lock search attention facebook home linkedin twittter

Góð ávöxtun á skulda­bréfa­markaði

Meðfylgjandi er skuldabréfayfirlit vikunnar

Góð ávöxtun á skuldabréfamarkaði: Gengi óverðtryggðra ríkisbréfa hækkaði enn eina vikuna eða um rúmlega hálft prósent að meðaltali. Hækkun gengis óverðtryggðra bréfa er í takt við styrkingu krónu. Síðastliðinn mánuð hefur gengi lengstu óverðtryggðu skuldabréfanna, RIKB31 hækkað um 2,9% sem verður að teljast einstakt fyrir skuldabréf.

Styrking krónunnar kemur ekki á óvart: Gengi krónunnar er búið að styrkjast um rúmlega 7% síðastliðinn mánuð og hefur gengi óverðtryggðra skuldabréfa fylgt með. Styrking krónu á þessu ári var að nokkru fyrirsjáanleg en gengi krónunnar hefur styrkst í takt við komur ferðamanna. Þegar að spár seinni hluta síðasta árs lágu fyrir um að allt stefndi í met komu ferðamanna í ár og að verulega drægi úr kaupum Seðlabanka á gjaldeyri virtist aðeins stefna í eitt.

Verðbólguálag í sögulegu lágmarki: Verðbólguálag til 8 ára er nú í sögulegu lágmarki eða 2,1% og hefur aðeins einu sinni verið svo lágt en það var í lok september á síðasta ári. Líklega endurspeglar núverandi verðbólguálag væntingar til verðbólguþróunar til um eins árs þótt verðbólguálagið sé til átta ára nema fjárfestar telja að verðbólgan sé komin til að vera á bilinu 1 til 3% líkt og hún hefur verið síðatliðin þrjú ár. Ef fjárfestar telja svo ekki vera ættu þeir klárlega að fjárfesta í langtíma verðtryggðum skuldabréfum. Hins gætu þeir þurft að bíða í ár eða lengur eftir að verðbólga fari vaxandi sérstaklega þegar útlit er fyrir að gengi krónunnar haldi áfram að styrkjast. Hins vegar gæti verðbólgan birst skjótt en mikil spenna er á vinnumarkaði og fasteignamarkaði. Aukinn hraði í hækkun fasteignaverðs og hugsanleg endurskoðun kjarasamninga gæti leitt til þess að núverandi jafnvægi og verðstöðugleiki springi.

Allar líkur á óbreyttum vöxtum: Stýrivaxtaákvörðun verður hjá Seðlabanka Íslands þann 15. mars næstkomandi. Allar líkur eru á að Seðlabankinn haldi vöxtum óbreyttum. Fátt nýtt hefur birst sem rökstyður breytingu á stýrivöxtum. Helst mætti benda á þá staðreynd að spenna á fasteignamarkaði virðist nokkuð meiri en flestir reiknuðu með sem rökstyður hækkun vaxta. Gengi krónunnar hefur hins vegar styrkst langtum hraðar en bankinn spáði fyrir og er gengisvísitala krónunnar á þeim slóðum sem Seðlabankinn spáði hún yrði í lok árs.

Skoða greiningu →