lock search attention facebook home linkedin twittter

Spáum 0,6% lækkun vnv í janúar

Meðfylgjandi er verðbólguspá janúar mánaðar

Verðbólgan óbreytt milli mánaða: Capacent spáir tæplega 0,6% lækkun vísitölu neysluverðs (vnv) í janúar eða 0,56%. Vísitala neysluverðs lækkaði einnig um tæplega 0,6% í janúar í fyrra og er 12 mánaða verðbólga því óbreytt milli mánaða.

Árstíðabundnar verðlagshækkanir meiri en oft áður: Áhrif gjaldskrárhækkana eru meiri á vísitölu neysluverðs nú um áramótin en fyrir ári síðan. Þar vegur þyngst hækkun á olíu- og bensíngjaldi auk hækkunar gjalds á sígarettur og áfengi. Áhrif hækkunar framantalinna gjalda á vnv eru 0,2% nú í janúar. Á móti þessari hækkun kemur að áhrif gengisstyrkingar á innflutt verðlag eru meiri nú en fyrir ári síðan. Einnig er nokkuð hraustleg lækkun á flugfargjöldum samkvæmt lauslegri könnun Capacent en flugfargjöld voru óbreytt á sama tíma fyrir ári.

Velta á fasteignamarkaði aldrei verið meiri: Velta á fasteignamarkaði hefur verið með allra mesta móti síðustu vikurnar og hefur aukist síðan í sumar. Oftast róast fasteignamarkaður yfir háveturinn en svo virðist ekki vera núna. Velta hefur verið mikil og 12 vikna meðalvelta á viku er vel yfir 7 ma.kr. og meiri en þegar hún var í hámarki í toppi hagsveiflunnar fyrir hrun. Capacent gerir ráð fyrir 1,2% hækkun fasteignaverðs í janúar sem jafngildir 15,4% árshækkun fasteignaverðs. Samtals gerum við ráð fyrir að fasteignaliður vísitölu neysluverðs hafi 0,26% áhrif á vnv til hækkunar. Inni í fasteignalið er rafmagn og heitt vatn. Heildsöluverð rafmagns lækkar um 5,8% hjá Veitum um áramótin en flutningsgjald og smásöluverð hækkar umfram lægra heildsöluverð og hækkar rafmagnsverð um 1,5% um áramótin. Heitt vatn hækkar óverulega um áramótin eða tæpt hálft prósent. Breytingar í verðskrá rafmagns og hita hefur um 0,02% áhrif á vnv til hækkunar.

Eldsneytisverðs hefur hækkað um 2%, meiri hækkun í pípunum? Eldsneytisverð hefur hækkað um 2% frá því seinni partinn í desember. Mest öll hækkun á bensínverði á rætur sínar að rekja til hærra bensín- og olíugjalds. Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hins vegar verið í nokkrum hækkunarfasa undanfarið og er meiri hækkun á eldsneytisverði til viðbótar líkleg. Capacent gerir ráð fyrir 3% hækkun eldsneytisverðs og að eldsneyti hækki um 1% til viðbótar.

Reglubundin útsöluáhrif: Capacent gerir ráð fyrir heldur meiri lækkun á verði fatnaðar og á öðrum útsöluvörum en að öllu jöfnu á þessum árstíma. Útsölur munu hafa rúmlega 1%. áhrif á vnv til lækkunar. Það sem útskýrir meiri lækkun vegna útsala er hagstæð gengisþróun og síðustu áhrif tollalækkunar á verð fatnaðar og væntingar um aukna samkeppni í smásölu með fatnað.

Mikil lækkun flugfargjalda: Lausleg könnun Capacent bendir til að hækkun flugfargjalda fyrir jól hafi að fullu gengið til baka eftir áramótin og rúmlega það. Flugfargjöld hækkuðu um rúmlega 7% í verði fyrir jól en Capacent gerir ráð fyrir um 10% lækkun flugfargjalda í janúar sem hefur 0,12% áhrif á vnv til lækkunar.

Matvælaverð nær óbreytt:  Verðlagshækkanir eru að öllu jöfnu á búvörum á þessum árstíma. Á móti hækkun á verði búvöru kemur til lækkun á innfluttum matvælum. Capacent gerir ráð fyrir örlítilli lækkun á verði matvæla í janúar sem hefur óveruleg áhrif á vnv. Ýmsar smærri verðskrárhækkanir líkt og hækkun á verði almenningssamgangna og félaglegri þjónustu eru oftast á þessum árstíma. Auk þess hefur Nova tilkynnt um verðskrárhækkanir. Samtals vega ýmsar smærri verðskrárhækkanir samtals 0,06% til hækkunar.

Skoða greiningu →