lock search attention facebook home linkedin twittter

Víðáttu vitlaus að vanda

Meðfylgjandi er skuldabréfayfirlit vikunnar

Víðáttu vitlaus að vanda: Capacent var nokkuð langt frá markinu í hinni mánaðarlegu verðbólguspá, annan mánuðinn í röð. Capacent spáði um 0,17% hækkun vísitölu neysluverð í nóvember en vísitalan lækkaði um 0,16%. Frávik í spá Capacent útskýrist að mestu af tveimur þáttum. Flugfargjöld lækkuðu um 17% en Capacent gerði ráð fyrir 7% lækkun sem útskýrir um 0,1% frávik í spá. Verð á fatnaði lækkaði um 3,5% en Capacent gerði ráð fyrir lítilsháttar hækkun á verði fatnaðar eins og jafnan á þessum árstíma. Frávik í spá á verði fatnaðar útskýrir um 0,17% frávik í spá. Flugfargjöld sveiflast að öllu jöfnu mikið í verði en ef ekki hefði komið til ártíðabundinnar lækkunar á flugfargjöldum hefði vísitala neysluverðs nær staðið í stað á milli mánaða. Það vekur athygli að ýmiss innfluttur varningur lækkaði í verði korter fyrir jól. Auk fatnaðar, lækkaði verð húsgagna, heimilisbúnaðar og bifreiða. Húsnæðisverð hækkaði um rúmlega 0,7% í nóvember sem jafngildir tæplega 9% hækkun á ársgrunni sem var í takt við væntingar Capacent.

Væntingar um aukna verðbólgu á næstu mánuðum:  Á mynd 1 má sjá að óverðtryggði vaxtaferilinn er fremur stíft upphallandi sem bendir til þess að fjárfestar vænti vaxandi verðbólgu. Það sem vekur þó eftirtekt er að ávöxtunarkrafa RIKB20 er aðeins 4,55% en flestar verðbólguspár gera ráð fyrir að verðbólgan nái toppi seinni hluta árs 2018 eða í upphafi árs 2019 og verði um 3%.

Gengi verðtryggðra bréfa hækkaði í síðustu viku: Gengi verðtryggðra skuldabréfa hækkaði um 0,2% að meðaltali í síðustu viku. Gengi óverðtryggðra skuldabréfa var hins vegar óbreytt í síðustu viku. Þrátt fyrir óvænta verðhjöðnun í nóvember hefur gengi óverðtryggðra ríkisbréfa lækkað örlítið það sem af er dags. Ástæðu þess má líklega rekja til rúmlega hálfs prósents gengisveikingu krónu það sem af er degi.

Skoða greiningu →