lock search attention facebook home linkedin twittter

11 apr 2016

Er neikvætt að fyrir­tæki greiði arð?

Hér er stuttlega rætt um arðgreiðslur. Ástæðan er meðal annars sú að upp á síðkastið hefur verið töluverð umræða um arðgreiðslur stórra íslenskra fyrirtækja og sýnist sitt hverjum.

Greinar

Tilgangurinn með rekstri fyrirtækja getur verið ýmis konar. Stundum snýst rekstur um að hafa vinnu og sjá sjálfum sér og fjölskyldu farboða, sumir taka þátt í fyrirtækjarekstri til að auðgast, enn aðrir leggja mesta áherslu á að ná fram öðrum markmiðum, vilja jafnvel breyta heiminum. Til eru dæmi um fyrirtæki sem ekki hafa það að markmiði að skila hagnaði en það er frekar undantekningin en reglan. Þegar öllu er á botninn hvolft snýst rekstur flestra fyrirtækja um að skapa virði fyrir samfélagið, viðskiptavini, starfsfólk og hluthafa. Og þegar best tekst til hagnast allir.

Fyrirtæki þurfa yfirleitt á peningum að halda til að styðja við reksturinn. Þessir peningar koma alla jafna frá fjárfestum, yfirleitt í formi hlutafjár og/eða lánsfjár.Þegar hluthafar eða lánveitendur láta fyrirtækjum fé í hendur ætlast þeir í langflestum tilfellum til þess að fá hæfilega ávöxtun á féð. Sú ávöxtun þarf að vera í takt við áhættuna sem fylgir rekstrinum. Ef áhættan er lítil, til dæmis ef veitt er lán til að tvöfalda Hvalfjarðargöngin, sætta lánveitendur sig við lægri ávöxtun en ef áhættan er mikil eins og þegar ungt sprotafyrirtæki fær sína fyrstu fjármögnun í formi hlutafjár.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að hluthafar þurfa á ávöxtun að halda, alveg eins og lánveitendur. Ávöxtunarkrafa hluthafa er eðlilega hærri en lánveitenda enda fylgir hlutafé meiri áhætta en lánsfé. Lánveitendur hafa yfirleitt tryggingar fyrir endurgreiðslu lánanna og geta alla jafna treyst á reglulegar vaxtagreiðslur, en hluthafar hafa engar tryggingar og fá eingöngu arð ef allt gengur vel. Hluthafarnir eru síðastir í biðröðinni eftir peningum. Fyrst þarf að borga laun og annan rekstrarkostnað, vexti, skatta o.s.frv. Auk þess þarf mögulega að endurgreiða lán og fjárfesta í rekstrinum, t.d. vegna vaxtar eða þróunar. Einungis ef hagnaður er af rekstrinum og staða fyrirtækisins að öðru leyti góð, geta hluthafar átt von á arðgreiðslu.

Fyrirtæki í örum vexti þurfa venjulega á verulegum fjármunum að halda og greiða því sjaldan arð til hluthafa. Það er hinsvegar eðlilegt og sjálfsagt að fyrirtæki greiði arð til eigenda sinna þegar þau hafa í raun engin not fyrir það fjármagn sem myndast með árlegum hagnaði. Gott dæmi um þetta eru íslensku tryggingafélögin þrjú sem hafa þó á undanförnum 6 árum aðeins greitt innan við helming hagnaðar til hluthafa. Lykilatriðið er að til langs tíma ætti að vera gott samhengi milli árangurs í rekstri og þeirrar ávöxtunar sem hluthafar njóta.

Í því sambandi má benda á að fyrirtæki mættu gjarnan hafa skýra og stöðuga stefnu um greiðslu arðs. Fyrirtæki sem starfa á tiltölulega stöðugum mörkuðum gætu til dæmis gefið út að markmið þeirra sé að greiða ávallt ákveðinn hluta af hagnaði til hluthafa, eða að halda ætti ákveðnu eiginfjárhlutfalli, en fyrirtæki í miklum vexti gætu til dæmis gefið út að ekki stæði til að greiða út arð til hluthafa á næstu árum. Stöðugleiki, skýr stefna og framkvæmd varðandi arðgreiðslur eflir trúverðugleika fyrirtækis.