lock search attention facebook home linkedin twittter

21 apr 2020

5 ráð fyrir fjar-atvinnu­viðtöl

Capacent hefur tekið saman fimm ráð fyrir fjar-atvinnuviðtöl.

Hvernig næ ég að sanna mig í fjar-atvinnuviðtali?

Vegna Covid-19 hafa fyrirtæki og ráðningarstofur tekið upp á því að taka starfsviðtöl nánast alfarið í gegnum fjarbúnað eins og Teams, Zoom og Skype svo hægt sé að halda ráðningarferlum áfram. Viðtöl í gegnum fjarbúnað eru þar með einnig góð lausn til þess að minnka útbreiðslu á Covid-19.

Fjarviðtal er kannski ekki mikið frábrugðið hefðbundnu viðtal og eru spurningarnar í viðtalinu að mestu leiti alveg eins. Þar er hins vegar margt sem breytist við það að tala við fólk í gegnum fjarbúnað í stað þess að gera það í persónu.

Ef þú ert í atvinnuleit eða hefur nú þegar fengið boð í fjarviðtal, þá erum við hér með nokkur ráð um hvernig þú getur undirbúið þig.

 

  • Staðsetning og bakgrunnur í fjarviðtalinu

Það er nauðsynlegt að velja sér rólegan stað með góðri lýsingu og hlutlausum bakgrunni fyrir viðtalið. Þannig kemur þú í veg fyrir truflanir í bakgrunninum á meðan á viðtalinu stendur. Oft eru umsækjendur heima hjá sér þegar þau fara í fjarviðtal og þá er gott að upplýsa fjölskyldumeðlimi um að trufla ekki á meðan á viðtalinu stendur.

  • Prófaðu búnaðinn þinn áður

Þótt að tæknin sé ávallt að þróast þá getur verið gott að tryggja það að búnaðurinn virki svo viðtalið gangi sem best fyrir sig og að þú tengist án vandræða. Það er gott að athuga hvort nettengingin, myndavélin, hljóðkerfið og fjarbúnaðurinn/kerfið virki ekki alveg örugglega áður en að viðtalið hefst og að gera það tímanlega.

  • Góður undirbúningur

Eins og er ráðlagt fyrir hefðbundin viðtöl, þá er ávallt gott að vera vel undirbúin/n fyrir viðtalið, þ.e.a.s. að búa sig undir þær spurningar sem geta komið í viðtalinu. Skoðaðu vel þær hæfnikröfur sem gerðar eru til starfsins. Vertu tilbúin/n að svara með dæmum þegar þú ert spurð/ur um reynslu, hvort sem er af hlutlægum eða huglægum þáttum, hér finnur þú fleiri hagnýt ráð varðandi hvernig þú getur svarað spurningum í viðtali.

Einnig er gott að skrifa niður hjá sér, áður en að viðtalið hefst, þær spurningar sem þú vilt spyrja fyrirtækið um á meðan á viðtalinu stendur eða í lokin. Það má alveg punkta niður hjá sér atriði í gegnum viðtalið eða spurningar sem vakna og sem þú vilt spyrja út í í lokin.

  • Klæðnaður

Þótt þú sért heima að taka fjarviðtal þá er samt sem áður ráðlagt að vera snyrtileg/ur til fara. Hugsaðu út í það hvort klæðnaðurinn þinn sé viðeigandi fyrir starfið sem þú ert að sækja um.

  • Vertu þú sjálf/ur!

Það getur verið krefjandi að taka fjarviðtal en reyndu að vera þú sjálfur og láttu persónuleikann þinn skína í gegn (með því að brosa, beita líkamstjáningu og sýna þína huglægu styrkleika). Fyrirtækið vill heyra frá reynslu þinni og hæfni í starfið en er líka að leita að einstaklingi sem passar í teymið sitt og endurspeglar gildi fyrirtækisins.

 

Þótt þetta sé fjarviðtal þá er gott að halda augnsambandi; horfðu beint í myndavélina, þannig nærð þú að mynda tengingu við viðmælendur.

Í lokin er gott að minna sig á það að fjarviðtal er eins mikilvægt og hefðbundið viðtal. Gangi þér vel!