lock search attention facebook home linkedin twittter

08 sep 2016

Árang­urs­mæli­kvarðar – „Það er víst hægt að mæla allt!“

Ekki er allt talið sem telur og ekki telur allt, sem er talið... Góður vinnufélagi minn, Þórður Sverrisson, sneri setningunni „Not everything that counts can be counted, and not everything that can be counted counts“ með ofangreindum snilldarhætti.

Greinar

Uppruni orðanna er í þeim vangaveltum að margt af því sem við mælum sé stundum ekki mikilvægt og að okkur skorti aðferðir eða getu til að mæla það sem raunverulega skiptir máli.

Það er engum blöðum um það að fletta að markmið um árangur skila árangri – það sem hefur oft reynst snúið er að mæla árangurinn.

Val á mælikvarða getur haft mikil áhrif hvernig gengur að ná tilteknu markmiði. Nokkuð sem er til að mynda þekkt þegar fólk vill komast í betra líkamsástand. Þá skiptir máli hvort notaðar eru prósentur „Léttast um 10%“, kíló „Ég ætla að léttast um 5 kíló“, sentímetrar „Ég ætla að minnka mittismálið um 10 sentímetra“ eða þyngdar/fitustuðull „Ég vil vera með BMI 20“. Val á mælikvarða hefur í kjölfarið áhrif á þær aðferðir sem notaðar eru til að ná árangri.

Glöggir lesendur tóku eftir því að framangreindir mælikvarðar segja mikið um tiltekna stöðu eða ástand, en ekkert um aðferðir til að ná árangri. Mælikvarðar sem lýsa aðgerðum gætu verið „Ég ætla að borða 1500 kaloríur á dag“, „Ég ætla að hlaupa 40 kílómetra á viku“, „Ég ætla að gera [þessar] æfingar“ og svo framvegis. Mælikvarðarnir spá allir ágætlega fyrir um líklega útkomu á fyrri kvörðunum. Þeir eru líka þeim kostum gæddir að endurgjöf um árangur kemur í hvert skipti sem unnið er í mælikvarðanum, oftast nær daglega. Þeir sem hafa rannsakað árangursríka markmiðasetningu hafa einmitt komist að því að tíð endurgjöf hefur mikil jákvæð áhrif á líkurnar á að ná settu markmiði.

Stjórnendur leita sífellt leiða til að hámarka afkomu sinna fyrirtækja og rekstareininga, auka gæði þjónustunnar eða framleiðni. Til að hafa áhrif á gæði, afkomu eða skilvirkni er mikilvægt að vita hver staðan er og leggja mat á hana á hverjum tíma. Mælingarnar einar og sér hafa þó engin áhrif á niðurstöðuna – greinarhöfundur er áfram jafn þungur þó hann mæli sig oft eða með mörgum ólíkum aðferðum. Ófrávíkjanlega verða 75 þúsund grömm – 75 kíló, sama hversu oft er mælt.

Sterkir stjórnendur hafa tileinkað sér aðferðafræði þar sem hvoru tveggja er metið og lagt að jöfnu, aðgerðir sem bæta ástand (hlaupa, stunda líkamsrækt) og staðan sem aðgerðirnar skila (BMI, þyngd).

Stjórnun er snúið fyrirbæri og stjórnendur þurfa að vera góðir í mörgum ólíkum þáttum; þeir þurfa að vera verk- og sálfræðingar, sterkir í markaðsmálum og rekstri, vera útsjónarsamir og djarfir, auðmjúkir og eitilharðir, fljótir að tileinka sér nýjungar og þekkingu, geta skilið kjarnann frá hisminu, haldið ræður, skrifað texta og svo mætti lengi telja. Hver einstaklingur er missterkur á þessum sviðum og flestir eru sterkir á nokkrum en ekki öllum.

Þeir sem hafa náð mestum árangri vita að það þarf að velja mælikvarða með varkárni. Að mæla það sem skiptir máli og það sem hefur áhrif á mælikvarðana. Það getur hins vegar verið snúið að leggja mat á suma hluti – þá gott að hafa í huga þá staðreynd að það er eðlisfræðilegur ómöguleiki að eitthvað gerist án þess að hægt sé að leggja mat á það. Leiðin að matinu getur verið flókin en þegar verkið er mikilvægt er alltaf hægt að finna leið til að meta árangurinn. Til þess þarf „bara“ útsjónarsemi, þekkingu og reynslu.

Greinin birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 8. september