lock search attention facebook home linkedin twittter

Verð­bólguspá fyrir apríl 2017

Meðfylgjandi er verðbólguspá apríl mánaðar

Litlar sviptingar í verðbólgunni

Verðbólgan 1,7% í apríl: Capacent spáir um 0,24% hækkun vísitölu neysluverðs (vnv) í apríl. Tólf mánaða verðbólga hækkar lítillega eða úr rúmlega 1,6% í tæplega 1,7% en vísitala neysluverðs hækkaði um slétt 0,2% í apríl 2016.

Hærra olíuverð og hækkun flugfargjalda: Tveir þættir ráða mestu um hækkun 12 mánaða verðbólgunnar. Í fyrsta lagi hefur heimsmarkaðsverð á olíu verið að hækka síðustu daga sem hefur nú þegar komið fram í lítilsháttar hækkun á eldsneytisverði. Capacent gerir því ráð fyrir 1,5% hækkun eldsneytisverðs sem mun hafa 0,05% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar. Lækkun eldsneytis í síðasta mánuði mun því að stærstum hluta ganga til baka en eldsneytisverð lækkaði um 2,1% í síðasta mánuði.

Landinn á faraldsfæti: Samkvæmt mælingum Capacent hefur verið nokkur hækkun á flugfargjöldum. Það ætti ekki að koma á óvart en verðmæling á flugfargjöldum miðast við lok hvers mánaðar. Í lok apríl eru tvær langar helgar með sumardeginum fyrsta og svo 1. maí. Eftirspurn eftir flugfargjöldum virðist vera mikil á þessum tíma.  Samkvæmt könnun Capacent hækka flugfargjöld um 6% frá síðasta mánuði sem hefur 0,07% áhrif á vnv til hækkunar. Sveiflur eru miklar í flugfargjöldum sem hafa oft töluverð áhrif á vnv. Nú vill svo til að frídagar eru á verðmælingartímabili flugfargjalda. Hækkunin nú endurspeglar því ekki aukinn verðbólguþrýsting en líklegt er að hækkunin muni ganga að stórum hluta til baka í næsta mánuði. Sömuleiðis er olíuverð duttlungum háð. Líkt og röðun frídaga hafa erlendar verðsveiflur á olíumarkaði lítið með innlenda verðbólgu að gera. Báðar slembibreytur eru verðbólgunni í hag í apríl og leiða til þess að tólf mánaða verðbólga hækkar lítillega samkvæmt spá.

Er fasteignaverð að hækka? Hækkun fasteignaverðs hefur ekki farið framhjá Capacent. Fasteignaverð hækkaði um 1,66% í síðasta mánuði og var hækkunin í samræmi við spá Capacent um hækkun fasteignaverðs. Vísbendingar af fasteignamarkaði benda til að staðan hafi lítið breyst frá síðasta mánuði og spáir Capacent aftur 1,65% hækkun fasteignaverðs sem hefur 0,27% áhrif á vnv til hækkunar. Á mynd hér til hliðar má sjá að án húsnæðisverðs væri verðhjöðnun sem næmi 1,8%. Án húsnæðis hefur verðlag lækkað um 1,6% síðustu 3 ár og 12 mánaða verðbólga að meðaltali verið óbreytt.

Spáin er í viðhengi

 

Skoða greiningu →