lock search attention facebook home linkedin twittter

Íslenski hest­urinn eða kínverski drekinn?

Meðfylgjandi er skuldabréfayfirlit vikunnar

Vitlaus Þórólfur? Íslenskir embættismenn eru sífellt að koma á óvart þessa dagana og engu líkara en þeir hafi ýtt á vitlausan takka. Vaxtalækkun Seðlabankans var ein þeirra ákvarðana sem kom á óvart en Seðlabankinn hefur lækkað vexti fimm sinnum í núverandi efnahagsuppsveiflu en vextir á bundnum innlánum sem bankinn kallar stýrivexti hafa lækkað úr 5,75% í 4,25% á rúmlega einu ári. Fátt virðist útskýra þessar lækkanir á stýrivöxtum.

Íslenski hesturinn eða kínverski drekinn? Ef horft er til hefðbundinna hagstærða líkt og til hagvaxtar og atvinnuleysis bendir það ekki til þess að skynsamlegt hafi verið að lækka vexti. Kínverskt efnahagsástand hefur ríkt síðustu tvö árin og var hagvöxtur á síðasta ári vel yfir 7% og gera spár ráð fyrir 5 til 6% hagvexti í ár. Umfram eftirspurn hefur verið eftir vinnuafli í mörgum atvinnugreinum og hafa laun hækkað á annan tug prósenta síðustu 2 árin. Íslenski hesturinn hefur því haft í fullu tré við kínverska drekann upp á síðkastið.

Náttúrulegt raunvaxtastig 1%? Líkt og viðbúið var, hóf Seðlabankinn stýrivaxtahækkunarferli 2015 samfara aukinni spennu í hagkerfinu líkt og sjá má á mynd 3. Í kjölfar stýrivaxtahækkana bankans hækkuðu raunstýrivextir og náðu hámarki í 4 til 5% um mitt ár 2016. Hins vegar má sjá á mynd 4 skýra stefnubreytingu í lok árs 2016 er raunstýrivaxtastig lækkaði í 3% og hefur heldur farið lækkandi síðustu mánuði. Raunstýrivextir nú eru 2,8% og ef verðbólguspá Seðlabanka gengur eftir munu raunstýrivextir lækka í 2,2% um áramótin. Í yfirlýsingu peningastefnunefndar er gefið undir fótinn með frekari stýrivaxtalækkanir.  Þetta vekur sérstaka athygli þar sem að í ljósi spár Seðlabankans um verðbólgu og um framleiðsluspennu má draga þá ályktun að Peningamálastefnunefnd telji að náttúrulegt raunvaxtastig á Íslandi sé um 1%. Það eru stórar fréttir þótt þær séu dregnar fram með því að lesa á milli línanna. Ef það er rétt blasir við gjörbreytt mynd á íslenskum fjármálamarkaði í framtíðinni.

Frábærar vikur á skuldabréfamarkaði: Síðustu tvær vikur hafa verið framúrskarandi á skuldabréfamarkaði en gengi óverðtryggðra skuldabréfa hækkaði um 1,2% að meðaltali í síðustu viku og um 1,5% það sem af er þessari viku. Eftir dapra síðustu viku hefur gengi verðtryggðra skuldabréfa hækkað um 1,1% að meðaltali í þessari viku.

Skoða greiningu →