lock search attention facebook home linkedin twittter

Skulda­bréfa­miðl­arar í sólbaði

Meðfylgjandi er vikulegt skuldabréfayfirlit

Skuldabréfamiðlarar í sólbaði: Lítið var um að vera á skuldabréfamarkaði í síðustu viku. Gengi ríkisbréfa var að meðaltali nær óbreytt í síðustu viku, gengi skemmri bréfa hækkaði örlítið á meðan gengi lengsta ríkisbréfsins RIKB31 lækkaði örlítið. Svipaða sögu er að segja af verðtryggðum skuldabréfum en gengi þeirra var nær óbreytt ef undanskilið er HFF24 en gengi þess hækkaði um 0,11% í síðustu viku.

Aukin áhættufælni á skuldabréfamarkaði: Óverðtryggði vaxtaferillinn verður meira upphallandi með viku hverri sem bendir til að áhættufælni fjárfesta á skuldabréfamarkaði sé að aukast. Munur á ávöxtunarkröfu RIKB19 og RIKB31 er um 20 punktar en þangað til í lok júní hafði óverðtryggði ferillinn verið verið flatur eða örlítið niðurhallandi. Örlítið upphallandi vaxtaferill gefur ekki endilega til kynna væntingar um vaxtahækkanir. Óverðtryggða vaxtaferlinum er eðlislægt að vera örlítið upphallandi vegna meiri áhættu sem fylgir fjárfestingu í skuldabréfum með lengri tíma. Líklega endurspeglar lögunin aukna áhættufælni fjárfesta og væntingar um aukna verðbólgu.

Munur milli verðbólguálags til 4 og 8 ára eykst stöðugt: Það sem hins vegar kemur á óvart er að fjárfestar hafa ekki verið samhverfir í fjárfestingum sínum en á mynd 4 má sjá verðbólguálag til 4 og 8 ára. Verðbólguálag til 4 ára hefur lítið hækkað á meðan verðbólguálag til 8 ára hefur hækkað hratt undanfarið og er komið í 2,6% en var lengst af á milli 2,2 og 2,3%. Þannig er munurinn á verðbólguálagi til 4 ára og 8 ára um 60 punktar en var um 10 til 15 punktar fyrir ári síðan. Skyndilegt verðbólguskot á næstu 2 til 3 árum eða vaxandi verðbólga á næsta ári ætti að hafa sömu áhrif á skammtíma óverðtryggð skuldabréf og langtíma óverðtryggð. Framangreint bendir til að ávöxtunarkrafa skammtíma óverðtryggðra skuldabréfa er of lág eða skammtíma verðtryggðra skuldabréfa of há. Að mati Capacent er lögum óverðtryggða ferilsins eðlileg nú um stundir og eðlilegt að ávöxtunarkrafa skammtíma óverðtryggðra bréfa sé lægri en langtíma óverðtryggðra. Það virðist því vera sem að ávöxtunarkrafa skammtíma verðtryggðra skuldabréfa (HFF24 og RIKS21) sé um 50 til 60 punktum of há.

Skoða greiningu →