lock search attention facebook home linkedin twittter

06 maí 2020

Nokkur heil­ræði – Þórður Sverr­isson

Þórður Sverrisson, ráðgjafi Capacent, skrifaði á dögunum nokkur heilræði fyrir stjórnendur.

Heilræði til stjórnenda

Líklega er að bera í bakkafullan lækinn að leggja til enn ein heilræðin í ljósi stöðunnar í samfélaginu í dag. Margt gott hefur þegar komið fram en vissulega hafa mis skynsamlegar tillögur líka litið dagsins ljós. Allir meina vel, en eðlilega eru mismunandi forsendur til staðar hjá hverjum og einum. Donald Trump forseti Bandaríkjanna hefur til dæmis tæpar eða engar forsendur fyrir flestu sem hann segir. Það stoppar hann ekki við að tjá sig og gefa ráð. Nokkrir sjálfskipaðir sérfræðingar spruttu fram á fyrstu dögum Covit – 19 sjúkdómsins en hafa flestir þagnað í ljósi magnaðrar frammistöðu þríeykisins öfluga; Víðis, Þórólfs og Ölmu.

Heilræði fyrir atvinnulífið hafa langflest verið á uppbyggilegum nótum. Hagfræðingar hafa bæði verið bjartsýnir og svartsýnir enda eðlilegt að skiptar skoðanir séu um framtíðina. Rekstrarhagfræðingar hafa bent á uppbyggilega hluti sem stjórnendur gætu horft til í glímu sinni við þessa fordæmalausu stöðu. Góðir punktar komið fram um að vinna heima og kosti fjarfunda og einnig vakin athygli á mikilvægi þess að starfsmannahópurinn sýni seiglu og þrautseigju í krefjandi aðstæðum. Og mitt uppáhald, mikilvægi stefnumótunar, er áréttuð á þessum óvissutímum.

Inn í þessar pælingar langar mig til að stinga nokkrum áherslum sem ég tel skynsamlegt fyrir stjórnendur að horfa til. Engir töfrapunktar að sjálfsögðu, enda þeir ekki til. Bara nokkur atriði sem reynslan hefur kennt mér að rétt sé að huga að, einkum fyrir minni og lítil fyrirtæki.

·        Stjórnendahópurinn samstíga og sterkur; Ef einhvern tíman er ástæða fyrir stjórnendur að þjappa sér saman og stilla saman strengi, þá er það núna. Þó félagsleg fjarlægðarmörk geri stjórnendateyminu erfitt að vera á sama stað, þá er ekkert mál að halda fjarfundi. Það hefur reynslan undanfarnar vikur kennt okkur. Það hefur aldrei mikilvægara að stjórnendur leggi sig sérstaklega fram við að sinna hlutverkum sínum sem sterkir leiðtogar.

·        Mórallinn skiptir miklu máli; Í því skrýtna ástandi sem ríkir í dag eru margir óöruggir og trektir. Starfsfólk er viðkvæmt, ekki síst fyrir orði og æði stjórnenda. Því er mikilvægara en nokkru sinni að stjórnendur sýni hegðun sem styrkir hópinn. Aðgerðir geta komið illa við starfsfólk, en mikilvægt er að stjórnendur gæti að þessu. Verið í stöðugu sambandi við sitt fólk, stappað í fólk stálinu og hvatt það til dáða.

·        Starfsmannahópurinn og stærð hans; Fækkun á fólki sem aðgerð til sparnaðar er ekki fyrsta val nema eftirspurn nánast hverfi eins og í ferðaþjónustunni. Engu að síður er rétt að skoða vel hvort hægt sé að hagræða þannig að starfsemin sé keyrð á færra fólki en í dag. Skoða þarf verkefnin, eðli þeirra og mikilvægi, og meta hvað er hægt að gera.

·        Leiðir til að hagræða; Ekki síst á þessum tímum er nauðsynlegt að skoða möguleika til hagræðingar. Oft koma í ljós möguleikar á að einfalda hluti eða hætta að gera eitthvað sem ekki skiptir öllu máli, og spara þannig fjármagn. Málið er að stjórnendahópurinn ræði ítarlega hvað hægt er að gera til að hagræða.

·        Markaðsmál eru nauðsynleg; Freistandi getur verið að skrúfa fyrir allt sem snýr að markaðsmálum. Það er einfaldlega rangt. Jafnvel er enn frekari þörf að styrkja markaðsmálin. En í erfiðum rekstri þarf að vanda sig. Kreista sem mest úr hverri krónu sem fer í aðgerðir í markaðsmálum. Og þar er mikilvægast að treysta sambandið við þá viðskiptavini sem eru fyrir. Sýna umhyggju og að fyrirtækinu sé ekki sama. Ekki í þeim tilgangi sérstaklega að selja, heldur treysta tengslin.

·        Hafa plan; Gunnar dal, heimspekingur og skáld sagði; „Þeir sem þekkja fortíðina, og skilja nútímann, er öðrum hæfari til að skapa framtíðina“. Það þýðir að stjórnendur verða að halda ró sinni, tala saman í sókn og vörn, og stilla saman strengi. Og það samtal og samráð á að byggja á því sem er vitað með því að horfa til baka. Átta sig á því hvernig hlutir hafa þróast og ræða skýringar á þeirri þróun, hvort sem það snýr að rekstri, markaðnum, eða öðrum lykilþáttum. Með því að þekkja þessa fortíð – ekki síst síðustu vikur – , fá stjórnendur glögga mynd af þeirri stöðu sem fyrirtækið er í þessa dagana og geta betur greint í hverju vandi og tækifæri liggja.