lock search attention facebook home linkedin twittter

Hluta­bréfayf­irlit í kjölfar 2. ársfjórð­ungs 2017

Meðfylgjandi er ársfjórðungslegt hlutabréfayfirlit

Markaðsgengi og verðmat Capacent:  Samkvæmt verðmötum Capacent er markaðsgengi tíu félaga undir verðmatsgengi á meðan markaðsgengi sex félaga er yfir verðmatsgengi. Almennt er hlutabréfaverð fremur lágt á markaði samkvæmt verðmötum Capacent. Af þeim félögum sem Capacent telur markaðsgengi vera of hátt skera tvö félög sig úr en það er Össur og Grandi. Stærsti keppinautur Össurar á stoðtækjamarkaði, William Demant, hefur aukið hlut sinn í Össuri stöðugt á síðustu misserum. Líklegt er að verð Össurar á markaði endurspegli ákveðið yfirtökuálag. Verðkennitölur Össurar eru einnig langtum hærri en annarra félaga sem eru á íslenskum hlutabréfamarkaði. Nokkur munur er á markaðsvirði Granda og verðmati Capacent. Capacent telur áhættuna af fjárfestingu í sjávarútvegi umtalsverða og líklega meiri en aðilar á markaði. Einnig eru rekstrarkennitölur Granda í hærra lagi. Vanmetnasta félagið á markaði eru Hagar að mati Capacent en eftir að Costco kom á íslenskan smásölumarkað hefur gengi Haga lækkað um 33%. Útlit er fyrir að uppgjör Haga sem birtist í næstu viku muni endurspegla þá erfiðu tíma sem Hagar eru að ganga í gegnum. Til lengri tíma telur Capacent að áhrif af innkomu Costco á innlendan smásölumarkað sé ekki jafn dramatísk og lækkun á markaðsvirði endurspeglar. Hagar hafa staðið í ýmsum hagræðingaraðgerðum sem líklega munu ekki koma fram í rekstri að fullum þunga fyrr en á næsta ári.

Ávöxtun hlutabréfa frá verðmati: Athygli vekur að tryggingarfélögin eru ekki lengur meðal vanmetnustu félaga á markaði. Tryggingarfélögin hafa hækkað mikið frá útgáfu verðmats og það sama er að segja um Skeljung sem hefur hækkað um rúmlega 12%. Skeljungur var eitt vanmetnasta fyrirtækið á markaði þegar verðmat var gefið út og var markaðsgengi félagsins um 25% of lágt að mati Capacent. Össur og Grandi hafa bæði gefið heldur eftir frá verðmati en gengi þeirra er þó enn of hátt að mati Capacent.

Ávöxtun hlutabréfa síðastliðið ár: Tryggingarfélögin og fjarskiptafélögin hafa skilað hæstri ávöxtun auk Marels síðastliðna 12 mánuði. Samkvæmt verðmötum Capacent standa félögin undir verðhækkunum á markaði. Gengi fasteignafélaganna hefur verið fremur dapurt síðastliðið ár. Gengi þeirra hafði þó hækkað mikið árið 2016. Nokkrir þættir hafa áhrif á gengi fasteignafélaganna. Fyrir það fyrsta gætir aukinnar svartsýni um  innlendan verslunarrekstur, auk þess sem umtalsvert er að draga úr fjölgun erlendra ferðamanna. Einnig er rétt að hafa í huga að verðkennitölur íslenskra fasteignafélaga eru orðnar nokkuð háar í samanburði við verðkennitölur fasteignafélaga á Norðurlöndum. Á móti kemur að almenn lækkun vaxtastigs síðastliðna mánuði hefði átt að koma fram í gengi fasteignafélaganna sem hún hefur ekki gert. Að mati Capacent eru Reitir og Eik heldur undirverðlögð. Botnsætið verma Icelandair og Hagar. Hagar eru að ganga í gegnum erfitt tímabil og líklegt að fréttir af félaginu verði ekki sérstaklega jákvæðar næstu vikurnar. Hins vegar er markaðsgengi félagsins of lágt að mati Capacent og gæti verið spennandi félag fyrir þolinmóða fjárfesta.

Skoða greiningu →