lock search attention facebook home linkedin twittter

Skamm­tíma óverð­tryggð skulda­bréf undir­verð­lögð á markaði?

Meðfylgjandi er skuldabréfayfirlit vikunnar

Gengi verðtryggðra bréfa lækkar á sama tíma og gengi krónu veikist: Þrátt fyrir að gengi krónunnar veiktist um 2,7% lækkaði gengi verðtryggðra skuldabréfa um 0,5% að meðaltali í síðustu viku. Gengi óverðtryggðra bréfa hækkaði örlítið eða um 0,05% að meðaltali. Þetta er nokkur öfugþróun þar sem almennt mætti búast við að veiking krónu væri neikvæð frétt fyrir óverðtryggð skuldabréf en jákvæð fyrir verðtryggð skuldabréf. Verðbólguálag til 8 ára lækkaði við þessa þróun úr 2,4% í 2,33%.

Skammtíma óverðtryggð skuldabréf undirverðlögð á markaði? Óverðtryggði vaxtaferillinn bendir til þess að fjárfestar reikni með vaxtalækkun en þó ekki fyrr en eftir árið 2020. Kannski hefur Capacent eitthvað misskilið Seðlabankastjóra með að vaxtastig færi líklega lækkandi á næstu misserum. Capacent hélt að það væri á næstu 1 til 2 árum en ekki eftir 3 til 4 ár. Sjá má á mynd 2 af framvirkaferlinum að RIKB20 er hlutfallslega ódýrt m.v. RIKB22.

Nærri 80 punkta munur á HFF24 og HFF34: Athygli vekur að nærri 80 punkta munur er á milli HFF24 og HFF34. Erfitt er að finna skynsamleg rök fyrir jafn miklum mun í ávöxtunarkröfu.

Vísbendingar um að draga sé úr hækkun fasteignaverðs: Fasteignaverð í maí hækkaði um rúmlega 1,8% en Capacent hafði gert ráð fyrir um 2,5%. Capacent hefur því endurskoðað verðbólguspá sína upp á 0,24% hækkun júní í um 0,14% hækkun. Þótt að hækkun fasteignaverðs hafi verið minni nú en mánuðina á undan er hækkunin nú ekki óyggjandi vísbending um að draga sé úr spennu á fasteignamarkaði. Margir almennir frídagar voru í maí, auk þess sem oft hægir á fasteignamarkaði yfir sumarmánuðina.

Mikið ofsalega er greiningardeild fegin: Greiningardeild Capacent er ofsalega fegin að fjölgun gistinátta á hótelum var ekki meiri en 26% og að erlendir ferðamenn eyði nú minna í íslenskum krónum en áður. Þegar tölur birtust seint á síðasta ári um að ferðamönnum mundi fjölga um allt að 40% í ár virtist flest stefna í óefni. Fjölgun ferðamanna var þó mun meiri eða 55,7% á fyrstu fjórum mánuðum ársins m.v. sama tíma fyrir ári síðan. Líkleg ástæða þess að fjölgun gistinátta var ekki í samræmi við fjölgun ferðamanna er sú að ferðamenn dvelja skemur og að töluverður skortur er á hótelgistingu á höfuðborgarsvæðinu. Einnig er líklegt að ferðamenn nýti önnur gistiúrræði líkt og bílskott. Nýting hótela var á bilinu 80 til 96% á höfuðborgarsvæðinu í vetur en hótelnýting verður tæplega hærri en 95%. Í flestum atvinnugreinum þætti 26% aukning í umsvifum og væntanlega í tekjum frábærar fréttir. Í íslenskum krónum eyðir hver ferðamaður 16% minna en þó nærri óbreyttri fjárhæð í erlendum gjaldeyri. Greiningardeild segir bara hjúkket í ljósi þess að þeim fjölgaði um 55,7%.

Skoða greiningu →