lock search attention facebook home linkedin twittter

Vaxta­stig fer lækk­andi

Meðfylgjandi er skuldabréfayfirlit vikunnar

Í takt við spá greiningardeildar – lítil hækkun gengis: Seðlabankinn lækkaði vexti í síðustu viku um 25 punkta í takt við spá greiningardeildar. Vaxtalækkunin virðist þó hafa komið einhverjum markaðsaðilum á óvart en gengi skuldabréfa hækkaði lítillega í kjölfarið. Gengi verðtryggðra íbúðabréfa hækkaði mest í vikunni eða um 0,37% að meðaltali. Gengi óverðtryggðra ríkisbréfa hækkaði heldur minna eða um 0,1% að meðaltali. Verðbólguálagið var nær óbreytt þar sem lækkun ávöxtunarkröfu óverðtryggðra og verðtryggðra var svipuð en ávöxtunarkrafa óverðtryggðra bréfa lækkaði um 4 punkta að meðaltali en verðtryggðra um 5 punkta. Hins vegar er líftími verðtryggðu skuldabréfanna lengri og þau því næmari fyrir breytingum í ávöxtunarkröfu og vaxtalækkun.

Vaxtastig fer lækkandi: Endurskoðun hefur staðið yfir í nokkurn tíma á peningastefnunni um hvert sé nægilegt og eðlilegt aðhaldsstig. Framangreint aðhaldsstig er ekki meitlað í stein og breytilegt eftir tímum. Þannig ræðst það að miklu leyti af hagvaxtargetu þjóðfélagsins hverju sinni. Í vestrænum ríkjum er talið að hið svokallaða náttúrulega raunvaxtastig hafi lækkað á síðustu árum. Ástæður þess geta verið margar en ein er t.d. sú að aldurssamsetning fólks á Vesturlöndum hefur breyst mikið á síðustu áratugum og eru hinar vestrænu þjóðir orðnar aldraðar. Það eru því fleiri sem spara og færra ungt fólk sem þarf þak yfir höfuðið. Þannig er framboð lánsfjármagns meira og eftirspurn eftir lánsfjármagni orðin minni af „náttúrulegum“ ástæðum. Stór hluti hagvaxtar stafar af hreinni og klárri fólksfjölgun, fleiri munnar til að fæða, klæða og veita húsaskjól. Fólksfjölgun er oftast hægari meðal vestrænna ríkja. Hagvöxtur og náttúrlegt raunvaxtarstig eru því oftast hærri meðal þróunarríkja. Fleiri ástæður koma þó til en hraðari fólksfjölgun. Skortur er á framleiðslutækjum í þróunarríkjum og því er fjárfesting oft mjög arðbær og eftirspurn eftir lánsfjármagni mikil og vextir háir. Hjá þróaðri ríkjum er þessu oftast öfugt farið. Í byrjun síðustu aldar var íslenskt atvinnulíf heldur vanþróað. Í kjölfar mikillar fjárfestingar á Íslandi upp úr miðri öldinni, þegar fjárfest var í framleiðslutækjum líkt og togurum og virkjunum, var hagvöxtur hár. Á mynd 3 má sjá að hagvöxtur var tæplega 5% að meðaltali frá 1946 til 1971. Í lok síðustu aldar var íslenskt atvinnulíf að mestu búið að ná nágrannaríkjum okkar. Ísland er nú meðal ríkustu þjóða í heimi með þróað atvinnulíf. Af þeim sökum mætti ætla að framtíðar hagvaxtargeta væri minni vegna þess og svipuð og meðal nágrannaþjóða okkar sem hafa mun lægra vaxtastig. Íslensk þjóð er þó aðeins „yngri“ en flestar nágrannaþjóðir okkar og hefur fólksfjölgun hér verið hraðari. Hratt hefur þó dregið úr fólksfjölgun á síðustu árum og þjóðin eldist hratt. Meiri fólksfjölgun getur rökstutt hærra vaxtastig hér sem nemur broti úr prósenti.

Hógvær Seðlabanki: Sú spurning hlýtur því að brenna á vörum afhverju raunvaxtastig þarf að vera nokkrum prósentum hærra hér en í nágrannalöndum okkar? Svarið felst í trúverðugleika myntarinnar og peningastefnunnar. Sögulega er íslenska krónan veikur gjaldmiðill með háu verðbólgustigi. Aðeins eru liðin rúmlega 8 ár frá síðasta gengishruni. Góð erlend skuldastaða, aðhaldssöm fjármálastefna ríkisins og góður árangur í peningamálastjórn með lágri verðbólgu eru einu meðölin sem virka til að byggja upp trúverðugleika. Á meðan trúverðugleikinn er ekki til staðar þarf að halda vöxtum hærri hér til að gera gjaldmiðilinn eftirsóknarverðari. Eins og flest meðöl er meðalið vont á bragðið. Seðlabankinn hefur þó tekið hógvær skref til lækkunar vaxta og dregið úr lyfjagjöfinni.

Ógegnsæ peningastefna? Mikið hefur verið rætt um ógegnsæi peningastefnunnar. Nokkra hluti þarf þó að hafa í huga; i) Hið svokallaða aðhaldsstig er ekki meitlað í stein ii) Eðlilegt er að peningastefnan sé í sífelldri endurskoðun og merki um heilbrigði, iii) Peningastefnunefnd er fjölskipuð og ekkert óeðlilegt við það þótt kosningin sé ekki alltaf rússnesk, iv) Við lifum á miklum umbrotatímum í íslensku efnahagslífi og erum að fara ótroðnar slóðir í mótun peningastefnunnar. Saga frjáls fjármagnsflæðis og fljótandi gengis er afskaplega skömm á Íslandi. Saga krónunnar einkennist af gjaldeyrishöftum og gengisfellingum. Framangreinda þætti hefur Capacent haft til hliðsjónar við vaxta-gisk sitt og oftast rambað á rétta niðurstöðu.

Ef rétt verður haldið á spilunum mun vaxtastig og vaxtamunur lækka: Hækkandi aldur þjóðarinnar, þróaðra fjármála- og atvinnulíf ætti að leiða til lækkandi vaxtastigs á Íslandi á næstu árum. Lykilforsenda fyrir því að slíkt sé hægt er skynsöm stjórn ríkisfjármála og peningamála. Ef svo er ekki er viðbúið að gengisfellingar, hátt vaxtastig og verðbólga muni fylgja Íslendingum líkt og rigningin og skammdegið.

Skoða greiningu →