lock search attention facebook home linkedin twittter

Rétti tíminn til að fjár­festa í verð­tryggðum bréfum?

Meðfylgjandi er skuldabréfayfirlit vikunnar

Allt rólegt á vesturvígstöðvunum: Birting vísitölu neysluverðs í lok síðustu viku var ekki til þess fallin að hrista upp í döprum skuldabréfamarkaði. Vísitalan neysluverðs lækkaði um 0,57% en spár markaðsaðila lágu á bilinu 0,5 til 0,6%. Gengi ríkisbréfa var lítið breytt í vikunni en gengið lækkaði um 0,05% að meðaltali. Gengi verðtryggðra íbúðabréfa lækkaði örlítið í vikunni en gengi þeirra hefur hækkað lítillega undanfarnar vikur. Gengi verðtryggðra íbúðabréfa lækkaði að meðaltali um 0,05% þar sem gengi HFF24 lækkaði um 0,15%.

Framvirki ferillinn: Samkvæmt framvirka vaxtaferlinum er RIKB20 hlutfallslega ódýrt í samanburði við RIKB19 og RIKB22. Munurinn hefur þó minnkað en líkt og Capacent benti á í síðustu viku ætti ávöxtunarkrafa RIKB20 að vera lægri en ávöxtunarkrafa RIKB19.

Rétti tíminn til að fjárfesta í verðtryggðum bréfum? Að öðru jöfnu hækkar vísitala neysluverðs nokkuð duglega í febrúar eftir janúar útsölur. Í febrúar 2016 hækkaði vísitala neysluverðs um 0,7%. Það sem af er ári hefur gengisvísitala krónunnar veikst um 4,4%. Áhrif gengisveikingarinnar er einungis farið að gæta í eldsneytisverði enn þá. Líklegt er þó að ef gengisveikingin heldur áfram næstu vikurnar að áhrifa hennar fari að gæta fljótlega í matvælaverði en veltuhraði og verðbreytingar eru hvað örastar í eldsneytisverði, matvöru og dagvöru. Gengi krónunnar þarf þó að veikjast umtalsvert í viðbót til að það fari að hafa áhrif á verðlag varanlegra neysluvara líkt og raftækja, fatnaðar og húsgagna. Gengisvísitala krónunnar er nú á svipuðum slóðum og hún var um miðjan október og er gengi krónunnar líklegast hagstæðara en þegar megnið af varanlegum neysluvörum sem nú eru í boði voru fluttar inn.

Í ljósi yfirvofandi hækkunar vísitölu neysluverðs í febrúar og mögulegra verðhækkana vegna gengisveikingar gæti verið rétti tíminn til að auka vægi verðtryggðra bréfa.

Skoða greiningu →