lock search attention facebook home linkedin twittter

Skulda­bréfa­mark­aður lifnar við

Meðfylgjandi er skuldabréfayfirlit mánaðarins

Skuldabréfamarkaður að lifna við: Meira líf hefur færst yfir skuldabréfamarkað á síðustu vikum. Verðtryggð skuldabréf hafa tekið við sér og hafa verið miklar gengishækkanir á verðtryggðum skuldabréfum. Í síðustu viku hækkaði gengi verðtryggðra skuldabréfa um 0,5% að meðaltali. Gengi óverðtryggðra bréfa hækkaði um 0,25% að meðaltali í síðustu viku.

Sjá má á mynd 3 að ávöxtunarkrafa verðtryggðra bréfa hefur lækkað um 25 til 30 punkta á síðasliðnum mánuði og því hefur gengi verðtryggðra bréfa hækkað frá um 1,3% til 4,0% að viðbættri verðtryggingu. Þótt ávöxtunarkrafa óvertryggðra bréfa hafi einnig lækkað mikið að þá er líftími bréfanna frekar stuttur nema hjá RIKB25, RIKB28, RIKB31 en gengi þessara bréfa hefur hækkað um 2,3% til 3,3% síðastlðin mánuð.

Seðlabankinn kemur aðdáendum sínum sífellt á óvart: Greiningardeild Capacent hefur verið aðdáandi eða „grúppía“ Seðlabankans í nærri 20 ár. Síðastliðinn vetur skynjaði deildin að endurskoðun væri á peningastefnunni og eldri hugmyndum um hvert náttúrulegt raunvaxtastig væri á Íslandi. Gamla viðmiðið var að náttúrulegir raunvextir lægju á bilinu 3 til 3,5%. Þannig ættu raunvextir Seðlabanka að liggja á því bili ef hvorki væri spenna eða slaki í hagkerfinu. Á mynd 3 má sjá raunvaxtastig Seðlabanka frá 2003 fram til júní 2017 reiknað út frá veðlánavöxtum. Sjá má að á árunum fyrir hrun jókst aðhaldsstig peningastefnunnar stöðugt og fór raunvaxtastig stýrivaxta úr um 3,5% árið 2003 upp í 9,5% árið 2007. Eftir hrun var aðhaldsstig lágt og voru raunstýrivextir Seðlabanka neikvæðir um áramótin 2011 til 2012. Frá þeim tíma hafa raunvextirnir sífellt verið að hækka þangað til í vetur. Ákveðin straumhvörf virðast hafa verið í stefnunni í vetur en raunstýrivextir Seðlabankans hafa lækkað um rúmlega 1,5% síðastliðna 12 mánuði. Þessi stefnubreyting vekur athygli sérstaklega í ljósi þess að allar vísbendingar eru um að eftirspurnarþrýstingur hafi aukist í hagkerfinu. Seðlabankinn vill þó miða raunstýrivexti sína við vexti á bundnum innlánum. Ástæða þess er sú að ólíkt því sem var fyrir hrun er umfram eftirspurn var eftir fjármagni er nú umfram framboð. Þannig mynda innlánsvextir bankans vaxtagólf á fjármálamarkaði frekar en veðlánavextir. Á þennan mælikvarða eru raunvextir Seðlanka enn lægri eða 2,7%. Greiningardeild reiknaði með að Seðlabanki myndi hægt og rólega aðlaga sig að nýjum veruleika og lækka raunvaxtastig hægar en raunin hefur orðið. Í sögulegu samhengi eru raunstýrivextir upp á 2,7% á miklum þenslu tímum lágir. Það vakti því athygli greiningardeildar í yfirlýsingu peningastefnunefndar að nefndin taldi að raunvaxtastig upp á um 3,0% væri hærra en stefnt var að og lægra vaxtastig væri nægilegt til að halda verðstöðugleika við núverandi efnahagsástand.

Hversu mikið á raunvaxtastig eftir að lækka? Greiningardeildin veltir því fyrir sér hvað nefndin telur að nægilegt raunvaxtastig sé þegar hvorki er spenna eða slaki í hagkerfinu? 1,5% eða lægra? Mörg rök falla með því að raunvaxtastig á Íslandi fari sífellt lækkandi og nálgist raunvaxtastig í nágrannalöndum okkar. Þótt að mörgum finnist raunvaxtastig nú hátt er ekki svo langt síðan að Íbúðalánasjóður var einráður á fasteignalánamarkaði og fasteignaveðlán bankanna voru á 7 til 8% raunvöxtum.

Skoða greiningu →