lock search attention facebook home linkedin twittter

Hagnýt ráð fyrir umsækj­endur Vinna.is

Mikilvægur liður í því að kynna sig og koma sér á framfæri er að setja upp greinagóða og vandaða ferilskrá og oftast er einnig farið fram á að umsókn fylgi kynningarbréf.

Ferilskrá

Ferilskrá er til þess gerð að kynna sig fyrir fyrirtækinu sem þú hefur áhuga á að vinna hjá. Í henni þarf að skýra frá menntun, reynslu og hæfni. Mikilvægt er að ferilskráin sé vel unnin og er hæfileg lengd á ferilskrá 1-2 blaðsíður.

Það sem koma þarf fram á ferilskrá:

 • Persónulegar upplýsingar: þarna er átt við fullt nafn, símanúmer og netfang. Gott er að láta mynd umsækjanda fylgja með.
 • Menntun og starfsreynsla, eftir tímabilum: þarna er gott að hafa nýjasta starfið efst og einnig að skrifa eina til tvær setningar um hlutverk og ábyrgð í starfi.
 • Önnur hæfni: þetta geta verið t.d. tungumála- og tölvukunnátta en mikilvægt er að fram komi sú hæfni sem beðið er um í auglýsingu þess starfs sem þú sækir um.
 • Umsagnaraðilar: Gott er að tilgreina 2-3 umsagnaraðila.
 • Vistið ferilskrá á PDF formi undir nafni og ferilskrá. T.d. „Jón Jónsson – ferilskrá“.

Það sem ber að varast:

 • Of mikill orðaflaumur, hafa heldur stuttar og hnitmiðaðar setningar.
 • Að telja ekki til þá reynslu sem ætlast er til starfsins.
 • Passið stafsetningu, látið annan aðila lesa yfir áður en ferilskrá er send.

 

Kynningarbréf

Kynningarbréf er ítarlegra og persónulegra en ferilskráin. Vel uppbyggt kynningarbréf á að vekja áhuga á að skoða viðkomandi nánar. Markmið kynningarbréfs er að gefa til kynna hversu vel umsækjandi uppfyllir hæfniskröfur.

Það sem þarf að koma fram í kynningarbréfi:

 • Kynning á að umsækjandi sæki um tiltekið starf og hver ástæða umsóknar er.
 • Mikilvægt er að í kynningarbréfi sé tekið fram hvernig umsækjandi mætir þeim hæfniskröfum sem gerðar eru fyrir starfið og hvernig hann sér sjálfan sig passa í starfið með tilliti til fyrri reynslu. Þetta skiptir mjög miklu máli þegar sótt er um opinber störf.
 • Bréfið endar á persónulegri nótum um að mikill áhugi sé fyrir hendi og ítrekið hvar er hægt að á í umsækjanda í síma og netfangi.
 • Gott er að hafa kynningarbréf ekki lengra en sem nemur hálfri til einni blaðsíðu. Munið í upphafi bréfs að ávarpa þann sem er titlaður fyrir starfinu og hafa nafn ykkar og tengslaupplýsingar til staðar.

Það sem ber að varast:

 • Of löng bréf.
 • Ítarlegar lýsingar á mannkostum ykkar, þá er aldrei hægt að meta á pappír.
 • Útlistun á ættartali. Það er í lagi að tiltaka fjölskylduaðstæður, en upptalningar á föður, móður, systkinum  o.s.frv. er ofaukið.
 • Að endurskrifa ferilskrána í samfelldum texta.

Atvinnuviðtal

Áður en farið er í atvinnuviðtal er gott að hafa eftirfarandi atriði í huga:

 • Hver er ég?
 • Hvaða eiginleika / hæfileika hef ég?
 • Hverjir eru styrkleikar og veikleikar mínir?
 • Hvað vil ég? Hvernig passar starfið við framtíðarmarkmiðin?
 • Hverjar eru hæfniskröfur fyrir starfið?
 • Hvernig passar menntun og reynsla mín í starfið?
 • Veit ég eitthvað um fyrirtækið? Skoða vefsíðu fyrirtækisins.
 • Hvert á ég að mæta og klukkan hvað?
 • Er klæðnaður minn viðeigandi?
 • Jákvætt hugarfar og bros ættu ávallt að vera með í för.