lock search attention facebook home linkedin twittter

Verð­bólguspá, ágúst 2017

Meðfylgjandi er verðbólguspá ágústmánaðar

Vöxtur í verðbólgu: Capacent spáir 0,5% hækkun vísitölu neysluverðs (vnv) í ágúst. Ef spá Capacent um 0,5% hækkun vnv í ágúst gengur eftir mun 12 mánaða verðbólgan hækka í 2%.

Áhrif gengisveikingar koma fram: Gengi krónu hefur veikst samfellt síðan í byrjun júní og eru áhrif gengisveikingarinnar að byrja að koma fram í verðlagi vara sem hafa hvað mestan veltuhraða líkt og eldsneyti og innflutt matvæli.

Hressileg hækkun á eldsneytisverði: Heimsmarkaðsverð á olíu hækkaði skarpt í júlí auk þess sem gengi krónu hefur veikst nokkuð síðastliðnar vikur. Afleiðingarnar hafa komið fram í 3,5% hækkun á innlendu eldsneytisverði. Framangreind hækkun hefur um 0,07% áhrif á vnv til hækkunar. Á sama tíma í fyrra lækkaði eldsneytisverð um 4%.

Matvælaverð hækkar: Á þessum árstíma kemur innlent grænmeti á markað en innlent grænmeti er nokkru dýrara en það innflutta. Einnig gerir Capacent ráð fyrir að innfluttar matvörur líkt og ávextir hækki í verði vegna gengisveikingarinnar undanfarna mánuði.  Samtals gerir Capacent ráð fyrir um 0,5% hækkun á matvælaverði sem hefur 0,07% áhrif á vnv til hækkunar.

Minni verðhækkanir á fasteignamarkaði en umtalsverðar samt: Fasteignaliður vísitölu neysluverðs er 3 mánaða meðaltals hækkun fasteignaverðs á landinu öllu. Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,2% í síðasta mánuði en hefur hækkað um rúmlega 1,4% að meðaltali síðastliðna 3 mánuði. Capacent gerir ráð fyrir 1,2% hækkun fasteignaverð í ágúst. Þrátt fyrir að 1,2% hækkun fasteignaverðs sé umtalsvert minni en hækkun síðastliðinna mánaða, jafngildir 1,2% mánaðarleg hækkun rúmlega 15% hækkun á ársgrunni. Hækkun fasteignaverðs og annarra fasteignaliða hafa samtals 0,27% áhrif á vnv samkvæmt spá.

Árstíðabundnar útsölur: Árstíðabundnum útsölum á fatnaði og húsgögnum og heimilisbúnaði lýkur að mestu á þessum tíma árs. Útsölulok fata- og húsgagnaútsala hafa um 0,29% áhrif á vnv til hækkunar. Hins vegar hefjast útsölur á raftækjum í ágúst. Lægra verð raftækja hefur um 0,07% áhrif á vnv til lækkunar.

Óveruleg lækkun flugfargjalda: Samkvæmt könnun Capacent var óveruleg breyting á flugfargjöldum í ágúst en að öllu jöfnu lækka þau á þessum árstíma. Líklegt er að hækkun á olíuverði og gengisveiking krónu hafi hér áhrif á. Capacent gerir ráð fyrir örlítilli lækkun á flugfargjöldum eða 2,5% en þau lækkuðu um 5% á sama tíma í fyrra. Lækkun flugfargjalda hefur 0,03% áhrif á vnv til lækkunar. Ýmsar innfluttar vörur líkt og snyrtivörur og skartgripir hafa verið að lækka í verði og má líklega rekja lækkun á verði til gengisstyrkingar síðasta árs en veltuhraði þessara vara er mjög hægur. Áhrif þessara vara á vnv er 0,01% til lækkunar.

Sjá má verðbólguspá í viðhengi

Skoða greiningu →