?

Þegar persónuleikaprófunum (OPQ32 eða CCSQ) er svarað er nauðsynlegt að hugsa um þá hegðun, hugsun eða tilfinningar sem eru helst dæmigerðar fyrir svaranda við vinnuaðstæður, þ.e. hvað sé alla jafna mest einkennandi fyrir svaranda sem og hvað sé minnst einkennandi. Við mat á persónuleika er ekki verið að meta hæfni eða getu. Þess vegna eru ekki til nein rétt eða röng svör í persónuleikaprófum.

Mikilvægt er að svara af heiðarleika og hreinskilni um það hvernig maður hegðar sér venjulega. Gæta þarf þess að falla ekki í þá gryfju að svara eins og fólk heldur að sé réttast eða viðeigandi eða jafnvel hvernig viðkomandi langar til að aðrir líti á sig. Oftast er það svar sem kemur fyrst upp í hugann við lestur spurningar það sem á best við. Það er því mikilvægt að svarandi dvelji ekki of lengi við hvert atriði heldur svari því sem honum dettur fyrst í hug. Að auki er áríðandi að svara öllum spurningunum. Þegar farið er eftir þessum leiðbeiningum ætti niðurstaða persónuleikaprófs að gefa góðar upplýsingar um persónuleika svaranda og styðja við að réttur maður fari á réttan stað.