lock search attention facebook home linkedin twittter

Einu ári eldri í dag en í gær en ekki sentí­metra hærri!

Skulda­bréfayf­irlit Capacent – 1. vika, nóvember

Grall­arar í Seðla­bank­anum

Grall­ar­arnir í Seðla­bank­anum hafa sett allt á annan endann á skulda­bréfa­markaði með hækkun stýri­vaxta um 25 punkta. Ávöxt­un­ar­krafa óverð­tryggðra ríkis­bréfa hækkaði um 58 punkta að meðal­tali á tíma­bilinu 4. til 6. nóvember og hefur sjaldan sést viðlíka hækkun vaxta á markaði. Gengi ríkis­bréfa lækkaði um 2,9% að meðal­tali. Ávöxt­un­ar­krafa verð­tryggðra íbúða­bréfa hækkaði um 16 punkta á sama tíma og lækkaði gengi verð­tryggðra bréfa um 1,3% að meðal­tali.

Kaup­hlið veik og mark­aður grunnur

Það veldur áhyggjum hversu kaup­hliðin er veik og lágar fjár­hæðir þarf til að hreyfa ávöxtunarkröfuna mikið. Tilgangur viðskipta­vaka er að dýpka markað til að fjár­festar geti selt og keypt háar fjár­hæðir án þess að gengi breytist of mikið. Hún virðist þó veita lítið viðnám og er líkt og tryll­ings­legur flótti sé kominn í fjár­festa á skulda­bréfa­markaði fremur en að um sé að ræða skipu­lagt undan­hald.

Fjár­festar hafa tapað yfir 25 millj­örðum á þremur dögum

Fjár­festar hafa tapað vel yfir 25 ma.kr. í ríkis­bréfum og íbúða­bréfum á þremur dögum en stærstu eigendur þeirra eru lífeyr­is­sjóðir og stofn­ana­fjár­festar. Verð­mæti á við eitt til tvö félög í Kaup­höll­inni hafa því þurrkast út.

Hvað varð um skipu­lagðan verð­bréfa­markað?

Ólík­legt er að stærri fjár­festar séu hressir þessa dagana. Þróun síðast­liðna daga er ekki til þess fallin að auka traust á innlendum verð­bréfa­markaði, skipu­lagður skulda­bréfa­mark­aður er grunnur og fjár­festa­hóp­urinn of eins­leitur. Leita þarf leiða til að dýpka markað og fá stærri hóp fjár­festa að borðinu.

Vest­firskir Spán­verjar

Samkvæmt heim­ildum Lána­sýslu ríkisins var eign erlendra aðila í innlendum ríkis­skulda­bréfum 193,8 ma.kr. þann 31. október síðast­liðinn. Þann 30. sept­ember nam eign þeirra 185,8 ma.kr. og jókst því um 8 ma.kr. milli mánaða. Erlendir fjár­festar eru því vissu­lega að fjár­festa að auknum þunga á innlendum skulda­bréfa­markaði en mikil hækkun gengis skulda­bréfa í október bendir þó til að kannski hafi einhverjir af þessum erlendu fjár­festum í besta falli verið vest­firskir Spán­verjar.

Eftirá­speki mánað­arins: Einu ári eldri í dag en í gær en ekki sentí­metra hærri!

Ekki hafa verið neinar grund­vall­ar­breyt­ingar í efna­hags­málum þjóð­ar­innar síðast­liðinn mánuð. Capacent spáði 25 punkta vaxta­hækkun í lok sept­ember sem ekki varð fyrr en rúmlega mánuði seinna. Byggðist sú spá á atferli og göngu­lagi seðla­banka­stjóra og eftir­far­andi stað­reyndum: i) Seðla­bankinn á að vera fram­sýnn, hagvöxtur var mynd­ar­legur á fyrri helm­ingi ársins, fram­leiðslu­spenna virðist fara hratt vaxandi, ii) Kjara­samn­ingar innhéldu launa­hækk­anir sem að mati flestra hagfræð­inga munu óhjá­kvæmi­lega koma fram í verð­lags­hækk­unum, iii) Aðhald ríkis­fjár­mála virðist fara minnk­andi í samhengi við fram­leiðslu­spennu, iv) Einn nefnd­ar­manna vildi 75 punkta vaxta­hækkun síðast, v) Þrýst­ingur á Seðla­bankann er mikill um að halda stýri­vöxtum óbreyttum. Ef bankinn heldur stýri­vöxtum óbreyttum þarf rökstuðn­ingur bankans að vera enn sterkari til að sýna fram á að bankinn hafi ekki látið undan þrýst­ingi. Eina sem vinnur á móti stýri­vaxta­hækkun er geng­is­styrking og betri verð­bólgu­horfur til skamms tíma en eins og áður sagði á bankinn að vera fram­sýnn.

Samdráttur í fram­boði yfir­vof­andi

Staðan í efna­hags­mál­unum hefur ekki breyst síða­stliðna 3 daga. Útlit er fyrir að framboð íbúða­bréfa dragist saman enn hraðar en áður. Frá upphafi árs 2013 hefur framboð Íbúða­bréfa dregist saman um 80 ma.kr. Sala bank­anna og afnám gjald­eyr­is­hafta bætir skulda­stöðu ríkis­sjóðs svo um munar.

Er verið að fjár­magna kaup á Arion banka? 

Ein útskýring á þessum tryll­ings­legu viðbrögðum á skulda­bréfa­markaði við 25 punkta hækkun Seðla­bankans gæti verið sú að fjár­magna þurfi kaup á stórri fjár­fest­ingu. Ekkert hefur í raun breyst annað en að fréttir hafa borist af áhuga fjár­festa og lífeyr­is­sjóða á að kaupa Arion banka. Fáir henta betur til þess að vera blóra­bögglar en prakk­ar­arnir í Seðla­bank­anum.

Steikin brann á grillinu

Jafn miklum hagnaði og það skilaði undan­farnar vikur að skort­selja skamm­tíma ríkis­bréf og kaupa lang­tíma ríkis­bréf hefur það skilað jafn miklu tapi síðast­liðna 3 daga.

HFF24 skjól í fall­völtum heimi

Hins vegar vekur athygli að ávöxt­un­ar­krafa HFF24 er nú umtals­vert hærri en um miðjan ágúst en skamm­tíma verð­tryggð skulda­bréf ættu einmitt að vera besta skjól fjár­festa við þær aðstæður sem ríkt hafa á mark­aði.

Skoða greiningu →