lock search attention facebook home linkedin twittter

Banka­greining – lækkun vaxta­kostn­aðar

Meðfylgjandi er stutt greining á bankamarkaði

Öfundsverð staða en vandasöm: Verðmætasta og stærsta eign ríkissjóðs eru íslensku bankarnir. Ríkið á tvo banka nærri að fullu, Landsbankann og Íslandsbanka og 13% hlut í Arion banka. Samtals nam virði hlutanna 483,1 ma.kr. miðað við eigið fé í árslok 2015. Pund ríkisins í bönkunum hefur ávaxtast vel frá stofnun nýju bankanna í kjölfar bankahrunsins. Í árslok 2009 var hlutur ríkisins í eigin fé bankanna 171,7 ma.kr. að núvirði. Þá átti ríkið aðeins 5% í Íslandsbanka en eignaðist hann að fullu í upphafi þessa árs. Ef ekki er tekið tillit til aukins eignarhlutar í Íslandsbanka væri bókfært virði eigin fjársins um 295 ma.kr. og hefur fjárfesting ríkisins í bönkunum því nærri tvöfaldast að raunvirði á sex árum. Í umfjölluninni hér er miðað við að bókfært virði hluta sé jafnt eigin fé.

Þörf á óhefðbundinni nálgun? Þótt staða ríkissjóðs sé öfundsverð er hún um margt vandasöm. Bókfært virði eigin fjár bankanna þegar einkavæðingin fór fram var 45,3 ma.kr. að núvirði og var ekki hlaupið að því að finna kaupendur. Ljóst er því að enn stærra verkefni blasir nú við ef losa á um allt eignarhald ríkisins á bönkunum. Það er því ekki að ástæðulausu að Capacent hefur velt upp þeirri spurningu hvort ekki sé vert að skoða að skipta upp bönkunum í minni einingar. Í stað þess að einblína um of á stærðarhagkvæmni í rekstri að einblína fremur á sérhæfingu. Staðreyndin er sú að íslenskir bankar munu tæplega ná hagkvæmustu stærð þótt þeir sameinuðust allir í einn.

Ósanngjörn gagnrýni? Ein veigamikil breyting hefur þó átt sér stað síðan einkavæðing bankanna fór fram 1997 til 2003 en hún er sú að skilvirkni og hagkvæmni í rekstri hefur aukist mikið. Íslensku bankarnir eru því mun söluvænlegri nú en fyrir um 15 til 20 árum síðan. Á mynd hér á eftir má sjá vaxtatekjur og rekstararkostnað mældan sem hlutfall af meðalstöðu eigna. Rekstarkostnaður sem hlutfall af meðalstöðu eigna var að meðaltali 3,3% á tímabilinu 1997 til 2003 eða fyrir einkavæðingu.  Arðsamur og skilvirkur banki getur tæplega haft vaxtatekjur á meðalstöðu eigna sem eru mikið lægri en rekstrarkostnaður á meðalstöðu eigna. Þetta var þó raunin en vaxtamunur á meðalstöðu eigna var 3,2%. Það kaldhæðnislega var að hagnaður ríkisbankanna á þessum á árunum 1997 til 2003 átti að stórum hluta rætur sínar að rekja til gengishagnaðar af verðbréfum. Einnig var hlutfall þjónustutekna af heildar tekjum hærra en nú. Þjónustutekjur voru á bilinu 24 til 28% af heildartekjum árið 1997. Á fyrri hluta árs 2016 námu þjónustutekjur á bilinu 15 til 24% af heildartekjum viðskiptabankanna. Eftir bankahrun hefur kostnaður á meðalstöðu eigna verið að meðaltali 2,4%. Vaxtamunur sem hlutfall af meðalstöðu eigna hefur verið 3,0% að meðaltali. Grunnrekstur bankakerfisins er því arðsamari en fyrir einkavæðingu. Í það minnsta er arðsemi eigna meiri. Hins vegar vantar nokkuð upp á þjónustutekjur.

Sértækir skattar á fjármálafyrirtæki nærri 20% kostnaðar: Glöggir lesendur hafa e.t.v. tekið eftir því að kostnaður bankanna á meðalstöðu eigna hefur aukist stöðugt frá hruni. Útibúum banka og sparisjóða hefur þó verið fækkað um nærri helming frá 2010. Árið 2010 var kostnaður á meðalstöðu eigna 2,1% en var 2,7% á fyrstu 6 mánuði ársins 2016. Aukinn kostnaður bankanna stafar ekki af samdrætti efnahagsreikninga. Eignir bankanna hafa aukist úr um 2.556 ma.kr. að meðaltali árið 2010 í 3.175 ma.kr. að meðaltali á fyrri hluta ársins 2016. Eitt stendur þó eftir en það eru sérstakir skattar á fjármálafyrirtæki sem komið var á eftir hrun en þeir hafa hækkað úr 1,2 ma.kr. árið 2010 í 15,2 ma.kr. árið 2015. Þótt 14 ma.kr. hljóma ekki svo mikið jafngildir kostnaðurinn um 0,45% á meðalstöðu eigna en sérstakir skattar á fjármálafyrirtæki eru um 20% af rekstrarkostnaði bankanna.

Sjá má framhald umfjöllunar í viðhengi

Skoða greiningu →