lock search attention facebook home linkedin twittter

23 maí 2016

Hvers virði er mótun stefnu?

Í sinni einföldustu mynd má segja að hlutverk stjórnanda sé fyrst og fremst að taka ákvarðanir til heilla fyrir eigendur fyrirtækisins og ýmsa aðra hagsmunaaðila svo sem viðskiptavini og starfsfólk. Og lykilspurning hverrar ákvörðunar snýr að þeim ávinningi sem hún skapar fyrir fyrirtækið.

Greinar

Þetta þýðir að áður en stjórnandi og stjórnendateymi ákveða að „gera eitthvað“, þarf að vera til staðar mat á þörf aðgerðar og þeim ávinningi eða virði sem hún hefur. Vandi og viðfangsefni stjórnenda felst því ekki síst í því að meta virði hverrar ákvörðunar sem tekin er. Hér reynir ekki síst á að meta forgangsröð þess sem á að gera því hverri aðgerð fylgir einnig fórnarkostnaður. Hvað er það sem skiptir mestu máli? Hvaða aðgerðir eru að skila mestum ávinningi?

Sumar ákvarðanir eru þess eðlis að ekki virðist mjög flókið að meta virði þeirra eða mikilvægi. Oft eru þetta ákvarðanir sem snúa að grundvallarstarfsemi fyrirtækis svo sem að endurnýja framleiðslulínu eða kaupa nýjan hugbúnað. Stundum er um að ræða ákvarðanir sem nokkuð borðleggjandi er að skynsamlegt sé að fara í t.d. að þjálfa starfsfólk í nýju kerfi viðskiptastjórnunar, eða hanna nýjar umbúðir um vöruna. Í öllum tilvikum er hægt að færa rök fyrir að því að ákvörðunin sé virðisskapandi.

En hvað með virði þess að móta stefnu? Hvernig á að meta þá ákvörðun m.t.t. mikilvægis í samanburði við þau dæmi sem að framan eru nefnd? Hér vandast oft málið það mikið að stjórnanda reynist erfitt að taka ákvörðun. Í fyrri dæmum var það spurningin um að ráðast í nýtt kerfi til að nota í viðskiptastjórnun, en hér snýr spurningin að því að hefja vinnu við stefnumótun. Í fyrra dæminu virðist nokkuð ljóst að nýtt kerfi gerir fyrirtækið betur í stakk búið að rækta tengslin við viðskiptavini sína, auka tryggð þeirra og væntanlega viðskipti til framtíðar. Ekki í sjálfu sér flókið að taka ákvörðun um slíkt, jafnvel þó það feli í sér nokkurn kostnað. Hins vegar er spurningin um að móta stefnu til framtíðar…sem er fyrir marga stjórnendur erfitt að átta sig á hvort að skipti í raun miklu máli og sé virði þess tíma og fjármuna sem til er kostað. Vandinn tengist hversu víðtæk stefnumótun þarf að vera til að nýtast, sem um leið gerir ákvörðunina erfiða og oft flókna í hugum stjórnenda. Ekki síst er snúið fyrir marga stjórnendur að meta líklegt virði þess sem vinnan skilar, þar sem stefna er ekki jafn „áþreifanleg“ eins og vélar og hugbúnaður.

Staðreyndin er hins vegar sú að mótun stefnu er í raun mikilvægasta vinnan sem hvert fyrirtæki eða stofnun getur tekið sér fyrir hendur og í raun forsenda þess að aðrar ákvarðanir sé hægt að taka á skynsamlegan hátt.

Mótun stefnu tekur á þeim krítísku grundvallarspurningum sem mynda undirstöðu hvers fyrirtækis; hvert er hlutverk fyrirtækisins? Í hverju felst samkeppnisstyrkur þess? Hvað á að aðgreina vörur þess og þjónustu í samkeppni? Hverjir eru lykilmarkhópar, o.s.frv. Svör við þessum spurningum mynda tilvistargrunn hvers fyrirtækis, sem allar aðrar ákvarðanir þurfa að taka mið af. Ákvörðun um að breyta skipulagi og bæta við fólki með tiltekna þekkingu verður að taka mið af því sem stefnan segir til um. Slíkar ákvarðanir hafa það markmið að styðja við stefnuáherslur fyrirtækis og hreyfa það í átt að fýsilegri framtíðarsýn. Ákvörðun um að endurnýja hugbúnað eða fjárfesta í kerfi um viðskiptastjórnun þarf að taka mið af þeim áherslum sem koma fram í stefnu fyrirtækis á tiltekna markhópa og mikilvægi þeirra fyrir viðskiptin. Ákvörðun um að endurnýja framleiðslutæki verður að byggja á skynsamlegri stefnu sem hefur kortlagt þá markhópa sem vörur og þjónusta eiga að höfða til…sem verða framleiddar í tækjunum.

Kjarni málsins er sá,  að allar meiriháttar ákvarðanir stjórnenda, þurfa að byggja á skýrri stefnu sem er til þess fallin að mynda traustan rekstrar- og starfsgrunn fyrirtækis. Hornsteinninn er stefnan, sem aðrar ákvarðanir þurfa að vera hugsaðar út frá. Ef stefnan er ekki skýr, er hætta á að einstakar ákvarðanir séu teknar með of þröngt sjónarhorn, og ekki víst að þær muni bæta hag eða samkeppnisstöðu fyrirtækis. Stefnumótun á því að að vera forgangsverkefni stjórnenda.