lock search attention facebook home linkedin twittter

11 mar 2016

Eins og amma sagði alltaf…

Margar bækurnar hafa verið skrifaðar um þá list að vera í forystu, stjórna fólki, vera leiðtogi og fá fólk til að fylkja sér á bak við sameiginlega stefnu og markmið. Þessi fræði hafa þróast eins og önnur og orðið fyrir áhrifum af niðurstöðum rannsókna um mannlegt eðli og samskipti einstaklinga í hópum.

Greinar

Lengi var sá álitinn góður stjórnandi sem bókstaflega „stýrði“ sínu starfsfólki. Sagði mönnum til og skipaði fyrir eins og gamla ímynd verkstjórans var. Einhver sem hafði þekkingu og yfirsýn yfir það sem þurfti að gera og vissi mest og best um það sem þurfti að vinna. Þarna var umboð til athafna mjög takmarkað, miðstýring mikil og starfsfólk vann eftir fyrirmælum sem voru endurnýjuð reglulega.

Smátt og smátt sáu stjórnendur skynsemina í vinna meira með liðsheild og hópa og stjórnun fór að snúa í auknum mæli að því að virkja hópana. Áherslan var á að stjórnandinn væri meiri „leiðtogi“ og blési fólki baráttuanda í brjóst. Við það breyttist viðhorf til nauðsynlegrar hæfni einstaklinga sem leiðtoga, og fór að snúast meira að því að hér skipti öllu máli að einstaklingar hefðu skýra framtíðarsýn og gætu miðlað henni til fólksins. Hinn hefðbundni stjórnandi sem stjórnaði með boðvaldi vék þar með fyrir sterka leiðtoganum.

Þegar maður skoðar þessar áherslubreytingar við að nálgast stjórnun þá má greina tiltekin atriði sem talin eru skipta máli hjá þeim einstaklingum sem eiga að sinna hlutverki þess sem er í forystu. Og þessi atriði hafa oftar en ekki hin síðari ár tengst því að viðkomandi einstaklingur sé innblásinn, karismatískur leiðtogi sem heldur tímamótaræður fyrir starfsfólk. Hugtakið „leiðtogi“ hefur öðlast hálfgerða upphafningu og það læðist að manni sá grunur að það sé að einhverju marki á kostnað þeirra þátta sem góður „stjórnandi“ varð að búa yfir. Stundum er umræðan þessu marki brennd; sveiflukennd um að eitt eigi við í dag en annað á morgun, sem gerir það eldra úrelt. Því má bæta við hér að auðvitað hafa ýmsir þættir verið nefndir sem góður leiðtogi ætti að hafa svo sem þolinmæði, umhyggju, ákveðni og sveigjanleika, sem ekki er svigrúm til að skoða nánar í svo stuttum pistli.

Því er þessi þróun mér hugleikinn í þessum pistli af því að ég hef velt því fyrir mér hvað það sé sem láti hlutina ganga og hvaða eiginleikar þurfa að vera til staðar hjá einstaklingi sem velst til forystu. Fenginn til þess að sinna hlutverki fyrirliða hóps, hvort sem það er eining innan fyrirtækis eða fyrirtækisins alls. Og ég hallast meira og meira á þá skoðun sem hún amma mín hafði;  að það sem skipti máli hjá þeim sem vilja hafa áhrif, fá fólk á sitt band og hreyfa við hlutum, sé að vera almennilegur og reiðubúinn til að hjálpast að.

Að vera almennilegur skapar alltaf forsendur fyrir góðu samtali. Samtali stjórnanda við starfsfólk sitt, bæði einslega og sem hóp. Hér skiptir máli að hlusta, skynja líðan, átta sig á tilfinningum og sýna umhyggju og virðingu fyrir hverjum og einum. Hér er ekki átt við að stjórnandi sýni einhverja meðvirkni og taki ekki á neinum málum. Langt í frá. Grunn forsenda samskiptanna við fólkið er hins vegar að vera almennilegur, eins og amma sagði. Almennilegt fólk nær fleiru til leiðar en þeir sem eru það ekki. Svo einfalt er það.

Að vilja hjálpast að er síðan hitt sem skiptir máli. Að stjórnandinn skilji styrk hópsins, leiti eftir hugmyndum og nái að virkja þann eld sem býr í hverjum og einum, bara ef hann fær tækifæri til.  Guð hjálpar þeim sem hjálpast að, sagði Spilverk þjóðanna um árið, og sá sannleikur er í fullu gildi í dag. Og í raun má segja að það sé mikilvæga en áður að stjórnandi átti sig á gildi þess sannleika, þar sem við lifum í heimi sem er að verða flóknari og flóknari og því þörf á að nýta samtakamátt hópsins sem aldrei fyrr.

Kjarni málsins er sá að þrátt fyrir strauma og stefnur með hvað geri einstaklinga að sterkum stjórnanda, þá felst lykillinn í því viðhorfi að það sem skipti mestu máli sé að vera almennilegur og vilja hjálpast að.