lock search attention facebook home linkedin twittter

04 maí 2017

Bækur sem þarf að lesa…

Á hverju ári koma út ógrynni svokallaðra fagbóka og fyrir stjórnendur er oft erfitt að finna þær bækur sem gagnast best. Bækur sem hafa að geyma boðskap sem hjálpar stjórnendum að styrkja hin þrjú sígildu viðfangsefni í rekstri fyrirtækja; stefnu, skipulag og starfsfólk.

Greinar

Miðað við fjöldann sem kemur út verða fáar bækur metsölubækur og stundum er ástæða fyrir sölu bókar öflug markaðssetning, fremur en að innihald hennar sé sérstaklega áhugavert eða boði nýja og betri nálgun við viðfangsefnið. Þannig myndast spenna og umtal um bækur sem við nánari skoðun bera fátt með sér sem bætir við það sem fyrir var. Þegar efni bókar er grannt skoðað kemur í ljós að keisarinn er fáklæddur í besta falli. Hjarðhegðun markaðar/lesenda ræður hins vegar för.

Þar sem ljóst er að það getur verið erfitt að finna þær bækur sem skipta raunverulegu máli, langaði mig til að deila með lesendum þeim þremur bókum sem að mínu mati skara fram úr á sínu sviði. Gnæfa yfir aðrar fyrir efnistök, læsileika, skynsemi, og hagnýtan boðskap til stjórnenda í sinni glímu við að ná árangri. Bækur sem maður þarf eiginlega að lesa.

  1. Good Strategy, bad strategy; The Difference and Why It Matters eftir Richard Rumelt. Besta bók um stefnumótun sem ég hef lesið. Punktur. Rumelt er með doktorsgráðu frá Harvard og á langan og farsælan feril sem fræðimaður og ráðgjafi. Það sem einkennir skrif Rumelt er hversu illa honum er við allt kjaftæði og froðu. Í bókinni, sem kom út árið 2011, dregur hann saman áralanga reynslu og rannsóknir sínar á stefnumótun. Hann sýnir fjölda dæma um slaka stefnu  fyrirtækja sem og stefnur sem að hans mati eru skynsamlegar og vel hugsaðar. Styður hann þær skoðanir með afar sannfærandi rökum. En texti Rumelt er ekki bara læsilegur og fræðandi, heldur leiftrar hann af ástríðu og stundum reyndar af ergelsi yfir því hvað mikið af þvælu á sér stað við mótun stefnu. Lesandi hrífst með og eftir situr almenn afstaða til stefnumótunar sem er afar gott veganesti til framtíðar.
  2. How Brands Grow; What Marketers don´t know eftir Byrons Sharp.  Önnur bók sem breytti afstöðu minni og skilningi á mörkun (e. branding). Gefin út 2010 og svo mögnuð lesning að ég þurfti stundum að leggja hana frá mér til að jafna mig. Doktor Sharp er í dag prófessor í Marketing Science við háskólann í South Australia og hefur rannsakað og skrifað um vörumerkjamál í mörg ár. Og vörumerkjafræðin eru nátengd mótun stefnu, enda á kjarni vörumerkis að innihald það sem stefnan á að ná fram. Bók Sharp kom inn í fræðasamfélagið eins og hvítur stormsveipur og setti spurningamerki við margt sem áður hafði verið talinn „sannleikur“. Sýnir enn og aftur hversu mikilvægt er að vera með efasemdir. Er  keisarinn raunverulega í fötum?
  3. The Halo Effect…and the Eight Other Business Delusions That Deceive Managers eftir Phil Rosenzweig.  Ef til vill sú besta af þeim öllum. Kom fyrst út árið 2007 og í lengri útgáfu 2014. Rosenzweig er prófessor í stefnumótun og stjórnun við IMD í Lusanne í Sviss. Það sem er heillandi við bókina er hvernig Rosenzweig fer kerfisbundið yfir margar af frægustu metsölubókum í gegnum tíðina, og nánast tætir þær í sig með því að vísa í rannsóknir og traust rök. Og hann gerir það ekki af einhverri biturð heldur skín einfaldlega í gegn óþol fyrir hjarðhegðun atvinnulífsins, þar sem dásömuð er óverðskulduð snilli. Í raun afar hugrökk skrif sem enginn gæti borið á borð nema að vera viss um réttmæti og mikilvægi þess sem hann fjallaði um. Eftir lestur bókarinnar freistast maður til að heimsækja aftur margar af þeim bókum sem Rosenzweig gagnrýnir en maður las með áhuga á sínum tíma. Og minnast um leið orða Siddhārtha Gautama Buddha sem sagði; „Trúðu engu, sama hvar þú last það eða hver sagði það, nema það sé í samhljómi við þína eigin rökhugsun og skynsemi.“

Greinin birtist í ViðskiptaMogganum 4. maí 2017