lock search attention facebook home linkedin twittter

06 jan 2017

Að vera eða fara

Það er við hæfi í upphafi nýs árs að stjórnendur líti um öxl, meti stöðu fyrirtækis síns, og velti fyrir sér þeirri framtíðarsýn sem æskilegt er að stefna að. Um það snýst stefnumótun.

Greinar

En stefnumótun má ekki aðeins nota þegar horft er til fyrirtækja, stofnana eða félagasamtaka. Hver og einn einstaklingur getur, og á í raun, að velta fyrir sér slíkum spurningum út frá sjálfum sér. Ekki síst út frá stöðu sinni og hlutverki í starfi.

Lífið snýst um að hafa gaman af því. Töluverðum hluta ævinnar er eytt í vinnunni og því er eins gott að hafa ánægju af þeim tíma. Þess vegna er mikilvægt að spyrja sjálfan sig reglulega hvort maður ætlar sér að vera áfram í sínu starfi, eða fara. Vissulega er það svo að ekki eiga allir auðvelt með að fara úr sinni vinnu þó þeir gjarnan vildu, en tilgangur þessa pistils er að vekja athygli á mikilvægi þess að hver og einn hugsi um þessi mál. Hver er sinnar gæfu smiður.

Þegar ég hef velt fyrir mér minni eigin framtíðarsýn, hef ég löngum horft á fimm lykilþætti. Þetta eru þeir þættir sem ég hef lagt til grundvallar fyrir sjálfan mig þegar ég hef svarað spurningunni um að vera í starfi eða fara. Og hver og einn hefur sín persónuleg viðmið sem geta auk þess breyst yfir tíma. Það sem einum þykir t.d. einhæft verkefni, er annar sáttur með.

Skoðum þá þessa þætti.

Í fyrsta lagi spyr ég; er ég að vinna við skemmtileg og gefandi verkefni? Þetta er frumforsendan. Að hafa gaman af þeim verkefnum sem glímt er við í vinnunni. Að hlakka til að takast á við daginn því maður veit að verkefnin eru gefandi og áhugaverð en ekki einhæf og leiðinleg. Að eigin mati. Það er skelfilegt að leiðast í vinnu vegna leiðinlegra viðfangsefna.

Í öðru lagi; er ég að þróast í starfi? Ég hef alltaf lagt áherslu á að hafa tækifæri til að þróast í starfi. Hafa tækifæri til að leita nýrra leiða og vita að fyrir hendi er svigrúm til að sýna frumkvæði og nýta það. Finna að maður er að þroskast áfram en ekki kominn djúpt niður í venjubundið far og hættur að sjá yfir brúnina.

Í þriðja lagi; hef ég þau áhrif á umhverfið sem ég er sáttur við? Það skiptir mig máli að hafa áhrif. Hversu mikil þau áhrif eru eða hversu langt þau ná út fyrir næsta umhverfi getur verið mismunandi. Í öllu falli þá skiptir máli að á mína skoðun sé hlustað.

Í fjórða lagi; er ég að vinna með áhugaverðu samstarfsfólki? Það er ómetanlegt að vinna með góðu fólki sem er ólíkt og tekst á við að kryfja hluti á jákvæðan, uppbyggilegan og frjóan hátt. Vinna með fólki sem ber virðingu hvert fyrir öðru og skapar umhverfi sem er laust við marga slæma fylgifiska fyrirtækjalífs. Fjölbreytni og heiðarleiki innan hópsins er aðalatriðið.

Í fimmta lagi; fæ ég sanngjarna umbun og endurgjöf fyrir starf mitt? Eðlilega skiptir máli hvað maður uppsker í sínu starfi. En það eru ekki bara aurar til að kaupa salt í grautinn heldur ekki síður öll sú endurgjöf sem færir manni heim sanninn um að maður vinni gott starf. Hér spilar inn í hrós og uppbyggileg endurgjöf sem færir mann áfram í þroskaferlinu.

Til þessara þátta hef ég horft til og á reglubundinn hátt metið hvort ég eigi að vera eða fara. Allir þættirnir sveiflast innbyrðis yfir tíma og þróun þátta getur verið afar ólík. Hægt er að ímynda sér tiltekna óskastöðu fyrir hvern þátt og einnig ásættanlega stöðu. En allir þættirnir þurfa að vera innan þessara tveggja viðmiða. Ef einhver af þáttunum fer niður fyrir ásættanlega viðmiðið, sársaukastigið, þá dregur sá þáttur alla hina niður. Staðan verður óviðunandi og ef ætlað er að sú staða verði til langframa á maður að hætta og leita nýrra leiða. Marka nýja stefnu og nýja framtíðarsýn. Lífið er allt of dýrmætt til að eyða því í leiðindi.

Greinin birtist í ViðskiptaMogganum 6. janúar 2017