lock search attention facebook home linkedin twittter

03 jan 2020

Árið í hnot­skurn

Framkvæmdastjóri Capacent, Halldór Þorkelsson, svaraði nokkrum spurningum fyrir Markaðinn og birtist greinin í Fréttablaðinu 28. desember 2019.

Greinar

Halldór horfir jákvæðum augum á nýtt ár og telur að þau félög sem hafi farið í nauðsynlegar aðhaldsaðgerðir á síðastliðnu ári muni verða skilvirkari og öflugri.

 

Það sem gekk vel á árinu:
Margt spennandi og skemmtilegt   hefur átt sér stað hjá okkur á árinu sem er að líða. Nú nýverið gengum við t.d. frá samstarfi við Alfreð sem við áformum að þróa enn frekar á nýju ári. Við mótuðum og settum í loftið fjölda mælaborða, t.d. mælaborð borgarbúa en þar gefst fólki tækifæri á því að finna á aðgengilegu formi mælingar og upplýsingar um rekstur borgarinnar og lífið sem í henni þrífst.
Stafræn umskipti og Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna hafa verið okkur ofarlega í huga í störfum okkar fyrir hvort heldur sem er opinbera aðila eða félög í samkeppnisrekstri. Við áttum farsælt samstarf við landshluta og sveitarfélög við að móta sóknaráætlanir til næstu ára og erum afskaplega stolt af þeim mikla árangri sem viðskiptavinur okkar Landsvirkjun hefur náð í jafnréttismálum sem kristallast í Hvatningarverðlaunum jafnréttismála 2019. Einnig er vert að geta þess að innleiðing nýs áætlanakerfi fyrir íslenska ríkið hefur gengið vel.

 

Það sem var krefjandi á árinu:
Sú þjónusta sem við erum að veita viðskiptavinum okkar er í eðli sínu nokkuð breytileg. Breyttar áherslur og árferði hafa því veruleg áhrif á hvaða þjónustuþættir okkar eru fyrirferðamestir hverju sinni. Við fundum vel fyrir því á árinu að breyttar rekstrarforsendur fyrirtækja urðu til þess að áherslur breyttust nokkuð frá helstu þjónustuþáttum frá fyrra ári.
Við fundum vel fyrir áhrifum af falli Wow á fyrri hluta ársins. Sama á við um þá óvissu sem ríkti vikurnar fyrir gerð kjarasamninga. Á þeim tíma héldu aðilar almennt að sér höndum og forðuðust að taka ákvarðanir. Það má svo segja að áhrifa nýrra kjarasamninga hafi aftur gætt á seinni hluta ársins en glögglega mátti greina að róðurinn var þyngri hjá fyrirtækjum almennt. Fjöldauppsagnir í bankakerfinu höfðu líka veruleg áhrif. Heilt yfir fundum við fyrir því að viðskiptavinir okkar hafa verið varfærnari í öllum sínum aðgerðum á árinu sem er að líða samanborðið við árið áður og ljóst að hægari snúningshraði hagkerfisins hefur haft áhrif.

 

Hvernig horfir árið 2020 við þér í rekstrinum?
Við horfum full eftirvæntingar til nýs árs. Ekki er annað að greina af viðskiptavinum okkar en flestir telji að hagkerfið taki aftur við sér þegar líða tekur á nýtt ár enda allar forsendur til staðar. Þetta styður nýútkomin skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um Ísland þar sem sjóðurinn styður þær aðgerðir sem gripið hefur verið til og telur til þess fallnar að auka hér aftur snúningshraða hagkerfisins.
Að mínu mati munu erfiðar en oftar en ekki nauðsynlegar aðhaldsaðgerðir sem komu til framkvæmda á þessu ári skila skilvirkari og öflugri félögum á nýju ári. Ég er að sama skapi sannfærður um að jákvæð reynsla af því að takast á við tímabundna niðursveiflu eftir langvarandi uppgang styrki fyrirtæki og opinbera aðila enn frekar til góðra verka á nýju ári. Það ætti að vera öllum hvatning að sjá hversu vel hagkerfið var í stakk búið til þess að takast á við tímabundna lægð.