lock search attention facebook home linkedin twittter

27 nóv 2019

Verður til nýtt landslag sveit­ar­stjórn­ar­stigsins?

Fjölmenn sveitarfélög geta sinnt verkefnum sem betra er að séu á ábyrgð staðbundins stjórnvalds með lýðræðislegt umboð.

Greinar

Alþingi hefur nú til meðferðar stjórnartillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga og aðgerðaáætlun til að fylgja henni eftir. Í henni er meðal annars gert ráð fyrir því að setja á ný ákvæði um lágmarksíbúafjölda í sveitarfélögum þannig að frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2022 verði hann 250 íbúar og 1.000 fjórum árum síðar.

Á sveitarfélögunum hvíla margháttaðar skyldur sem krefjast faglegrar þekkingar og hæfni og það er erfitt eða jafnvel ómögulegt að uppfylla þær kröfur sem til þeirra eru gerðar ef íbúar eru fáir. Fámenn sveitarfélög hafa þurft að grípa til samvinnu til að geta sinnt lögmæltum verkefnum og sumum skyldum er illa sinnt eða jafnvel ekki. Á hinn bóginn gætu fjölmenn sveitarfélög sinnt verkefnum sem betra er að séu á ábyrgð staðbundins stjórnvalds með lýðræðislegt umboð en að þjónustan sé veitt af ríkisvaldinu eða með samvinnu sveitarfélaga sem takmarkar aðkomu og aðhald kjósenda að ákvarðanatöku.

Á landinu eru nú 13 sveitarfélög þar sem búa færri en 250 manns og íbúar þeirra eru samtals innan við 1.500. Sameining við önnur sveitarfélög hefur verið samþykkt í íbúakosningu í einu þeirra, Borgarfjarðarhreppi. Eftir stendur að ef tillaga samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um lágmarksíbúafjölda verður lögfest þurfa 12 sveitarfélög að sameinast öðrum í fyrri áfanga. Í sumum tilvikum er alveg augljóst hverjum þessi fámennu sveitarfélög þurfa að sameinast en í öðrum er svo ekki. Sums staðar ná samliggjandi sveitarfélög ekki einu sinni að komast yfir 250 íbúa markið með sameiningu, hvað þá heldur 1.000.

Víða geta fámenn sveitarfélög gengið inn í fjölmenn og öflug sveitarfélög. Í átta af 12 sveitarfélögum þar sem nú eru færri en 250 íbúar er einboðið að sameinast sveitarfélagi sem er með eiri en 1.000 íbúa fyrir. Staðan er hins vegar mun viðkvæmari þar sem byggðin er dreifðust og þar hefur íbúum víða fækkað á undanförnum árum.

Í 26 sveitarfélögum eru íbúar eiri en 250 en færri en 1.000. Í þessum sveitarfélögum búa nú tæplega 16.000 manns. Í tveimur þeirra hefur sameining þegar verið samþykkt í íbúakosningu og því mun nýtt lágmark íbúafjölda væntanlega snerta 24 sveitarfélög. Ég sé tvo kosti í sameiningarmálum þessara sveitarfélaga. Annar er sá að sameinast einungis þannig að íbúafjöldinn fari yfir lágmarkið 1.000. Hinn er sá að sveitarfélög sameinist til að mynda stærri heildir, jafnvel þótt þau séu ekki knúin til þess af lágmarksíbúafjölda.

Taka má Eyjafjörð sem dæmi. Í Svalbarðsstrandarhreppi búa innan við 500 manns og svæðið hefur að mörgu leyti á sér yfirbragð úthvers frá Akureyri. Í Grýtubakkahreppi búa innan við 400 og hafa takmarkaðan áhuga á sameiningu eins og komið hefur fram að undanförnu. Í Hörgársveit búa rúmlega 600 en íbúar Eyjafjarðarsveitar losa þúsundið. Í Dalvíkurbyggð annars vegar og Fjallabyggð hins vegar búa tæplega og rúmlega tvö þúsund íbúar í hvoru sveitarfélagi. Sú spurning sem íbúar Eyjafjarðar standa frammi fyrir er hvort þeir telja hag sínum betur borgið til framtíðar með því að sameinast eins lítið og mögulegt er til að uppfylla væntanleg skilyrði um lágmarksíbúafjölda í sveitarfélagi eða hvort vænlegra sé að búa til eina 25.000 íbúa stjórnsýslueiningu. Frá Siglufirði til Grenivíkur eru innan við 120 km meðan vegalengdin milli Djúpavogs og Borgarfjarðar eystri um Öxi er 155 km. Þeir tveir staðir verða fljótlega í sama sveitarfélagi. Sambærilegar eða líkar aðstæður eru víðar á landinu.

Ef svo færi að sameining sveitarfélaga horfði ekki einungis til þess að komast upp fyrir þau lágmörk sem boðuð hafa verið, heldur frekar til þeirra tækifæra sem í því felast að gera sveitarfélögin almennt að mun öflugra stjórnsýslustigi en nú er, verða engu að síður eftir landsvæði þar sem byggð er mjög dreifð og íbúar fáir. Þau landsvæði sem hér um ræðir eru Dalabyggð, Reykhólasveit og það sem áður var Strandasýsla; norðausturhorn landsins frá Þistilfirði í Vopnafjörð og svo Suðurlandsundirlendið austanvert. Hér þarf samfélagið í heild að styðja sérstaklega við íbúana til þess að tryggja að þeir njóti nauðsynlegrar grunnþjónustu og nýta til þess þá möguleika sem nýjasta tækni býður upp á.

Víða á landinu eru tækifæri til þess að sameina þjónustusvæði í mun öflugri stjórnsýslueiningar en sveitarfélögin eru nú. Ríkisvaldið er tilbúið til þess að styðja við sameiningu þannig að staðbundið stjórnvald geti sinnt grunnþjónustu við íbúana af fagmennsku og metnaði og jafnvel bætt við hana málaflokkum sem betra væri að sinna nálægt íbúunum og á þeirra forsendum. Hvað sem öðru líður er það ljóst að mikil tækifæri liggja í faglegri og öruggari stjórnsýslu í fjölmennari og færri sveitarfélögum. Það er nauðsynlegt að vanda vel til verka við undirbúning og framkvæmd sameiningar og nota tækifærið til að móta sameiginlega framtíðarsýn.