lock search attention facebook home linkedin twittter

08 apr 2020

10 ráð í kjölfar atvinnu­missis

Capacent hefur tekið saman 10 ráð fyrir einstaklinga.

10 ráð í kjölfar atvinnumissis

  • Gefðu þér tíma til að átta þig. Það getur verið að það taki nokkrar vikur (en ólíklegt er að það taki nokkrar klukkustundir). Ekki ætlast til þess af sjálfum/sjálfri þér að það taki þig bara daginn að ná áttum. Það er áfall að missa vinnuna, jafnvel þó að það sé vegna þess ástands sem nú varir og ekkert verður við gert. Þess vegna ættir þú að leyfa þér að taka dálítinn tíma til að vinna úr þessum nýju aðstæðum.
  • Reyndu að forðast gremju. Það er eðlilegt að verða sár og reið(ur) þegar maður fær slæmar fréttir en það er mikilvægt dvelja ekki í reiðinni. Gremja getur haft mikil áhrif á það hvernig til tekst við að finna nýtt starf. Neikvæðni grefur um sig og gerir það enn erfiðara að takast á við þær áskoranir sem fylgja því að leita að nýju starfi.
  • Talaðu við þá sem þú treystir. Segðu vinum þínum eða fjölskyldu hvernig þér líður og hvaða hugsanir þú ert að kljást við. Veldu þá sem eru líklegir til að veita þér uppbyggilega endurgjöf og eru hughreystandi. Það eru töluverðar líkur á því að vinir þínir og fjölskylda vilji hjálpa þér að komast í gegnum þetta.
  • Leyfðu þér að hafa gaman. Það getur verið snúið að vera jákvæður í þessari stöðu en það gerir andlegri og líkamlegri heilsu ekkert nema gott að hafa gaman og gleðjast. Það getur verið ágætt að muna að staðan á bankareikningnum breytist ekki, hvort sem þú ert í góðu eða slæmu skapi.
  • Nú er tækifærið. Þetta gæti verið þinn tími til að breyta til og skoða hvað þig virkilega langar að gera. Það er full ástæða til að opna hugann og láta sig dreyma. Veltu fyrir þér hvað þig langar að gera, hvaða stefnu í lífinu þig langar að taka, hvaða styrkleika þú hefur og hvað þú þarft að gera svo draumar þínir geti ræst.
  • Hugsaðu út í netsporið þitt. Nú er rétti tíminn til að skoða hvernig þú birtist á samfélagsmiðlum. Skoðaðu það sem þú hefur sagt, birt eða deilt og veltu fyrir þér hvernig það blasir við mögulegum vinnuveitendum. Taktu til og ekki taka gremju þína í garð fyrri vinnuveitanda út á netinu. Það má vera að það hafi verið tilefni til að tjá sig um einhver mál á sínum tíma en nú gæti verið rétti tíminn til að hreinsa út óheppileg komment.
  • Fáðu ráðgjöf. Hvort sem það er við ferilskrána, viðtalið, kynningarbréfið eða nokkuð annað sem tengist því að sækja um starf. Það er fullt af fólki sem veitir faglega ráðgjöf í atvinnuleit bæði til einstaklinga og hópa. Fjölmörg námskeið eru í boði og góð ráð víða að finna.
  • Það er vinna að leita að vinnu. Þeir sem eru í atvinnuleit missa oft móðinn og fyllast vonleysi þegar hægt gengur. Það getur verið erfitt að fá neikvæð svör eða jafnvel engin svör. Það gildir um þetta eins og svo margt annað að hafa úthaldið og þrautseigjuna til að halda áfram þrátt fyrir mótlæti. Samkeppni um störf getur verið mikil og því fáir sem komast að í viðtöl. Reyndu að láta neikvætt svar styrkja þig frekar en brjóta þig niður. Ef það er gengur illa þá byrjar þú bara efst á þessum lista aftur – og aftur.
  • Vertu viðbúin/nn. Það kemur að þeirri stundu að þú færð nýtt starf. Ekki halda annað. Undirbúðu þann tíma vel og vertu í stakk búin(n) til að hefja störf með jákvæðni og kraft í farteskinu. Það kemur að því og þá þarftu að vera klár í slaginn.
  • Mundu þakklætið. Þakklæti er mikilvægt þegar á móti blæs. Þakkaðu fyrir alla litlu hlutina sem eru að ganga vel og skipta þig máli á hverjum degi. Þakkaðu líka fyrir þá stóru og ekki síst þetta óumbeðna tækifæri til að breyta lífi þínu á uppbyggilegan hátt, þrátt fyrir allt.