lock search attention facebook home linkedin twittter

Viku­legt skulda­bréfayf­irlit, ágúst 2017

Meðfylgjandi er skuldabréfayfirlit vikunnar

Haustið kom með kulda og kava: Aukin svartsýni virðist hafa færst yfir verðbréfamarkað að undanförnu og hafa verðbólguvæntingar markaðsaðila hækkað hratt síðustu daga. Gengi óverðtryggðra skuldabréfa lækkaði að meðaltali um 0,8% í síðustu viku en gengi verðtryggðra bréfa hækkaði að meðaltali um 0,4%. Verðbólguálag hækkaði í kjölfarið en verðbólguálag til 8 ára er nú 2,78% en til 4 ára 2,35%. Að mati Capacent á þó munurinn að vera minni en „verðbólguskot“ til 1 árs upp á um 3% hefði töluvert meiri áhrif á ríkisbréf með líftíma til um 4 ára en til 8 ára.

Kvíðakast veldur gengisstyrkingu: Í kjölfar kvíðakasts greiningardeildar og svartsýni um verðbólguþróun eftir nær samfellda gengisveikingu, styrktist gengi krónunnar um 3%.  Gengi krónunnar nú er því jafn sterkt og það var að meðaltali á fyrstu 3 mánuðum ársins. Væntingar greiningardeildar er varða verðbólguna eru næstum jafn óútreiknanlegar og gengi krónunnar sjálfrar. Capacent er nú örlítið bjartsýnna á verðbólguþróun en fyrir helgi. Það getur þó breyst fljótt ef gengi krónunnar fer að veikjast aftur. Miklar sveiflur í gengi krónu eru ekki til þess fallnar að auka trúverðugleika Seðlabanka og traust á peningamálastjórn. Einnig auka miklar sveiflur krónunnar og lítill fyrirsjáanleiki allan viðskiptakostnað innlendra fyrirtækja og kaupmanna.

Þarf að taka það fram…? Capacent telur líklegast að Seðlabankinn haldi stýrivöxtum óbreyttum í næstu viku. Helstu ástæðurnar eru að gengi krónunnar hefur veikst um 10% frá síðasta fundi. Hærra verðbólguálag og verðbólguvæntingar líkt og fjallað var um að framan og lækkun raunvaxtastigs. Það sem vegur á móti er að vísbendingar eru um dregið hafi úr spennu á fasteignamarkaði og útlit er fyrir að dragi úr framleiðsluspennu og hagvexti á næstu 1 til 2 árum. Það sem vegur þó þyngst í mótrökunum er að svo virðist sem að nokkur endurskoðun hafi verið á peningamálastefnunni og nú sé horft meira til vaxtamunar við útlönd og áhrifa hans á hagkerfið. Á vaxtalækkunarlínunni virðist Már seðlabankastjóri fara fremstur í flokki. Hins vegar er rétt að benda á að þótt hann telji að aðstæður hafi skapast sem réttlæti minni vaxtamun að þá álítur Már það langtíma verkefni að minnka vaxtamun og að raunvaxtamunur fari minnkandi samfara auknum trúverðugleika peningastefnunnar. Capacent telur að Seðlabankinn muni því halda stýrivöxtum óbreyttum en útilokar ekki 25 punkta stýrivaxtalækkun og vegur þar þyngst sú stefnubreyting sem hefur verið innan Seðlabankans síðastliðið ár.

Skoða greiningu →