lock search attention facebook home linkedin twittter

Verð­bólguspá nóvember

Meðfylgjandi er verðbólguspá nóvember mánaðar

Það verður að gera eitthvað í þessu: Hann er voði þessi verðbólgudraugur. Hætta er á að hann valdi búsifjum á jólunum ef verðbólguspá Capacent gengur eftir. Verðbólguspá Capacent gerir ráð fyrir að vísitala neysluverðs (vnv) hækki um 0,31% í nóvember. Verðbólgan á ársgrunni mun því hækka úr 2,8% í 3,3%.

Innflutt matvæli hækka í verði: Samkvæmt heimildum Capacent kom holskefla hækkana frá matvælabirgjum í haust. Áframhald er á hækkun matvælaverðs í nóvember. Ef eitthvað er, þá er hækkun matvælaverðs minni í nóvember en í október. Capacent gerir ráð fyrir tæplega 0,8% hækkun matvælaverðs í nóvember eftir 0,9% hækkun í október. Hærra matvælaverð hefur 0,11% áhrif á vnv til hækkunar. Ef einhver fjármálastærð er óútreiknanlegri en gengi krónunnar, þá er það olíuverð. Olíuverð hefur lækkað skarpt síðastliðna tvo mánuði og hefur öll hækkun olíuverðs á árinu 2018 gengið til baka á innan við tveimur mánuðum. Verð á bensíni hefur lækkað um 2% og verð á díselolíu hefur verið óbreytt síðan um miðjan október. Capacent gerir ráð fyrir 1% lækkun á eldsneytisverði sem hefur 0,02% áhrif á vnv til lækkunar.

Öll vötn falla til Dýrafjarðar: Síðastliðna 3 mánuði hefur fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 0,3% að meðaltali. Í október hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,4% en 12 mánaða hækkun fasteignaverðs hefur verið stöðug í kringum 4 til 5% síðan í vor. Capacent gerir ráð fyrir 0,3% hækkun fasteignaverðs í vísitölu neysluverðs sem hefur 0,06% áhrif á vnv til hækkunar. Leiguverð hefur tekið kipp síðustu mánuði en mikil hækkun á fasteignagjöldum liggur í loftinu og því kemur hækkun á leigu ekki á óvart. Capacent gerir ráð fyrir 1% hækkun leiguverðs sem hefur 0,06% áhrif á vnv til hækkunar. Samtals gerir Capacent ráð fyrir að húsnæðisliður vísitölu neysluverðs leggi 0,13% til hækkunar vnv.

Jólagjafirnar verða dýrari í ár: Jafn hröð gengisveiking og hefur verið síðustu vikur er líkleg til að koma fljótt fram í verðlagi. Capacent gerir ráð fyrir að húsgögn, heimilisvörur, raftæki, fatnaður, bifreiðar og leikföng hækki í verði vegna gengisveikingar. Jólagjafirnar verða dýrari í ár. Hærra verð framangreindra vöruflokka hefur 0,21% áhrif á vnv til hækkunar. Capacent gerir einnig ráð fyrir lítilsháttar hækkun á áfengi og heilsugæslu og ýmsum smærri liðum sem hafa 0,06% áhrif á vnv til hækkunar.

Fullkominn stormur: Rekstraraðstæður flugfélaganna hafa gjörbreyst á skömmum tíma. Samkvæmt könnun Capacent lækkuðu flugfargjöld um 15% í nóvember eða svipað og á sama tíma í fyrra. Fá merki eru um hækkun flugfargjalda en lægra olíuverð virðist heldur ekki koma fram í flugfargjöldum. Lægra verð flugfargjalda hefur 0,16% áhrif á vnv til lækkunar. Verð á gistingu lækkar á þessum árstíma og gerir Capacent ráð fyrir 5% lækkun á verði gistingar sem hefur 0,02% áhrif á vnv til lækkunar.

Skoða greiningu →