lock search attention facebook home linkedin twittter

25 nóv 2019

Hvenær er stefna stefna?

Stefna, er hugtak sem kemur oft fyrir í samfélagsumræðu. Vissulega jákvætt, enda allir sammála um að skýr sýn á hvert skuli halda sé forsenda markvissrar vinnu hjá samstíga hópi einstaklinga. Vinna við stefnumótun er hins vegar oft í þoku og stundum er stefnuhugtakið sjálft óljóst í hugum fólks

Greinar

Líklega lýsa orðin „stefna er það sem stefna gerir“ best tilgangi vinnu við mótun stefnu. Í þeim orðum kristallast það virði sem verður að vera í stefnu þ.e. stefna þarf fyrst og síðast að hreyfa hluti í þá átt sem vilji er til að fara. Stefna þarf því bæði að vera „leiðarljós“ um þær áherslur sem eiga að einkenna alla þætti starfseminnar, sem og að „varða“ skilmerkilega þá leið sem á að fara. Og raungera þannig þá framtíðarsýn sem stefnt er að. Ekki síst er mikilvægt að til staðar sé réttur skilningur á viðfangsefni stefnumótunar þegar hún snýr að stórum málaflokkum í samfélaginu eins og menntamálum, heilbrigðismálum og umhverfismálum, svo dæmi séu nefnd. Það er því sérstaklega áhugavert að velta fyrir sér hvaða forsendur gera stefnu að stefnu í stórum samfélagslegum málaflokkum.

Í mínum huga snýst vinna við stefnumótun um að svara tveimur lykilspurningum:

  1. Annars vegar hvort stefnan sé að mæta þeim lykilþáttum sem slík vinna þarf að horfa til,…
  2. … og hins vegar hvort verklag við mótun stefnunnar hafi fylgt skýru og öguðu ferli. Skoðum þetta aðeins nánar.

Lýsing á stefnu þarf að draga skýrt fram þær áherslur sem mynda stoðir málaflokksins til framtíðar þ.e. um hvað á starfsemin að hverfast fyrst og fremst. Fyrst er að lýsa tiltekinni hugmyndafræði stefnunnar sem hefur þann tilgang að skapa hughrif og draga fram myndir og aðstæður sem hjálpa til við stilla saman strengi almennt. En það sem skiptir í raun meira máli er að málið sé tekið áfram. Með því að skilgreina forgangsverkefni, setja skýr markmið sem stefna á að, og tilgreina á hvern hátt meta eigi árangur. Þarna þarf að lýsa krítísku þáttum útfærslunnar; skýrri forgangsröð, leiðum við fjármögnun, leiðum við bjargir og mannafla, markmiðum og árangurmælingar. Með öðrum orðum; aðgerðabinda framkvæmd hugmyndafræðinnar og stefnunnar sem hún byggir á, þannig að „stefnan sé það sem stefnan gerir“.

En stefnan er ekki nægjanleg ein og sér. Þar þarf að koma til sá „infrastrúktúr“ sem á að hreyfa alla þætti málaflokksins í takt við stefnuna. Gangverkið sjálft – verkfærið – þarf að vera samhæft og öll tannhjól snúast á réttan hátt.

Og rétt er að undirstrika að árangur málflokks snýst ekki einungis um skýra stefnu og skilvirkt gangverk, heldur þurfa þeir einstaklingar sem starfa innan málaflokksins að vera sáttir og ganga í takt. Lykilatriði er að þeir skilji áherslur stefnunnar, séu á einlægan hátt sammála meginlínum hennar, og þekki sitt hlutverk til að láta hlutina ganga.

Seinni lykilspurningin snýr að verklaginu sjálfu þ.e. hvernig er mótun stefnunnar unnin. Og þar er rétt að árétta sígilt þríþætt ferli; stöðumat, mótun stefnunnar, og innleiðingu aðgerða. Mat á stöðunni á hverjum tíma er lykilatriði í stefnumótun. Greining á þeim jákvæðu þáttum sem einkenna stöðuna og sýn á þá þætti sem þörf er að takast á við að styrkja, er sá grunnur sem þarf að vera traustur fyrir framhaldið. Samtal og hlustun eru lykilatriði. Öll þau fengin að borðinu sem málið snertir á einn eða annan hátt. En ekki er aðeins nóg að hlusta, heldur er gagnaöflun stór hluti stöðumats. Nauðsynlegt er að skoða til að draga ályktanir um fortíðina, átta sig á stöðunni í dag, og hafa þannig grunn að mótun sýnar til framtíðar. Stöðumat á að leiða í ljós þá jákvæðu stöðu sem mikilvægt er að varðveita áfram, auk þeirra krítísku spurninga sem leita verður svara við. Hér þarf að eiga sér stað skipulögð efnisleg umræða, þannig að smám saman teiknist upp sú sviðsmynd sem stefnt skal að. Og þær stefnumarkandi áherslur sem verða leiðarljós vegferðar til æskilegrar framtíðar.

Lokaskrefið af farsælli vinnu við stefnumótun er áætlun um það sem þarf að gera til að framtíðarsýnin nái fram að ganga og verði að veruleika. Hér birtast forgangsverkefni og aðgerðir þeim tengdar sem horfa til einstakra markmiða og varða á vegferðinni sem bíður.

Stefna er því aðeins stefna, að innihaldið sé skynsamlegt og verklag við vinnunna agað og markvisst.

 

Höfundur: Þórður Sverrisson
Uppruni greinar: Sjá LinkedIn
Stefnumótun Capacent: Sjá hér