lock search attention facebook home linkedin twittter

14 júl 2016

Nær allir starfs­menn á Íslandi falla utan efstu tíundar!

Annað sem blasir við er að aðferðin að „ráða bara þá bestu“ getur tölfræðilega ekki virkað nema fyrir lítinn hluta fyrirtækja og stofnana. „Bestir“ eru takmörkuð auðlind.

Greinar

Það er gaman að sjálfsögðum sannindum. Sérstaklega þeim sem hljóma furðulega en eru þegar að er gáð, algerlega rétt. Dæmi um slíkt er „Flestir eru venjulegir“ eða „Helmingur Íslendinga er undir meðaltali“. Í fyrra dæminu er hugmyndin „flestir“ tengt við hugtakið „venjulegir“ þannig að okkur finnst það skrýtið. Okkur finnst við öll vera einstök og frábær – sem er að sjálfsögðu rétt. Brandarinn er að þegar öllum finnst það sama er það ekki lengur sérstakt, heldur venjulegt. Við erum bara ekki vön að hugsa þannig um heiminn. Seinna dæmið er auðveldara því að fyrirbærið „meðaltal“ er reikningslegt hugtak sem er beinlínis ætlað að skipta safni talna í tvennt. Þannig er nánast ómögulegt að búa til safn einstaklinga þar sem helmingurinn er ekki undir meðaltali (um rangnotkun meðaltals í stað miðgildis er efni í aðra grein ).

En þó að ofangreint sé sett fram sem skemmtilegar vangaveltur þá hafa þær raunveruleg áhrif á ákvörðunartöku og lausnir. Til dæmis hafa sum íslensk fyrirtæki áttað sig á því að þau ná lengra með að einbeita sér að því að ráða fólk sem er yfir meðaltali í samanburðarhópi. Það er ágæt aðferð, en krefst mikils af fyrirtækinu og kostar oft sitt í launum og öðrum hlunnindum – besta fólkið veit oft af því og gerir kröfur í samræmi við það. Annað sem blasir við er að aðferðin að „ráða bara þá bestu“ getur tölfræðilega ekki virkað nema fyrir lítinn hluta fyrirtækja og stofnana. „Bestir“ eru takmörkuð auðlind.

En hvað er þá til ráða? Jú, við tekur það sem þekkt hefur verið frá dögum fyrstu borgríkjanna – skipulag og stjórnun. Sjálfstæðum víkingum, bændum og veiðimönnum (Íslendingum) hefur þótt þetta þvælast fyrir og engan veginn til bóta. Við erum meira að segja heimsfræg fyrir viðhorf okkar til vandamála „Þetta reddast!“. Í McKinsey skýrslunni frá 2012 var bent á að ein leiðin til að auka framleiðni á landinu væri einmitt að huga að skipulagi og stjórnun.

En hvað eiga þá fyrirtæki og stofnanir að gera til að auka árangur sinn með venjulegu fólki (sem eru nær allir). Fujio Cho, heiðursstjórnarformaður Toyota, sagði um þetta „Við náum framúrskarandi árangri með venjulegu fólki sem stýrir frábærum ferlum – en samkeppnisaðilar okkar ná miðlungs eða verri árangri með framúrskarandi fólki í brotnum ferlum“. Reynslan hefur sýnt að Fujio hefur margt til síns máls.

Það skiptir því ekki máli hvort verið er að ræða um móttöku viðskiptavinar í verslun, rekstur vélasamstæðu, frágang á tilboði, tínslu á lager, nýjan starfsmann, framkvæmd innkaupa eða annað sem við fáumst við í vinnunni og lífinu. Ef við gerum saman hlutinn oftar en tvisvar og vitum að framkvæma þarf sama verk reglulega um langan tíma, þá borgar sig að skipuleggja verkefnið. Leita leiða til að vinna það með sem minnstum tilkostnaði og mestum gæðum. Skipulagt vinnulag þýðir ekki að öll verk séu höggvin í stein og verði óumbreytt til enda tímans, heldur að verkið er framkvæmt með tiltekinni aðferð þangað til betri aðferð finnst – og því fyrr sem sú aðferð finnst því betra. Þannig nást stöðugar umbætur.

Í dag er vakning í mörgum íslenskum fyrirtækjum og stofnunum. Stjórnendur eru í auknum mæli að átta sig á að það verður að gera meira fyrir minna og betur en áður, ef ná á árangri. Vonandi verður framhald á þeirri braut – þetta reddast nefnilega ekki bara lengur. 21. öldin er mætt.