lock search attention facebook home linkedin twittter

04 júl 2016

Trú, stað­festa og styrkur liðsins

Peter Drucker, sem er oft talinn faðir nútíma stjórnunarfræða, sagði eitt sinn; „Þeir leiðtogar sem vinna markvissast segja aldrei „ég“. Og það er ekki vegna þess að þeir hafa þjálfað sig í að segja ekki „ég“. Þeir hugsa ekki „ég“. Þeir hugsa „við“; þeir hugsa „liðið“.

Greinar

Þeir skilja að hlutverk þeirra er að láta liðið vinna saman sem heild. Þeir taka á sig ábyrgð og reyna ekki að komast undan henni, en „við“ fær þakkirnar og hrósið. Þetta er það sem skapar traust, það sem gerir stjórnandanum kleift að vinna verkefnið, hvert sem það er“.

Einn þekktasti þjálfari/framkvæmdastjóri í knattspyrnu í dag, Jose Mourinho, var á svipuðum nótum þegar hann sagði eitt sinn; „Þú finnur að liðið er hamingjusamt, og hamingjusöm lið eru hættuleg“.

Og leiðtogafrömuðurinn Warren Bennis sagði; „Það besta sem leiðtogi getur gert fyrir hópinn er að leyfa hverjum meðlima hans að uppgötva hvers hann er megnugur“.

Mér var hugsað til þessara frómu orða þegar ég tók þátt í því frábæra ferðalagi sem íslenska þjóðin átti með landsliði okkar í Evrópumótinu í knattspyrnu. Liði sem vann hug og hjörtu okkar og annarra þjóða fyrir samstöðu, fórnfýsi, baráttu og liðsanda. Á blaði hafði liðið ekki á að skipa jafn sterkum einstaklingum í öllum stöðum og fjölmennari þjóðirnar og því fyrirfram búist við því að Íslendingar ættu á brattann að sækja. En íslenska liðið sýndi og sannaði að máttur samstíga liðs og einstaklinga sem trúa á sjálfa sig, er mikill. Liðið hafði skýrt sameiginlegt markmið og hver og einn vissi nákvæmlega hvert hlutverk hans var og hvernig leikkerfið (skipulagið) átti að virka til að ná árangri. Og allir trúðu því að að þeir gætu unnið hvaða lið sem er.  Sumir spekingar höfðu á orði fyrir mót að ekki væri vænlegt til árangurs að spila gamalt leikkerfi sem fáir notuðu lengur, en liðið sýndi að kerfið skiptir ekki öllu ef leikmenn (starfsmenn) skilja hlutverk sitt og eru samstíga í að láta hluti virka.

Og fyrir liðinu fór óumdeildur foringi sem sagði „við“ en ekki „ég“ í öllum viðtölum. Þegar Aron Einar fyrirliði var spurður út í eigin frammistöðu, svaraði hann alltaf með því að undirstrika að hann væri bara hluti af sterkri liðsheild. Það væri það sem skipti öllu máli. Það er liðið sem vinnur leikinn en ekki einstakir leikmenn. Aðdáunarvert var líka hvernig þetta hugarfar var ekki einungis bundið við fyrirliðann eða fáa einstaklinga, heldur hvern einasta leikmann. Ekki síst voru það markaskorar liðsins – þeir sem oft fá athyglina – sem sýndu hvers djúpt þessi hugsun risti. Allir sem skoruðu beindu viðtölunum strax inn á þá áherslu að þó að þeir hefðu skorað, þá var það aðeins vegna þess að þeir voru hluti af sterkri heild sem vann saman í sókn og vörn. Beindu þökkum og hrósum á liðið, en ekki sjálfa sig. Og þráðurinn sem batt allt saman var vinátta, jákvæðni og hamingja fyrir því tækifæri sem var þeirra að nýta.

Og ekki má gleyma þætti þjálfaranna Lars og Heimis, sem vöktu athygli sparkspekinga og allra þeirra sem fylgdust með fyrir skýra sýn, gott skipulag, hógværð og hlýju. Þeir voru hugmyndafræðingar þess hvernig íslenska liðið nálgaðist keppnina. Höfðu á fjórum árum byggt upp á markvissan hátt lið sem hafði skýra framtíðarsýn og metnað til að ná þeirri sýn. Lið, sem skyldi hvaða ótrúlegu möguleikar felast í styrk samstíga einstaklinga, sem trúa á mátt sinn og megin, og vinna saman að því að ná markmiðunum. Höfðu uppgötvað með hjálp Lars og Heimis hvers þeir voru megnugir. Eins og Heimir orðaði það; „Ef þú vilt eitthvað þá verður þú að vera tilbúinn að nýta tækifærið þegar það kemur“.

Kjarni málsins er sá að árangur íslenska landsliðsins í knattspyrnu er dæmi sem allir stjórnendur geta horft til og tekið sér til fyrirmyndar. Þar koma saman lykilþættir sem mynda grunnforsendur árangurs; skýr markmið og framtíðarsýn, öflugt skipulag sem allir þekkja, og sterk, samstíga liðsheild. Lið sem skilur hvert er stefnt, er sammála því hjarta sér, og allir vita hvert hlutverk þeirra er til að ná árangri. Þegar þessir þættir koma saman, geta ótrúlegir hlutir gerst.