lock search attention facebook home linkedin twittter

10 des 2019

Gild­ismat stjórn­enda

Þórður skrifar hér hugleiðingar um gildi og gildismat stjórnenda.

Greinar

Ekki er furða þó að hugsun um gildi og gildismat leiti á mann þessa dagana í ljósi umræðunnar um Samherja og Namibíu. Yuval Noah Harari, höfundi Sapiens, verður þetta einnig að yrkisefni í síðustu bók sinni 21 Lessons for the 21st Century. Eflaust greinir fólk eitthvað á um hver gildin í lífinu eigi að vera, en fyrir stjórnendur sem leiðtoga í sínum fyrirtækjum, má færa rök fyrir því að þau sex gildi sem Harari dregur fram, gætu eða ættu að vera þeim leiðarljós. Heimsækjum þau stuttlega.

·       Sannleikur; heiðarleiki, traust og trúverðugleiki eru hornsteinar í samskiptum. Og þau samskipti verða að byggja á hreinskilni og að sannleikur sé sagna bestur. Stundum reynir á og skammtíma leið lyga getur verið freistandi. Heiðarlegur stjórnandi verður hins vegar alltaf að hafa sannleikann að leiðarljósi. Abraham Lincoln gerði sér grein fyrir vægi sannleikans þegar hann sagði; „Ég trúi einarðlega á fólk. Ef því er sagður sannleikurinn, þá er hægt að stóla á að það mæti hvaða áskorun sem er. Aðalatriðið er að færa þeim staðreyndir og sannleika“.

·       Samúð; að finna til með samborgurum sínum er eitt af því sem gerir mannfólkið að því sem það er. Að sælla sé að gefa en þiggja, er í samhljómi við samúð. Samúð getur birst í skilningi stjórnandans á ólíkum aðstæðum samstarfsfólks og viðskiptavina, og hjálpar á þann hátt til. Samúðin er ef til vill göfugust dyggða og hefur verið mörgum mannvininum hugleikinn. Albert Schweitzer sagði; „Tilgangur jarðvistar okkar er að þjóna, og sýna samúð og vilja til að hjálpa öðrum“. Og Dalai Lama sagði; „Ef þú vilt gleðja aðra, sýndu samúð. Ef þú vilt sjálfur vera glaður, sýndu samúð“.

·       Jafnrétti; var ekki sjálfgefið í íslensku samfélagi í áratugi, í hvaða formi sem var. En síðustu ár hefur orðið mikil vakning á þessu sviði ekki síst hvað varðar jafnrétti milli karla og kvenna. Og stjórnandi sem ekki áttar sig á löngu tímabæru kalli tímans á þessu sviði, á ekki langa framtíð í starfi. Jafnrétti hefur líka víða skírskotun og snertir alla þætti samfélags og alla þætti í innra starfi fyrirtækja. Tónlistar- og baráttumaðurinn Bono sagði eitt sinn; „Það sem við erum að tala um hvað varðar jafnrétti er mannréttindi. Rétturinn til að lifa sem manneskjur. Rétturinn til að lifa. Punktur“.

·       Frelsi; eitthvað sem allir vilja á hvaða sviði sem er. Umboð til athafna í starfi er ein birtingarmynd frelsis. Frelsi til að segja sína skoðun í starfsumhverfi og menningu sem fagnar slíkri hegðun. Og orð sem studd eru í verki af stjórnanda. Stjórnenda sem skilur mikilvægið fyrir líðan einstaklingsins. Stórmennið Nelson Mandela sagði; „Að vera frjáls er ekki aðeins að losna við hlekki, heldur lifa á þann hátt sem virðir og styrkir frelsi annarra“.

·       Hugrekki; eitthvað sem kannski kemur á óvart. Merkingin hér er víðtæk. Ekki síst tengd þeirri hugsun að prófa nýjar leiðir, fara nýjar slóðir og reyna nýja hluti. Horfa til baka, meta stöðuna, en hafa hugrekki til að fagna og skapa spennandi framtíð. Og ekki síst að hver og einn standi með sjálfum sér og fái frelsi til þess. Frumkvöðullinn Steve Jobs sagði; „Tími þinn er takmarkaður þannig að ekki eyða honum í að lifa lífi einhvers annars. Ekki láta hávaðann af skoðunum annarra drekkja þinni innri rödd. Og það sem er mikilvægast, hafðu hugrekki til að fylgja hjartanu og innsæinu“.

·       Ábyrgð; að endingu er það að vera ábyrgur og taka ábyrgð á gjörðum sínum. Talar við sannleikann, en beinist skarpar að persónulegum gæðum hvers einstaklings. Snýr að því hvort stjórnandinn sé ábyrgur í ákvörðunum og samskiptum við sitt starfsfólk og aðra. Og ábyrgðin er ekki hugsuð þröngt, heldur tengist hún hvernig hún birtist gagnvart samfélaginu öllu. Tvöfaldi Nóbelsverlaunahafinn Marie Curie sagði; „Þú getur ekki vonast eftir að byggja betri heim án þess að bæta einstaklinginn. Í því ljósi þarf hvert okkar að vinna að því að bæta sig, og á sama tíma deila almennri ábyrgð með öllu mannkyninu. Sérstaklega þeim sem við teljum að séu mest hjálpar þurfi“.

Kjarni málsins er þessi; sá sem velst til forystu og áhrifa þarf að vera framsýnn og ábyrgur einstaklingur, sem skilur jafnrétti og virðir gildi sannleikans, um leið og öðru fólki er sýnd sanngirni, og því veitt frelsi og umboð til athafna.

Og ef þessi gildi eru mátuð við umræðu í samfélaginu, þá verður maður oft hugsi…

 

Höfundur: Þórður Sverrisson
Lesa meira: Vinnustaðamenning