lock search attention facebook home linkedin twittter

Skulda­bréf – Storm­urinn kom fyrr en spáð var

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,68% en spár markaðsaðila hljóðuðu upp á 0,3 til 0,6% hækkun. Spá Capacent hljóðaði upp á rúmlega 0,4% hækkun vísitölu neysluverðs í febrúar. Verðbólgan hækkaði því á milli mánaða og fór úr 2,1% í 2,2%.

Okkar helstu mistök voru að setja trú okkar og traust á að afnám tolla á fatnaði myndi sjást í verðlagi nú í febrúar. Hækkun fatnaðar eftir vetrarútsölur var nokkuð meiri en á sama tíma í fyrra en ekki nokkru minni eins og Capacent reiknaði með. Framangreint útskýrir 0,1% fráviki.

Einnig voru fleiri smærri liðir sem hækkuðu nokkuð meira en við gerðum ráð fyrir. Stór hluti við kaup á innfluttri vöru eru kaup á þjónustu og afgreiðslu eða innlendri vinnu. Vísbendingar frá síðustu verðbólgumælingum benda til að kostnaðarhækkun vegna launahækkana sé í auknu mæli að skila sér út í verðlag. Þetta er í samræmi við innihald síðustu Peningamála Seðlabanka Íslands sem mætti taka saman í eina setningu: „Hagfræðingar trúa ekki á jólasveininn“.

Fjárfestingaráætlun gekk eftir:  Í síðustu viku lögðum við til að fjárfestar skortseldu RIKB19 til að fjármagna kaup á lengstu verðtryggðu bréfunum.  Hugmyndin á bak við þá fjárfestingu var tvíþætt. Að mati Capacent var RIKB19 ofmetnasta skuldabréfið á markaði. Auk þess voru blikur á lofti er varðaði verðbólgu og vaxtaþróun en að mati Capacent voru langtíma verðtryggð bréf í ódýrari kantinum af þeim sökum. Gengi HFF44 hefur hækkað hressilega síðustu viku eða um 1,9%.  Gengi RIKB19 hefur einnig hækkað en þó umtalsvert minna en HFF44.  Ofmat RIKB19 er meira nú en í síðustu viku en gengið er nú 0,6% hærra.

Á tímum óvissu í verðlagsmálum er verðbólguáhætta stór hluti verðbólguálags: Ef litið er til áhættunnar af skyndilegri hækkun verðbólgu sem er umtalsverð nú um stundir eru verðtryggð skuldabréf fremur ódýr. Verðbólguálag til 8 ára er nú 3,06%.  Hafa verður í huga að stór hluti verðbólguálagsins er verðbólguáhætta eða vörn gegn skyndilegri hækkun verðbólgu. Samkvæmt mælingum Capacent er sú vörn að minnsta kosti 1% af heildarverðbólguálagi.

Skoða greiningu →