lock search attention facebook home linkedin twittter

10 maí 2015

Verklag við mótun stefnu

Mótun stefnu hefur sem betur fer fengið aukna athygli undanfarin ár. Sífelld áhrif ólíkra krafta í umhverfinu og harðnandi samkeppni hefur þrýst á stjórnendur til að móta hernaðaráætlun sem leiða á til sterkrar og verjanlegrar samkeppnisstöðu.

Greinar

Stjórnendur hafa í vaxandi mæli áttað sig á að ekki er hægt að stóla á að góð staða haldist til frambúðar heldur þarf að sýna frumkvæði við að endurmeta ýmsar áherslur svo sem markhópa og þjónustuframboð. Allt gott og blessað og ánægjulegt.

Það sem ég er hugsi yfir er það verklag sem notað er við að vinna þá stefnumótun sem nauðsynleg er. Hér virðast sumir stjórnendur ekki átta sig fyllilega á því hvað felst í stefnumótunarvinnu né hver aðkoma starfsmanna eigi að vera. Gera sér ekki grein fyrir að stefnumótun er ekki aðeins mikilvæg, heldur er nauðsynlegt að verkefnið sé rétt skilgreint og verklagið sjálft við að vinna verkið, sé skýrt og agað.

Of oft virðast stjórnendur telja að stefnumótun snúist um að halda vinnufund í einn dag eða svo, þar sem rætt er almennt um hvað sé hægt að gera. Fólki hóað saman undir yfirskriftinni „stefnumótun“ og síðan láta menn móðan mása um allt og ekkert. „Hvað finnst okkur?“, er lykilspurningin. Vissulega geta slíkir fundir skilað hugmyndum sem eru tækifæri til úrbóta, en litlu meira. Fundurinn er ekki hugsaður sem hluti í ferli með tilteknar vörður sem markvisst leiða menn að skynsamlegri niðurstöðu. Slíkir fundir eru þá fyrst og fremst skemmtileg umræða, fremur en stefnumótun.

Að móta stefnu krefst þess að fylgt sé þríþættu ferli á agaðan hátt frá upphafi til enda. Fyrsta skrefið er greining. Lykilskref í ferlinu og felur í sér tiltekið mat á stöðunni þar sem horft er til fortíðar og metnar ástæður þess að fyrirtækið er statt þar sem það er. Hér er lagður grunnur að þeim krítísku spurningum sem fyrirtækið þarf að meta í næsta skrefi. Og það skref snýst um mótun stefnunnar sjálfrar. Horft m.a. til ólíkra sóknarfæra sem tengjast markhópum og þróun þeirra, tækifærum í nýsköpun og kröftum samkeppninnar. Mismunandi sviðsmyndum stillt upp og að lokum ákveðið hver stefnan eigi að vera…og ekki vera. Og oftar en ekki er nauðsynlegt að gera breytingar á skipulagi og stjórnun til að ná fram þeim áherslum sem stefnan felur í sér. Við tekur þriðja og lokaskrefið sem er innleiðing stefnunnar. Áætlun gerð um aðgerðir sem eiga að hreyfa fyrirtækið í þá átt sem stefna og framtíðarsýn segja til um. Hér felst stór hluti aðgerða við innleiðinguna í fræðslu og þjálfun starfsmanna enda eru þeir í lykilhlutverki við að hrísla stefnunni niður skipulagið. Hér er brýn þörf á að starfsmenn skilji stefnuna, séu sammála lokaniðurstöðunni og átti sig á hvernig þeirra störf tengjast stefnunni. Líklega er þetta mikilvægasta skrefið.

Það er því ljóst að stefnumótun snýst ekki um að halda einn skemmtilega vinnudag þar sem stormað er um hlutina í lausbeisluðu formi. Stefnumótun krefst skipulagningar á ferli sem fylgir skýrum vörðum og verklagi og er bæði unnið af stjórnendum og öðru starfsfólki á skilgreindan og agaðan hátt.

© Capacent/Þórður Sverrisson