lock search attention facebook home linkedin twittter

Verð­bólgu­horfur ágætar ef gengi krónu gefur ekki eftir

Meðfylgjandi er skuldabréfayfirlit vikunnar

Gengi skuldabréfa nær óbreytt í vikunni: Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra skuldabréfa virðist sveiflast nokkuð í takt við sveiflur í gengi krónunnar. Fyrri hluta vikunnar veiktist krónan og gaf gengi óverðtryggðra skuldabréfa nokkuð eftir. Seinni part vikunnar styrktist gengi krónunnar nokkuð hraustlega og gengi óverðtryggðra skuldabréfa hækkaði. Gengi óverðtryggða bréfa hækkaði að meðaltali í vikunni um 0,12%.

Túristarnir greiða vísareikninginn:  Styrking krónunnar í byrjun mánaðar er orðin fremur reglubundin en þá fer fram greiðsla á vísareikningum og þar á meðal erlendra ferðamanna. Hraustleg styrking krónunnar ætti ekki að koma á óvart í kjölfar jólareikningsins. Stóra spurningin er svo hvernig gengi krónunnar muni þróast næstu vikurnar. Ef sjómannaverkfallið leysist ætti innstreymi gjaldeyris að aukast stuttu seinna. Ef ekki er líklegt að gengi krónunnar verði undir þrýsting til lítilsháttar veikingar. Á móti kemur að metfjöldi ferðamanna er á Íslandi m.v. árstíma.

Verðbólguhorfur ágætar ef gengi krónu gefur ekki eftir: Það ætti ekki að koma á óvart að sveiflur í gengi óverðtryggðra skuldabréfa séu í takt við við gengi krónunnar. Að mati Capacent eru verðbólguhorfur góðar næstu sex mánuði ef núverandi gengi krónu heldur velli. Ólíklegt er að styrking krónunnar síðan í sumar sé að fullu komin inn í verð varanlegra neysluvara líkt og húsgagna, fatnaðar og raftækja. Einnig er líklegt að aukin samkeppni með tilkomu H&M og Costco muni auka samkeppni í sölu á þessum vöruflokkum. Hins vegar er styrking krónunnar að fullu komin inn í verðlag eldsneytis og matvöru og er útlit fyrir að verðlag þessara vöruflokka hækki ef gengi krónu heldur áfram þeim veikingarfasa sem hún var í janúar. Gengi krónunnar styrktist um 2,1% í síðustu viku en krónan hefur veikst um 2,4% frá áramótum. Í byrjun síðustu viku þegar krónan var veikust hafði hún veikst um 4,5% frá áramótum.

Rétt að fylgjast vel með gengi krónunnar og Capacent: Capacent telur því ráðlegt að fylgjast vel með gengi krónunnar en frekari veiking krónunnar frá því sem nú er orðið gæti breytt verðbólguhorfum verulega. Veiking sem nemur 2,4% er ólíkleg til að hafa áhrif á verðlag en öðru máli gegnir um veikingu sem er 5 til 10%. Þess má til gamans geta að gengi Capacent hækkaði um 3,5% í sænsku Kauphöllinni á föstudag.

 

Skoða greiningu →