lock search attention facebook home linkedin twittter

Fátt kom á óvart í Peninga­málum

Meðfylgjandi er skuldabréfayfirlit vikunnar

Fátt kom á óvart í Peningamálum:  Fátt kom á óvart í Peningamálum Seðlabankans. Helst má þó lesa út þá óvissu sem bankinn metur um framtíðina en margar stærðir gætu þróast til hins verra. Stóra spurningin er hvernig gengi íslensku krónunnar þróast næstu mánuðina og ár. Seðlabankinn spáir tæplega 11% styrkingu raungengis krónunnar milli áranna 2016 og 2017 miðað við meðalgengi ársins. Að raungengið styrkist aftur 7% milli áranna 2017 og 2018 og um 3,5% milli áranna 2018 og 2019. Spá um mikla gengisstyrkingu í ár ætti ekki að koma á óvart en blikur voru þegar á lofti seinni hluta árs 2016 er vísbendingar voru um enn eitt met árið í komu ferðamanna árið 2017. Fyrir ekki mörgum árum síðan hefði 2 mánaða sjómannaverkfall sett efnahagslífið á hliðina en svo er ekki lengur. Sjávarútvegurinn er nú eins og vídeoleiga í sjávarplássi sem eitt sinn var hjarta bæjarins. Hins vegar er eftirspurn í ferðaþjónustu hvikul og gæti eftirspurn dregist jafn hratt saman og hún hefur aukist. Ekkert fararsnið virðist hins vegar á ferðamönnunum eða á fisknum sjónum í bili. Verðbólguhorfur fyrir árið 2017 eru því góðar.

Óvissuþættir óhagstæðir: Óvissan snýr því að hver gengisþróun verður árin 2018 og 2019. Aðrir óvissuþættir en gengi krónu virðast vera óhagstæðir verðbólgu. Seðlabankinn minnist á það í Peningamálum að bankinn gæti verið að vanmeta spennuna á fasteignamarkaði, auk þess sem hann bendir á vaxandi verðbólgu í nágrannalöndum okkar og hærra hrávöruverð. Einnig virðist bankinn hafa nokkrar áhyggjur af vinnumarkaðnum. Í Peningamálum bankans kom í ljós að mikið ójafnvægi er á vinnumarkaði og umfram eftirspurn eftir fólki í byggingarstarfsemi og iðnaði og störfum sem krefjast ekki háskólamenntunar.  Draga má því þá ályktun að verðbólguálag til skammstíma ætti að vera töluvert lægra en til langstíma en óvissuþættir eru margir og verðbólguskot upp á 5 til 6% sem stæði í 1 til 2 ár gæti farið illa með fjárfesta í langtíma óverðtryggðum skuldabréfum sem treysta á 2,3% verðbólguálag.

Skoða greiningu →