lock search attention facebook home linkedin twittter

Verð­bólguspá júní 2017

Meðfylgjandi er verðbólguspá fyrir júní mánuð

12 mánaða verðbólgan hækkar í 1,8%: Capacent spáir 0,24% hækkun vísitölu neysluverðs (vnv) í júní. Ef spá Capacent um 0,24% hækkun vnv í júní gengur eftir mun 12 mánaða verðbólgan hækka úr rúmlega 1,7% í tæplega 1,8% en vísitala neysluverðs hækkaði um 0,18% júní 2016.

Hækkun á fasteignaverði: Capacent gerir ráð fyrir hraustlegri hækkun fasteignaverðs líkt og í síðasta mánuði. Í spánni er gert ráð fyrir að reiknuð húsaleiga sem er ígildi fasteignaverðs í vnv hækki um 2,5% sem jafngildir nærri 35% hækkun fasteignaverðs á ársgrundvelli. Capacent gerir ráð fyrir að fasteignaliður vnv hafi um 0,5% áhrif á vnv til hækkunar.

Er að draga úr hækkun á fasteignamarkaði? Töluverð umræða hefur verið í fjölmiðlum um fasteignamarkaðinn og að nokkuð sé að draga úr hækkunarhraða. Velta á fasteignamarkaði hefur örlítið dregist saman en vikuveltan í byrjun ársins var á bilinu 7,6 til 7,9 ma.kr. en hefur verið um 7,0 til 7,3 ma.kr. síðustu vikur. Rétt er að hafa í huga að einhver tími líður frá því að undirritun á kaupsamningi á sér stað og þangað til að samningnum er þinglýst og hann kemur fram í mælingum á fasteignaverði. Hækkun fasteignaverðs í vísitölu neysluverðs í júní miðast svo við hækkanir fasteignaverðs í maí. Ef dregið hefur úr hækkun fasteignaverðs á síðustu vikum byrjar áhrifanna líklega ekki að gæta í vnv fyrr en í ágúst. Ef spá Capacent gengur eftir hefur vísitala neysluverðs án húsnæðis lækkað um 3%.

Flugfargjöld hækka: Ef fasteignaverð er undanskilið er fátt að hækka í verði þessi dagana. Á þessum árstíma hækka þó flugfargjöld og gisting. Samkvæmt könnun Capacent  hafa flugfargjöld hækkað um 10% sem hefur um 0,14% áhrif á vnv til hækkunar. Gisting hefur sáralítil áhrif á vnv en Capacent gerir ráð fyrir 2,5% hækkun á gistingu sem hækkar vnv um 0,01%.

Matvælaverð lækkar skarpt: Samkvæmt lauslegri könnun Capacent hefur verið umtalsverð lækkun á matvælum en verð matvæla er fremur stöðugt og breytist lítið. Capacent gerir ráð fyrir um 1,5% lækkun matvælaverðs sem lækkar vnv um 0,2%.

Olíu- og eldsneytisverð lækkar: Olíuverð hefur lækkað úr um 51 til 54 dollurum tunnan um miðjan maí í tæplega 47 dollara tunnan nú um miðjan júní. Olíufélögin hafa lækkað eldsneytisverð hjá sér um 2 til 2,5% en Capacent gerir ráð fyrir að eldsneytisverð lækki um 2,5% sem hefur 0,05% áhrif á vnv til lækkunar.

Innfluttar vörur lækka: Það eru ekki aðeins matvörukaupmenn og olíufurstar sem finna fyrir aukinni samkeppni. Capacent gerir ráð fyrir að verð á öðrum innfluttum vörum lækki. Í þessum lið er fatnaður, raftæki, húsgögn, verkfæri ofl. Lækkun á þessum vörum mun leiða til um 0,16% lækkunar á vnv.

Húsnæði og opinber þjónusta hafa hækkað mest: Mynd hér til hliðar sýnir hækkun einstakra undirliða vísitölu neysluverðs. Auk húsnæðisverðs hefur opinber þjónusta hækkað umfram hækkun vísitölu neysluverðs og áfengi sem er undir áhrifum opinberra aðila. Hækkun framangreindra liða vekur athygli þegar aðrir liðir í vnv eru að lækka.

Verðbólguspá má skoða hér

Skoða greiningu →