lock search attention facebook home linkedin twittter

Hagnýt ráð fyrir umsækj­endur Vinna.is

Mikilvægur liður í því að kynna sig og koma sér á framfæri er að setja upp greinagóða og vandaða ferilskrá og oftast er einnig farið fram á að umsókn fylgi kynningarbréf.

Ferilskráin

Ferilskrá er til þess gerð að kynna sig fyrir fyrirtækinu sem þú hefur áhuga á að vinna hjá. Í henni þarf að skýra frá menntun, reynslu og hæfni. Mikilvægt er að ferilskráin sé vel unnin og er hæfileg lengd á ferilskrá 1-2 blaðsíður.


Það sem koma þarf fram á ferilskrá:
 • Persónulegar upplýsingar: þarna er átt við fullt nafn, símanúmer og netfang. Gott er að láta mynd umsækjanda fylgja með.
 • Menntun og starfsreynsla, eftir tímabilum: þarna er gott að hafa nýjasta starfið efst og einnig að skrifa eina til tvær setningar um hlutverk og ábyrgð í starfi.
 • Önnur hæfni: þetta geta verið t.d. tungumála- og tölvukunnátta en mikilvægt er að fram komi sú hæfni sem beðið er um í auglýsingu þess starfs sem þú sækir um.
 • Umsagnaraðilar: Gott er að tilgreina 2-3 umsagnaraðila.
 • Vistið ferilskrá á PDF formi undir nafni og ferilskrá. T.d. „Jón Jónsson – ferilskrá“.

Það sem ber að varast:

 • Of mikill orðaflaumur, hafa heldur stuttar og hnitmiðaðar setningar.
 • Að telja ekki til þá reynslu sem ætlast er til starfsins.
 • Passið stafsetningu, látið annan aðila lesa yfir áður en ferilskrá er send.

Sniðmát af ferilskrám má finna víðs vegar um internetið.

 

Kynningarbréfið

Kynningarbréf er ítarlegra og persónulegra en ferilskráin. Vel uppbyggt kynningarbréf á að vekja áhuga á að skoða viðkomandi nánar. Markmið þess er að gefa til kynna hversu vel umsækjandi uppfyllir hæfniskröfur.


Það sem þarf að koma fram í kynningarbréfi:
 • Kynning á að umsækjandi sæki um tiltekið starf og hver ástæða umsóknar er.
 • Mikilvægt er að í kynningarbréfi sé tekið fram hvernig umsækjandi mætir þeim hæfniskröfum sem gerðar eru fyrir starfið og hvernig hann sér sjálfan sig passa í starfið með tilliti til fyrri reynslu. Þetta skiptir mjög miklu máli þegar sótt er um opinber störf.
 • Bréfið endar á persónulegri nótum um að mikill áhugi sé fyrir hendi og ítrekið hvar er hægt að á í umsækjanda í síma og netfangi.
 • Gott er að hafa kynningarbréf ekki lengra en sem nemur hálfri til einni blaðsíðu. Munið í upphafi bréfs að ávarpa þann sem er titlaður fyrir starfinu og hafa nafn ykkar og tengslaupplýsingar til staðar.


  Dæmi um einfalda uppbyggingu kynningarbréfs:
  Tilgreinið hverja hæfnikröfu og skrifið undir hverri þeirra hver reynsla þín er. Æskilegt er að hvert svar sé ekki lengra en 200 orð.


  Það sem ber að varast:
  • Of löng bréf.
  • Ítarlegar lýsingar á mannkostum ykkar, þá er aldrei hægt að meta á pappír.
  • Útlistun á ættartali. Það er í lagi að tiltaka fjölskylduaðstæður, en upptalningar á föður, móður, systkinum  o.s.frv. er ofaukið.
  • Að endurskrifa ferilskrána í samfelldum texta.

Atvinnuviðtalið

Svona getur þú undirbúið þig fyrir atvinnuviðtalið:
Áður en farið er í atvinnuviðtal er gott að hafa eftirfarandi atriði í huga:
 • Veit ég eitthvað um fyrirtækið? Skoða vefsíðu fyrirtækisins.
 • Hvert á ég að mæta og klukkan hvað?
 • Er klæðnaður minn viðeigandi?
 • Jákvætt hugarfar og bros ættu ávallt að vera með í för.

 • Spurningar til þín:
  Skoðaðu vel þær hæfnikröfur sem gerðar eru til starfsins. Vertu tilbúin/nn að svara með dæmum þegar þú ert spurð/ur um reynslu, hvort sem er af hlutlægum eða huglægum þáttum.


  Dæmi um uppbyggingu spurninga:
  “Getur þú nefnt okkur dæmi þar sem þú sýndir sveigjanleika í þínum vinnubrögðum, hverjar voru aðstæðurnar?”
  “Hver er reynsla þín af fjármálum og rekstri, hvert var umfangið, tíminn, hlutverk og ábyrgð því tengt?”


  Hvernig á að svara?:
  Í viðtölum er leitast eftir svörum með dæmum úr reynslu, hvort sem er úr vinnuumhverfi, skóla eða sjálfboðastarfi.
  Þegar þú svarar spurningum, hafðu það í huga að svar þitt sé vel upp byggt, þ.e. að lýsing þín hafi upphaf, miðju og enda. Leggðu áherslu á að lýsa aðstæðum sem þú varst í, hvert þitt hlutverk var, hver var aðgerðin eða ákvarðanir sem þú tókst og að lokum hver niðurstaðan eða útkoman var. Mikilvægt er að þarna komi skýrt fram hvert þitt framlag var, notaðu orðið „ég“ en ekki „við“ þegar þú lýsir aðgerðum.
  Það er mikilvægt að gefa nákvæm, skýr og heiðarleg svör.


  Spurningar sem þú getur spurt um í viðtali:
 • Hver yrði næsti stjórnandi?
 • Hvers vegna er þessi staða laus?
 • Er möguleiki á starfsþróun innan fyrirtækisins?
 • Er starfsmannafélagið virkt?
 • Hvernig lýsir þú menningu fyrirtækisins?
 • Hversu margir starfa hjá fyrirtækinu og í hversu mörgum deildum?
 • Hver er meðalaldurinn innan fyrirtækisins?
 • Hvert er kynjahlutfallið innan fyrirtækisins?