lock search attention facebook home linkedin twittter

Er skulda­bréfa­mark­aður að bregðast of hart við mælingu vísi­tölu neyslu­verðs?

Meðfylgjandi er skuldabréfayfirlit vikunnar

Verðbólguskellur: Örlítil verðhjöðnun var í janúar en vísitala neysluverðs lækkaði um 0,09%. Flestar spár gerðu ráð fyrir umtalsverðri verðhjöðnun í janúar eða 0,45% til 0,6%. Verðbólguspá Capacent hljóðaði upp á 0,5% verðhjöðnun og að 12 mánaða verðbólga yrði óbreytt í 1,9% en hún hækkaði í 2,4%.

Sveiflukenndir liðir: Helsta frávik í spá Capacent lá í fasteignalið vísitölu neysluverðs. Fasteignaverð á landsbyggðinni tók óvæntan kipp og hækkaði um 5,4%. Í desember lækkaði hins vegar fasteignaverð á landsbyggðinni um 3,2%. Á mynd 4 má sjá að miklar sveiflur eru í fasteignaverði á landsbyggðinni og í kjölfar lágrar mælingar kemur iðulega há mæling og öfugt. Út frá sögulegri hegðun mætti því búast við fremur lítilli hækkun í næsta mánuði. Miklar sveiflur í mælingum fasteignaverðs á landsbyggðinni vekur spurningar um nákvæmni mælinga. Frávik í spá greiningardeildar vegna vanmats á hækkun fasteignaliðar útskýrir 0,22% frávik í spá.

Mun verðbólgan ganga til baka í næsta mánuði? Lækkun á verði vegna útsala var lítillega minni en á sama tíma í fyrra. Capacent gerði ráð fyrir að verðlækkanir vegna útsala yrðu svipaðar og í fyrra og ofmat útsöluáhrif. Ofmat á útsöluáhrifum útskýrir frávik í spá upp á 0,1%. Minni lækkun verðs vegna útsala ætti að þýða að verðhækkanir vegna útsöluloka verða minni en í fyrra. Flugfargjöld taka jafnan dýfu í janúar. Lækkun á flugfargjöldum var þó minni nú í janúar en á sama tíma í fyrra. Flugfargjöld hækka oftast í febrúar en líklegt er að hækkun flugfargjalda verði heldur minni nú í febrúar en á sama tíma í fyrra þar sem lækkun á verði flugfargjalda var ekki jafn kröftug nú í janúar og á sama tíma í fyrra. Minni lækkun flugfargjalda útskýrir frávik í spá sem nemur 0,05%.

Er skuldabréfamarkaður að bregðast of hart við mælingu vísitölu neysluverðs? Af upptalningunni hér að framan má ráða að ástæða óvæntrar hækkunar vísitölu neysluverðs nú í janúar er vegna þess að margir sveiflukenndir liðir sveifluðust allir í sömu átt. Það er ekkert sem segir að þeir geti ekki allir komið á óvart í næstu mælingu vísitölunnar í febrúar og sveiflast í hina áttina.

Skoða greiningu →