lock search attention facebook home linkedin twittter

Togað í spottann á sprelli­körlum

Meðfylgjandi er skuldabréfayfirlit vikunnar

Togað í spottann á sprellikörlum: Reykur fyllir loftið, glimmer sest á svitaperlað ennið, ljósavélin, eftirvæntingin og taugaveiklun fyllir salinn. Skrækir frá miðaldra hagfræðingum og fjölmiðlamönnum magna upp stemmninguna. Allir bíða í ofvæni. Að endingu gerðist voðalega fátt. Afnám gjaldeyrishafta var í raun löngu tímabær aðgerð. Frekar ætti hún að styrkja gengi krónunnar til lengri tíma, góð skuldastaða ríkisins, mikill viðskiptaafgangur og kröftugur hagvöxtur ýta öll undir frekari styrkingu krónu og hækkun lánshæfismats. Margir hafa þó áhyggjur af styrkingu krónunnar og vilja grípa til aðgerða. Slíkar aðgerðir verða þó að vera vel ígrundaðar. Svar hagfræðinnar liggur þó fyrir en það er aukin skattlagning eða gjaldtaka á ferðamenn. Sú fáheyrða staða er uppi að einn af hverjum fimm „Íslendingum“ er ferðamaður sem setur mikið álag á innviði. Það skortir fé til innviða uppbyggingar, auk þess sem hröð fjölgun ferðamanna hefur óæskilega áhrif á gengið. Á miðvikudaginn mun Félag viðskipta og hagfræðinga halda hádegisfund þar sem farið er yfir gjaldtöku í ferðaþjónustu og hvaða leið sé skynsamlegust.

Er dreift eignarhald töfraorðið? Í umræðunni eftir hrun hefur orðatiltækið „dreift eignarhald“ verið töfraorðið í endurreisn íslensks fjármálakerfis. En hvað þýðir raunverulega dreift eignarhald fyrir banka. Dreift eignarhald þýðir að margir smáir fjárfestar fara með eignarhald á bankanum og í flestum tilfellum hafa þeir lítil áhrif á stjórn bankans. Auk þess sem hagsmunir hvers eiganda er takmarkaðir og kostnaðurinn við eftirlit og eftirfylgni langt umfram hagsmuni hvers eiganda. Ábyrgð og eignarhald getur því verið nokkuð óljóst ef eignarhaldið er mjög dreift og er hætta á myndun eignarhaldslegs tómarúms. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur bent á að of dreift eignarhald getur verið óæskilegt og leitt til þess að stjórnendur verða raunverulegir eigendur bankans. Vítin eru til varnaðar. Leið dreifðs eignarhalds var farin í Austur Evrópu eftir fall kommúnismans og skapaði sú leið meðal annars hina margfrægu „olígarka“. Fyrir áhugasama má benda á „State owned banks, stability, privatization and growth: Practical Policy Decisions“ eftir Michael Andrews auk fleiri greina.

Skoða greiningu →