lock search attention facebook home linkedin twittter

Kætumst meðan kostur er

Óbreyttir vextir ýttu undir hækkun óverð­tryggðra skulda­bréfa og er ávöxt­un­ar­krafa óverð­tryggða ríkis­bréfa að meðal­tali 5,8%. Þrátt fyrir að ávöxt­un­ar­krafa ríkis­bréfa liggi fremur þétt er þó nokkur misverð­lagning í vaxta­ferl­inum. Bæði RIKB31 og RIKB19 standa nokkuð út úr.

RIKB19 næsta skamm­tíma bréfið

Líftími RIKB19 er of langur til að heilla fjár­festa sem sækjast eftir takmark­aðri fjár­fest­ing­ar­á­hættu en ekki nógu langur til að vera spenn­andi kostur fyrir spákaup­menn. Verð RIKB31 er e.t.v. lágt m.t.t. skulda­bréfa í kring en miðað við sögu­lega verð­bólgu­þróun er ávöxt­un­ar­krafan mjög lág. Þau 10 ára tímabil þar sem verð­bólgan er undir 3% eru vand­fundin.

Safn­gripir á útsölu­verði

Íbúða­bréfin eru e.t.v. jafn lummó og verð­bréfa­miðlari á fimm­tugs­aldri. Einnig eru þau í veru­legri tilvist­ar­krísu. Nafn­verð útgef­inna íbúða­bréfa hefur lækkað úr 682,4 ma.kr. í upphafi árs 2013 í 601,6 ma.kr. í lok ágúst. Íbúða­bréf og verð­bréfa­miðl­arar verða e.t.v. jafn kjánaleg og 10 króna ­seðill eftir 10 ár. Hins vegar verða íbúða­bréfin ekki komin á gjald­daga.

Vænt­ingar um verð­bólgu sjaldan verið lægri

Vænt­ingar um verð­bólgu til lengri tíma hafa sjaldan verið lægri eftir banka­hrun, lágmarki náðu þær í desember síðast­liðnum er þær voru 2,76%. Verð­bólgu­vænt­ingar til 8 ára standa nú í rétt rúmlega 3% eða 3,03%. Jafn lágar verð­bólgu­vænt­ingar til svo langs ­tíma eru athygl­is­verðar sértak­lega í ljósi þeirrar áhættu sem fylgir því að fjár­festa óverð­tryggt til svo langs tíma. Meðal­verð­bólga síðast­liðin tíu ár er 5,9%. Líkleg­asta skýr­ingin er að um hreina spákaup­mennsku sé um að ræða og mark­aðsaðilar vænti að óverð­tryggðir vextir til lengri tíma lækki enn meira.

Seðla­bankinn fer eins og köttur í kringum heitan graut

Er Seðla­bankinn loksins farinn taka tillit til vaxta­mun­ar­við­skipta og verð­bólgu­vænt­inga?  Vísbend­ingar af skulda­bréfa­markaði eru skýrar og hafa verið í nokkurn tíma, að spákaup­mennska sé tölu­verð í íslenskum vöxtum. Seðla­bankinn minnist ekki á það berum orðum en fjallar um geng­is­styrk­ingu þrátt fyrir mikil gjald­eyr­is­kaup. Háir vextir draga að erlent fjár­magn þegar vaxta­mun­urinn er orðinn það hár að fjár­festar telja ábatann af því að fjár­festa í íslenskum vöxtum meiri en áhættuna.

Ofþensla í hagfræði­grein­ingu?

Athygli vakti viðsnún­ingur í skoðun verð­stöð­ug­leika­varða er vildu jafnvel hækka stýri­vexti um 75 punkta síðast. Undrun vekur einnig túlkun Seðla­banka á vænt­ingum en verð­bólgu­vænt­ingar á markaði hafa verið með allra lægsta móti og lækkað hratt síðan í sumar. Vænt­inga­vísi­tala Gallup er einnig vel fyrir neðan þau gildi sem voru fyrir banka­hrun þótt hún hafi aldrei verið jafn há eftir hrun.

Skoða greiningu →