lock search attention facebook home linkedin twittter

10 mar 2020

Eru teymin þín tilbúin í fjar­vinnu?

Kórónuveiran hefur víðtæk áhrif á efnahagslífið um þessar mundir ásamt því að nýjar áskoranir líta dagsins ljós í daglegu starfi.

Áhrif kórónuveirunnar á starfshætti

Þessa dagana skiptir miklu að fyrirtæki og stofnanir sýni mikla ábyrgð og verndi starfsfólk og viðskiptavini fyrir COVID-19 og frekari útbreiðslu smits. Á sama tíma verður hins vegar einnig að hlúa að daglegri starfsemi og rekstri.

Við slíkar aðstæður reynir á þá markvissu vinnu sem stjórnendur fyrirtækja hafa unnið að í mannauðsmálum og teymiseflingu. Í óvissu þeirri sem nú einkennir umhverfi vinnustaða getur verið áskorun að halda starfseminni og teymum gangandi og tryggja áframhaldandi verðmætasköpun.

Það er hlutverk stjórnenda að vera til staðar fyrir starfsfólk, leysa vandamál sem upp koma og halda uppi jákvæðum og uppbyggjandi samskiptum.

Í dag ætti tæknin ekki að vera fyrirstaða þess að starfsfólk vinni heima. Nú, þegar huga þarf að smitvörunum, þurfa margir að nýta sér þann kost. Það getur hins vegar verið áskorun að starfa verkefnamiðað fjarri félögunum eða að leiða teymi þó svo að tæknilega sé það ekki flókið.

Teymisvinna í fjarvinnu kallar á nýjar áskoranir fyrir stjórnendur: 
 • Hvernig styðjum við við bakið á starfsfólki sem er að ganga í gegnum óvissuástand? 
 • Hvernig skipuleggjum við teymisstarf í fjarvinnu? 
 • Hvernig nýtum við tæknina í teymisstarfi og hvaða tækifæri eru til staðar til að vinna verkefnamiðað? 
 • Hvernig getum við virkjað og stutt við starfsfólkið á meðan á fjarvinnunni stendur og tryggt áframhaldandi verðmætasköpun? 

10 ráð til stjórnenda fjarvinnandi teyma

 • Byrjaðu og endaðu daginn á samskiptum við starfsfólkið
 • Byggðu upp vinnuskipulag fyrir hvern dag og vikuna í heild í samstarfi við teymið
 • Vertu til staðar fyrir starfsfólk, vertu með regluleg einstaklings- og teymissamtöl
 • Aðstoðaðu starfsfólk við að nýta sér tæknina til fundarhalda og samskipta
 • Upplýstu um stöðu verkefna og hjálpaðu starfsfólki að forgangsraða verkefnum
 • Hvettu starfsfólk til að læra nýja hluti og efla sjálft sig, faglega og persónulega
 • Sýndu skilning á mismunandi aðstæðum starfsfólks, hlúðu sérstaklega að þeim sem gætu verið einangraðir og einmana
 • Veittu starfsfólki stuðning og hjálpaðu því við að halda ró sinni, auka vellíðan og efla heilsu
 • Haltu í gleðina og húmorinn – og passaðu að teymið geri það líka
 • Vertu leiðtogi og hafðu jákvæð og góð áhrif á aðra.