lock search attention facebook home linkedin twittter

Verð­bólguspá Capacent fyrir ágúst

Fjár­mála­ráð­gjöf Capacent spáir rúmlega 0,1% hækkun vísi­tölu neyslu­verðs í ágúst

Verð­bólgan lúrir lævís og lúmsk

Ef að spá fjár­mála­ráð­gjafar Capacent um rúmlega 0,1% hækkun vísi­tölu neyslu­verðs (vnv) í ágúst gengur eftir mun verð­bólgan á ársgrund­velli lækka úr 1,9% í 1,8%. Verð­bólgan lúrir því enn vel undir verð­bólgu­mark­miði Seðla­bankans.

Það sem fer upp hlýtur að koma aftur niður

Flug­far­gjöld tóku gríð­ar­legt stökk í síðasta mánuði og hækkuðu um 33% sem hækkaði vnv um 0,45%. Flug­far­gjöld sveiflast mjög eftir eftir­spurn og árstíðum og var óvænt hækkun vnv í júlí ekki endi­lega til vitnis um að undir­liggj­andi verð­bólga væri í miklum vexti. Í spá fjár­mála­ráð­gjafar er gert ráð fyrir að hækkun flug­far­gjalda í síðasta mánuði gangi að mestu til baka. Við gerum ráð fyrir um 17% lækkun flug­far­gjalda sem lækkar vnv um 0,28%. Samkvæmt könnun fjár­mála­ráð­gjafar var mikil lækkun á flug­far­gjöldum milli júlí og ágúst sem á ekki að koma á óvart í ljósi lækk­andi olíu­verðs og minnk­andi eftir­spurnar.

Olíu­verð fellur eins og steinn

Heims­mark­aðs­verð á olíu hefur lækkað um 22% frá lokum júní og er olíu­verð nú um 13% lægra en að meðal­tali í júlí. Á Íslandi hefur verð á díselolíu lækkað um 2,9% og verð á bensíni um 1,8% síðan í júlí. Fjár­mála­ráð­gjöf Capacent gerir ráð fyrir einni verð­lækkun á elds­neyti til viðbótar og að elds­neytisliður lækki um tæplega 3% sem lækkar vnv um 0,11%.

Mjólk­ur­verð hækkar

Verð­lags­nefnd búvara samþykkti  3,58% hækkun á verði mjólkur og mjólk­ur­af­urða og 11,6% á smjöri. Þessar hækk­anir hækka vnv um 0,1%.
Topp­urinn að vera í tein­óttu

Hinum árlegu sumar­út­sölum á fatnaði fer senn að ljúka en gert er ráð fyrir um 7,5% hækkun á fatnaði í mánuð­inum sem veldur 0,35% hækkun á vísi­tölu neyslu­verðs.

Undir­liggj­andi eftir­spurn­ar­þrýst­ingur á fast­eigna­markaði

Gert er ráð fyrir nokk­urri hækkun á fast­eigna­markaði en skv. könnun fjár­mála­ráð­gjafar var tölu­verður skortur á íbúð­ar­hús­næði um síðustu áramót sem kemur meðal annars fram í háu leigu­verði. Þrátt fyrir miklar hækk­anir á fast­eigna­markaði virðist vera umtals­vert hagstæðara að kaupa en leigja. Gert er ráð fyrir að hækkun á fast­eignalið leggi til um 0,11% til hækk­unar vnv í ágúst.

Þótt útsölum á fatnaði séu að mestu lokið standa enn yfir útsölur á húsgögnum, heim­il­is­búnaði og raftækjum. Fram­an­greindar útsölur leggja til um 0,03% til lækk­unar vnv. Samtals spáir fjár­mála­ráð­gjöf Capacent því 0,14% hækkun vnv sem námundast að 0,1%.

Skoða greiningu →