lock search attention facebook home linkedin twittter

10 apr 2016

Klík­u­ráðn­ingar – vondar eða vanmetnar?

Klíkuráðning (greiðaráðning, vinaráðning) er hugtak sem við notum rétt eins og mörg önnur hugtök án nokkurrar sérstakrar skilgreiningar.

Greinar

Umræða um klíkuráðningar byggir þó yfirleitt á einhverju af eftirfarandi;  einhvers konar venslatengsl, ráðið er í starfið án auglýsingar, skortur á hæfni þess sem er ráðinn, starfið einungis aðgengilegt einum útvöldum, og að þegar á öllu er á botninn hvolft sé um að ræða siðlausa ákvörðun um hæfni og útilokun annarra jafnhæfra eða hæfari.

Því hefur verið slegið fram að á Íslandi fái engin vinnu nema „þekkja rétta fólkið“ og þannig gefið í skyn að það sé siðlaust að fá vinnu í gegnum tengslanetið sitt (sem er þá væntanlega „rétta fólkið“). Veruleikinn er hins vegar fjarri þessu. Það er leitun að stjórnendum í bæði opinbera og einkageiranum sem vilja ekki manna allar sínar stöður með hæfasta fólkinu. Því það vita allir sem hafa stjórnað að „ranga“ fólkið kostar gríðarlega mikla vinnu, fjárútlát og vondan móral. Þess vegna eru stjórnendur yfirleitt alltaf að leita að þeim einstaklingi sem uppfyllir best þau skilyrði sem starfið og vinnustaðurinn gerir til hans.

Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á að einhverjar bestu ráðningarnar sem til eru séu einmitt það sem fella mætti undir „klíkuráðningar“. Það er þegar sá sem er ráðinn er ráðinn vegna tengsla við núverandi starfsfólk og stjórnendur eða meðmæla þeirra um viðkomandi í starfið. Ástæðan fyrir því að þessar ráðningar eru farsælar er sú að meðmælandi með viðkomandi gerir sér grein fyrir því að að hann hefur lagt dómgreind sína og trúverðugleika að veði með meðmælunum. Þetta á ekki síst við þegar meðmælandinn kemur til með að starfa með eða vera háður frammistöðu þessa einstaklings í framtíðinni. Það er því oftast góð leið að kanna möguleika á nýju starfsfólki í gegnum tengslanet núverandi starfsmanna og stjórnenda. Á þessu er þó ein frábending- ef ekki ríkir traust og virðing á milli fyrirtækis og starfsfólks getur þetta verið vond aðferð.

En afhverju fer þá vont orð af klíkuráðningum?

Sennilega er orðspor klikuráðninga byggt á þeirri sögu að fólk hafi ekki getað fengið starf án þess að tilheyra réttum flokki eða tilheyra réttum karlaklúbbi. Sem mætti kannski umorða og segja að þeir sem eru, eða voru, með stærsta tengslanetið eigi mestan möguleika á tilteknum störfum. Jafnvel má segja að í litlu landi og samfélagi geti verið töluverð áskorun fólgin í því að finna einstakling sem er ekki venslaður öðrum með neinum hætti í umhverfinu.

Sögum um klíkuráðningu fylgir oft lýsing á því að viðkomandi starfsmaður hafi með engu móti staðið sig í starfi. Allir geta verið sammála um að ráðning einstaklings sem stendur sig ekki í starfi séu ráðningamistök og þegar þau verða vegna tengsla finnst áhorfendum þau alvarlegri en önnur ráðningamistök. En það gleymist að ráðningamistök eru býsna algeng. Til að mynda kom fram í könnun sem Capacent gerði 2010 að á tveggja ára tímabili höfðu 50% stjórnenda (sem voru að ráða) einhvern tímann gert ráðningamistök. Spurningin er hvort að algengi ráðningamistaka með tengslanetsráðningu sé hærra eða lægra en þegar um annarskonar ráðningar er að ræða, ég held ekki.

Með þessu er ekki verið að lýsa stuðningi við siðlausar ráðningaákvarðanir. Veruleikinn er hins vegar býsna flókinn og skaðlegar og siðlausar klíkuráðningar eru sjaldgæfari en mætti virðast af almannarómi.