lock search attention facebook home linkedin twittter

Verð­bólguspá – febrúar 2016

Verðbólguspá fyrir febrúar

Verðbólgan 1,9% á ársgrundvelli:  Ef spá Capacent gengur eftir um 0,4% hækkun vísitölu neysluverðs (vnv) í febrúar lækkar 12 mánaða verðbólgan úr 2,1% í 1,9%. Framangreint er í samræmi við nýútgefna verðbólguspá Seðlabankans sem gerir ráð fyrir að verðbólgan verði rétt undir 2% fram á mitt þetta ár.

Lok vetrarútsala: Vetrarútsölum er að mestu lokið seinni partinn í febrúar. Á þessum tíma hækkar því verð fatnaðar,-húsgagna og raftækja. Við gerum ráð fyrir 4,0% hækkun fatnaðar vegna útsöluloka sem mun hafa 0,15% áhrif á vnv til hækkunar. Þetta er nokkuð minni hækkun en að öllu jöfnu við útsölulok. Verð húsgagna og raftækja hækkar einnig vegna útsöluloka, áhrif á vnv nemur um 0,1% til hækkunar.

Olían ódýrari en kranavatn: Ef eitthvað er að marka fjölmiðlaumfjöllun að undanförnu er meira en helmingi ódýrara að fylla tankinn með díselolíu en með kranavatni. Lítrinn af díselolíu er kominn undir 170 kr og lækkaði örlítið í febrúar á meðan kranavatn í flöskum virðist kosta um 400 kr.

Útlit er fyrir að olíuverð verði áfram lágt og býst Capacent ekki við miklum breytingum á verði eldsneytis á næstu dögum. Eldsneytisverð um miðjan febrúar var nær óbreytt frá mánuðinum áður og áhrif eldsneytisverðs á vísitölu neysluverðs nær engin. Könnun Capacent á flugfargjöldum bendir til að lækkun flugfargjalda eftir hátíðarnar sé minni en oftast áður. Capacent gerir ráð fyrir 3,5% lækkun sem hefur 0,05% áhrif á vnv til lækkunar.

Fasteignaverð hækkar hratt: Fasteignaverð í vísitölu neysluverðs hækkaði umtalsvert í janúarmánuði. Upplýsingar um veltu benda til að ró sé að færast yfir markaðinn. Á móti kemur að veltan er óvenjumikil m.v. árstíma. Fréttir af fasteignamarkaðnum eru allar samhljóða um að mikill eftirspurnarþrýstingur sé eftir íbúðum. Capacent gerir ráð fyrir húsnæðisliðurinn leggi til 0,13% til hækkunar vnv.

Gjaldskrárhækkun hjá Strætó í næsta mánuði: Einhverjar gjaldskrárhækkanir eiga enn eftir að koma fram t.d. hækka fargjöld hjá Strætó þann 1. mars sem hefur ekki áhrif á vnv í febrúar en mun hafa áhrif í næsta mánuði. Gert er ráð fyrir að almennar gjaldskrárhækkanir hafi áhrif á vnv sem nemur 0,05% í febrúar. Capacent gerir ráð fyrir lítilli hækkun matvælaverðs vegna hækkunar innlendra matvæla en nokkur skriður hefur verið á hækkun innlendra matvæla s.s. fisks (8,9%), kjötvara (3,2%) og brauð og kornvara (3,9%).

Skoða greiningu →