lock search attention facebook home linkedin twittter

Costco fíll í hvern garð

Meðfylgjandi er skuldabréfayfirlit vikunnar

Á að kaupa gjaldeyri? Greiningardeild Capacent hefur verið spurð ákaft af því að undanförnu hvort ekki sé skynsamlegt að taka stöðu á móti krónunni og veðja á gengisveikingu. Greiningardeildin hefur fyllst örvæntingu og geðshræringu. Vissulega er raungengi krónunnar sterkt og líklega yfir jafnvægis raungengi. Af þeim sökum er ekki óskynsamlegt fyrir langtíma fjárfesta eins og lífeyrissjóði að fjárfesta erlendis. Það sama var upp á teningnum á árunum 2004 til 2005 er raungengið var hátt. Hins vegar veiktist krónan ekki fyrr en rúmlega 3 árum seinna. Staðan er þó allt önnur nú en þá. Afgangur er á viðskiptajöfnuði og því hefur styrking krónunnar verið „sjálfbær“ en á mynd 1 má sjá að mikil fylgni er á milli gengis krónu og viðskiptajafnaðar. Íslendingar eiga orðið meiri eignir erlendis en þeir skulda en ekki öfugt líkt og var á árum áður. Gjaldeyrisforði Seðlabankans er verulegur eða um 580 ma.kr. nettó. Viðskiptaafgangur á síðasta ári var um 190 ma.kr. og genigsstyrking tæplega 20%. Gengisstyrkingin átti sér stað þrátt fyrir að Seðlabanki Íslands hafi keypt gjaldeyri fyrir 41,7 ma.kr. á síðasta ári.

Að standa á móti snjóflóði: Líkurnar á gengisveikingu eru ekki miklar í ár en flestar spár gera ráð fyrir um 160 ma.kr. afgangi af viðskiptajöfnuði í ár. Seðlabankinn hefur hætt reglulegum gjaldeyriskaupum og spár um fjölgun ferðamanna í ár gera ráð fyrir allt að 40% fjölgun. Meira að segja álverð er hátt sem er þó orðin afgangsstærð er varðar sveiflur í gengi krónunnar á síðustu árum. Að mati Capacent er að líkt og að standa á móti snjóflóði að ætla að hagnast á gengisveikingu krónunnar til skamms tíma nema fjárfestar eigi 160 ma.kr. á lausu. Í það minnsta dugðu gjaldeyriskaup Seðlabanka í fyrra upp á 41,7 ma.kr. skammt til að sporna við gengisstyrkingu.

Costco fíll í hvern garð: Megin ástæða mikillar gengisstyrkingar liggur í aukningu í komu ferðamanna. Á mynd 2 má sjá þjónustujöfnuð sem til einföldunar eru tekjur Íslendinga af erlendum ferðamönnum á móti gjöldum Íslendinga erlendis. Á árunum fyrir hrun var hvorki halli eða afgangur af þjónustujöfnuði. Aðeins á þriðja ársfjórðungi í fyrra var afgangurinn kominn upp í 122 ma.kr. og miðað við vænta fjölgun ferðamanna er ekki óvarlegt að áætla að afgangurinn verði yfir 150 ma.kr. á þriðja ársfjórðungi í ár. Til að átta sig betur á þeim undirliggjandi kröftum sem eru með gengi krónunnar þá þyrftu Íslendingar að stinga 300 þúsund Costco fílum í innkaupakerruna á næstu 3 mánuðum til að jafna út innstreymi gjaldeyris vegna komu erlendra ferðamanna í sumar. Costco þyrfti að selja um 3.400 fíla á hverjum degi í sumar og næstum hvert mannsbarn að eiga einn Costco fíl í lok sumars. Íslendingar hafa löngum sýnt að allt er hægt með samstöðu og íslensku geðveikinni. Það er óþarfi að örvænta en skuldastaða heimilanna er góð, nóg af ónýttu veðrými og afborganir eru hausverkur morgundagsins. Með samstiltu átaki getum við veikt gengi krónunnar og bætt einum Costco fíl við matarkörfuna á vísa raðgreiðslum.

 

Skoða greiningu →