lock search attention facebook home linkedin twittter

Stjarfur horfi ég út í tómið

Meðfylgjandi er vikulegt skuldabréfayfirlit vikunnar

Dauðaþögn á skuldabréfamarkaði: Afskaplega rólegt var á skuldabréfamarkaði vikuna fyrir kosningar. Gengi óverðtryggðra bréfa hækkaði örlítið í síðustu viku eða um 0,06% að meðaltali. Gengi verðtryggðra bréfa hækkaði örlítið í síðustu viku eða um 0,02% að meðaltali.

Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra skuldabréfa: Óvenjulega mikill munur er á ávöxtunarkröfu, RIKB19 og RIKB20. Engin sérstök ástæða virðist liggja þar að baki en framvirki óverðtryggði ferillinn gefur til kynna að bestu kaupin séu í RIKB20.

Stjarfur horfi ég út í tómið: Stefnuleysi virðist vera á skuldabréfamarkaði. Verðbólgan síðastliðin eitt til tvö ár hefur verið undir 2% en tveir kraftar hafa togast á. Lækkandi verð innfluttra vara og hækkandi húsnæðisverð. Flest bendir til að lækkun innfluttra vara hafi stöðvast.  Á móti hefur dregið úr spennunni á fasteignamarkaði. Útlit er fyrir að verðbólga hækki örlítið vegna þessa og fari í um 2,5% en ekki mikið hærra en það. Ef þetta verður raunin má búast við frekari vaxtalækkunum. Á móti kemur að líkurnar á verðbólguskoti virðast alltaf vera að aukast. Laun hafa hækkað langt umfram verðlagsþróun síðustu ár og kjarasamningar eru lausir hjá yfir 20 þúsund launþegum, meðal annars kennurum. Miklum launahækkunum fylgir oftast aukin verðbólga. Ef þingflokkar ætla að standa við kosningaloforð er útlit fyrir verulega útgjaldaaukningu sem eykur verðbólguþrýsting. Hvor sviðsmyndin verður ofan á er erfitt að segja til um.

Verðbólguáhætta: Capacent hefur í gegnum tíðina tekið saman mælingu á verðbólguáhættunni. Oft er sett samasemmerki milli verðbólguálags og verðbólguvæntinga. Það er ekki fyllilega rétt en verðbólguálag samanstendur af verðbólguvæntingum og verðbólguáhættu (risk premium). Töluverð óvissa fylgir framþróun verðbólgu og eru flestir fjárfestar tilbúnir að greiða nokkuð umfram verð fyrir það öryggi sem fylgir verðtryggingunni og er þetta verð gjarnan kallað verðbólguáhætta eða risk premium. Á mynd 4 má sjá að töluvert meiri áhætta er að fjárfesta í óverðtryggðum skuldabréfum til 5 ára en að fjárfesta í óverðtryggðum skuldabréfum til 9 ára. Megin ástæða þess er að verðbólguálag til 5 ára er 2,45% en 2,75% til 9 ára. Þær forsendur sem við gefum okkur er núverandi verðbólga sem er 1,9% og staðalfrávik verðbólgunnar síðastliðin 5 ár sem er rúmlega 1%. Þannig eru meiri líkur á að verðbólgan verði að meðaltali yfir 2,45% til næstu 5 ára en yfir 2,75% til næstu 9 ára.

Skoða greiningu →