lock search attention facebook home linkedin twittter

19 apr 2016

Hvað merkja öll þessi hugtök?

Í stefnumótun eru margvísleg hugtök notuð sem oft valda ruglingi vegna þess að skilningur á þeim er mismunandi. Skýringin er að hluta til sú að fræðin sjálf eru tiltölulega ung á Íslandi, enda kemur það ekki á óvart ef hafður er í huga sá skammi tími sem við höfum búið við öflugt og fjölbreytt atvinnulíf.

Greinar

Atvinnulíf þar sem skapast hefur þörf fyrir því að takast á við mótun stefnu í virkri samkeppni. Enskan hefur verið ráðandi tungumál þessara fræða og þrátt fyrir góðan vilja til að þýða yfir á íslensku þá hefur gætt mismunandi notkunar á lykilhugtökum. Einkum eru það hugtökin hlutverk (e. Mission), stefna (e. Strategy), og markmið (e. Objectives) sem hafa vafist fyrir fólki. Stundum hefur íslenska orðið „stefna“ verið notað um alla þessa þætti.

Hlutverk (e. Mission) á að draga fram til hvers er fyrirtækið til. Hver sé í raun meginkjarninn í tilvist þess? Hverju er verið að reyna að ná fram á hverjum degi? Hlutverkið dregur fram tilgang fyrirtækisins, stundum á dálítið hátíðlegan hátt, en um leið þær áherslur sem tilvist þess byggist á. Enska orðið „mission“ nær þessu ágætlega. Nokkuð algeng er sú skoðun að hlutverk fyrirtækis sé „að búa til hagnað fyrir hluthafa.“ Það er vissulega rétt en sú skilgreining á hlutverki er ekki nægjanleg í þessu samhengi. Hér þarf að komast að grunni tilvistar sem á síðan að leiða til þess að hluthafar uppskeri umbun. Sem dæmi má nefna stoðtækjafyrirtækið Össur sem hefur skilgreint hlutverk sitt  að „gera fólki með líkamlega fötlun kleift að njóta sín til fulls með bestu stoð- og stuðningstækjum sem völ er á“. Á því byggir tilvist Össurar.

Hugtakið „stefna“ á íslensku nær ekki fullkomlega utan um merkingu enska orðsins „strategy.“ Íslenska hugtakið felur að grunni til í sér að halda í ákveðna átt. Ég stefni til Akureyrar. Ekki djúp merking í orðinu sem slíku, heldur er það bara tiltekin átt. Enska hugtakið hefur meiri dýpt og merkingu. Á bak við „strategíu“ fyrirtækis liggur því sú meining að hún segi til um „á hvern hátt“ fyrirtækið ætli sér að ná samkeppnisforskoti á markaði. Skýringin liggur að hluta til í uppruna orðsins; strategy er komið af gríska orðinu stratégos, sem er samsett úr orðinu stratos, sem þýðir her, og ago, sem merkir að hafa forystu, vera leiðarljós, hreyfast í átt að. Það segir meira en íslenska orðið stefna. Á margan hátt er nær að nota hugtakið „hernaðaráætlun“ til að ná hugsuninni.

Fyrir nokkrum árum rakst ég á ágætt skýringardæmi sem tók m.a. samspili strategíu, markmiðs og það sem hefur verið kallað taktík og er enn eitt orðið sem hefur átt erfitt uppdráttar í íslenskunni. Má þýða sem aðferð, úrræði eða herbragð. Dæmið snerist um þegar að Grikkir reyndu að endurheimta Helenu fögru, konu Menelausar konungs Spartverja, sem hafið verið numin á brott af hetjunni París. Markmið (e. Objective) Grikkja var einfalt; sigra borgina Tróju, þar sem Helena var og ná henni til baka. En hernaðaráætlun (strategía) Grikkja var ekki að virka. Trója var rammgerð og þeir komust ekki inn. Þeir þurftu nýja strategíu. Og upp kom sú hugmynd að opna hlið Tróju innanfrá, án vitneskju Grikkja. Þannig leiddi ný hernaðaráætlun til þess að leitað varð nýrra taktískra leiða til að ná því markmiði sem að var stefnt; sigra Tróju og ná Helenu fögru.

Söguna þekkja allir en líklega hafa Spartverjar prófað ýmsar aðferðir (e. Tactics) hvort sem það þýddi mútur, senda menn í gegnum ræsin, eða henda sjálfboðaliða yfir borgarvegginn. Það hefur ekki gengið en þýddi ekki að nýja strategían var röng, aðeins að aðferðirnar virkuðu ekki fyrr en einhverjum hugkvæmdist að smíða stóra tréhestinn þar sem hermenn Spartverja földu sig.

Kjarni málsins er sá að umræða og vinna við stefnumótun þarf að byggja á sameiginlegum skilningi á merkingu hugtaka því annars getur umræðan orðið flókin og misvísandi.