lock search attention facebook home linkedin twittter

20 des 2016

Nýr fram­kvæmda­stjóri Capacent

Halldór Þorkelsson lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Capacent á Íslandi. Hann tekur við starfinu um áramót af Ingva Þór Elliðasyni, sem mun snúa sér að ráðgjafarverkefnum af fullum krafti.

Tilkynningar

Halldór Þorkelsson er fæddur árið 1971. Hann lauk lögfræði við Háskóla Íslands árið 1999 og hóf þá störf hjá fjármálaráðuneytinu þar sem hann starfaði á tekju- og lagasviði. Þar sinnti hann ýmsum störfum m.a. samskiptum fyrir hönd ráðuneytisins við ríkislögmann vegna  málatilbúnaðar sem beindist að íslenska ríkinu og vann að frumvarpagerð.

Hann hóf störf hjá PricewaterhouseCoopers ehf. árið 2001 og hefur starfað þar síðan. Frá árinu 2004 hefur hann veitt ráðgjafasviði félagsins forstöðu með ágætum árangri og auk þess verið  partner hjá PwC frá 2005. Hjá PwC hefur Halldór annast verkefnaöflun og unnið beint við ráðgjöf af ýmsum toga, oftast þó í tengslum við eigendabreytingar á félögum. Halldór er giftur Hildi Dungal, lögfræðingi, og saman eiga þau þrjú börn.

Ingvi Þór, sem verið hefur framkvæmdastjóri Capacent frá árinu 2008 mun frá og með áramótum snúa sér að ráðgjafaverkefnum af fullum krafti og munu verkefni hans ekki síst tengjast upplýsingatækni og fjármálum.

Þröstur Sigurðsson, stjórnarformaður Capacent segir:  „Það er mikill fengur fyrir okkur að fá Halldór til liðs við okkur. Við erum sannfærð um að ráðning hans muni ekki síst efla Capacent í fjármálatengdri ráðgjöf, sem að við höfum verið að byggja upp á síðustu árum, m.a. með greiningardeild sem að verðmetur öll skráð hlutafélög auk skuldabréfa. Markmið okkar hjá Capacent á næstu árum er að halda áfram að styrkja félagið með vexti og er ráðning Halldórs mikilvægur liður í því.“

Halldór Þorkelsson segir: „Ég er fullur tilhlökkunar yfir því að ganga til liðs við Capacent og starfa þar með stórum og öflugum hópi ráðgjafa á fjölbreyttum sviðum, allt frá stefnumótun og fjármálatengdri ráðgjöf að ráðningum auk fjölbreyttra hugbúnaðarlausna, ekki síst á sviði stjórnendaupplýsinga. Ég hef fylgst lengi með fyrirtækinu og hefur sú þróun og framsækni sem einkennir starfsemina vakið athygli mína og ég hlakka til að fá að taka þátt í þeirri þróunarvinnu og þeim vexti sem í vændum er. Það eru mjög spennandi tímar fram undan hjá Capacent sem miða að því að efla félagið enn frekar.“

Hjá Capacent á Íslandi starfa um 50 ráðgjafar að fjölbreyttum verkefnum á sviði ráðgjafar og ráðninga. Fyrirtækið er í eigu starfsfólks.