lock search attention facebook home linkedin twittter

Fjar­skipti, uppfært verðmat í kjölfar sex mánaða uppgjörs 2017

Meðfylgjandi er uppfært verðmat á Fjarskiptum í kjölfar sex mánaða uppgjörs

Afkoma í takt við væntingar

Rekstur Fjarskipta á fyrri hluta ársins 2017 var að mestu í samræmi við væntingar eða örlítið lakari. Hagnaður félagsins nam 440 m.kr. eftir skatt samanborið við 445 m.kr. eftir skatt á sama árshelmingi árið áður. Rekstrarhagnaður félagsins fyrir afskriftir (EBITDA) nam 1.479 m.kr. samanborið 1.420 m.kr. á sama tíma í fyrra. Eins og hjá Símanum var samdráttur í sölu en hörð samkeppni er á símamarkaði. Samdráttur í sölu Fjarskipta á fyrsta árshelmingi ársins 2017 nam 3% samanborið við sama árshelming í fyrra.

Kaupin á 365 breyta miklu

Þegar síðasta verðmat var unnið á Fjarskiptum var verðmatið unnið út frá því að Fjarskipti myndu sameinast 365 miðlum. Stjórnendur Fjarskipta hafa birt helstu forsendur og væntingar vegna kaupa á fjarskipta-, sjónvarps- og útvarpsrekstri 365 miðla og vefmiðlinum Vísi. Áætlanirnar gera ráð fyrir að tekjur aukist um 60% eða fari úr tæpum 14 ma.kr. í 22 ma.kr. EBITDA hins keypta er áætluð 1.750 m.kr. með fullri samlegð sem raungerist á 12 til 18 mánaða tímabili. Kaupverðið er samtals 7,8 milljarðar og því er EV/EBITDA margfaldari miðað við fulla samlegð um 4,5.

Mikill ávinningur og mikil áhætta

Nú hefur Samkeppniseftirlitið samþykkt kaup Fjarskipta á 365 miðlum. Töluverð áhætta felst í kaupum Fjarskipta á 365 miðlum og eiga slík kaup til að skila lakari árangri en vonast er til. Vegna óvissu og áhættu sem fylgir þessum kaupum kaus Capacent að hafa hátt áhættulag á eigin fé Fjarskipta. Fjármagnskostnaður (WACC) Fjarskipta var 9% á raungrunni og ávöxtunarkrafa til eigin fjár 14%. Dregið hefur úr óvissunni í kjölfar þess að Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt samruna Fjarskipta og 365 miðla. Capacent hefur lækkað áhættuálag á eigið fé Fjarskipta og er ávöxtunarkrafa til eigin fjár 13,6% og er veginn fjármagnskostnaður nú 8,8%. Auk lægra áhættuálags hafa raunvextir lækkað á markaði. Lægri fjármagnskostnaður leiðir til þess að verðmatið hækkar um 5%. Capacent hefur einnig farið yfir rekstrarspá sína fyrir Fjarskipti. Þótt að rekstur hafi í grófum dráttum verið í samræmi við væntingar var framlegð örlítið lægri svo og tekjur.  Endurskoðun á rekstrarspá lækkar verðmatið um 3,5%.

Verðmatsgengi 75,2

Verðmat Capacent á Fjarskiptum hækkar um 1,5% og er nú 20,5 ma.kr. og verðmatsgengi 75,2 en eldra verðmat var 20,2 ma.kr. og verðmatsgengi 74,2. Verðmatsgengi Capacent á Fjarskiptum lá lengst af í kringum 48 og var um 5 til 10% hærra en gengi á markaði. Ljóst er að kaupin á 365 miðlum mun auka verðmæti Fjarskipta verulega ef áætlanir Fjarskipta ganga eftir. Verðmatsgengi Capacent á Fjarskiptum er 75,2 þrátt fyrir hraustlegt áhættuálag og raunfjármagnskostnað sem nemur 8,8%. Verðmatsgengið er 14% yfir gengi á markaði en sameiningin hækkar verðmat Capacent um tæplega 40% en verðmat Capacent á Fjarskiptum án 365 miðla er 14,9 ma.kr. Gengi Fjarskipta hefur hækkað um 30% eftir að ljóst varð að félagið myndi sameinast 365 miðlum. Sú hækkun virðist þó ekki vera nægileg miðað við vænt jákvæð áhrif samrunans á rekstur Fjarskipta.

Skoða greiningu →